25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Frv. þetta felur í sér breytingar á gildandi l. um dómsmálastarfa, lögreglustjórn, gjaldheimtu o. fl. í Reykjavík. Aðalbreytingin er sú, að starfi lögreglustjóra er skipt í tvö sjálfstæð embætti. Það þarf ekki skýringa við fyrir hv. þd., að miklir örðugleikar eru á því að hafa ákæru- og dómsvald í lögreglumálum í höndum sama embættismanns, eins og verið hefir í Reykjavík. Úti á landi er vegna fámennis ekki hægt að haga þessu á annan hátt, en ég hygg, að þess muni ekki vera dæmi meðal annara þjóða, að í 37 þús. manna bæ séu þessi störf í höndum sama embættismannsins. Sem yfirmaður lögreglunnar í Rvík er lögreglustjórinn ákærandi í hverju sakamáli, en hann er jafnframt dómari í þeim sömu málum. Það verður að teljast eðlileg þróun í þessum málum. að fyrir fjölmennis sakir o. fl. sé nú breyting gerð á skipan þessara mála og þau falin tveimur sjálfstæðum embættismönnum. Þegar ég gegndi lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, varð ég oft var við undrun hjá þeim útlendingum, sem af einhverjum ástæðum komu hér fyrir rétt, þegar þeir fréttu, að lögreglustjórinn ætti að dæma um mál þeirra, enda þekkist slíkt fyrirkomulag ekki meðal annara þjóða.

Hæstaréttardómararnir hafa gengið frá frv. þessu í sinni núverandi mynd. Það hefir verið sent hlutaðeigandi embættismönnum til athugunar og umsagnar, og geta þau svör, er borizt hafa, orðið n., sem mun fjalla um málið, til leiðbeiningar. Frv. var einnig sent lagadeild háskólans til umsagnar, en svar deildarinar barst ráðuneytinu svo seint, að eigi var unnt að prenta það sem fskj. með frv., eða geta þess í grg., sem þá var fyrir löngu fullsamin og prentuð. Deildin bendir réttilega á, að þótt frv. þetta verði að lögum, þá vanti enn sérstakan ákæranda, eins og tíðkast víða annarstaðar, til að fylgja málum eftir. Skipting þessarar starfsgreinar er því orðin enn fullkomnari þar. Ég hefi hinsvegar ekki talið fært að ganga lengra en gert er með þessu frv.

Þróunin í rekstri lögreglustjóraembættisins hefir orðið sú, að starfið hefir greinzt í tvennt: Annarsvegar löggæzlan í bænum með yfirlögregluþjón til aðstoðar lögreglustjóra, og hinsvegar rannsóknarlögreglan og tveir fulltrúar til aðstoðar við dómarastarfið. Þannig hefir starfið raunverulega skipzt í tvær deildir fyrir eðlilega þróun, þótt lögreglustjórinn sé yfirmaður beggja starfsgreinanna. Þótt stórt spor væri stigið í rétta átt í þessum málum 1928, þegar bæjarfógetaembættinu var skipt, þá hefir fólksfjölgun í bænum og vaxandi annríki við þessi störf gert frekari aðgreiningu þeirra nauðsynlega. Það er naumast hægt að ætlast til þess, að fundinn verði maður, sem er jafnhæfur til þess að gegna bæði löggæzlu- og dómarastarfinu. Til hvors starfans um sig þarf sérmenntun og auk þess sérstaka skapgerð og hæfileika, sem erfitt getur orðið að krefjast af sama manni. Það þarf ekki að fara saman að vera góður dómari og að vera góður að stjórna lögreglumönnum og þeim málum, sem þeirri starfsgrein eru nátengd. Einnig verður að telja alveg óvíst, að góður lögreglustjóri sé jafnframt góður dómari. Það eru þessar orsakir m. a., sem liggja til þess, að frv. er framkomið. Tollstjóri hefir nú þegar sitt afmarkaða starfssvið og sömuleiðis lögmaður, sem fer með dómsvald í einkamálum, ásamt nokkrum umboðsstörfum, en starf lögreglustjórans hefir ávallt verið ofið úr tveimur ólíkum þáttum. –Auk skiptingar dómsvalds og lögreglustjórnar milli tveggja embættismanna eru ráðgerðar smærri breytingar, t. d. flyzt lögskráning skipshafna til tollstjóra — en hann hefir nú alla gæzlu við höfnina í sambandi við skip, — og ennfremur flyzt skipaskráning til hans. Ég vil benda hv. allshn. á það — því að ég geri að till. minni, að sú n. fái málið til athugunar, — að lagadeild háskólans telur betur fara á því, að barnsfaðernismál og meðlagsúrskurðir falli undir starfssvið sakadómara en lögmanns, því að oft þurfi aðstoðar lögreglunnar við upplýsing slíkra mála, en lögmaður hefir sem kunnugt er enga lögreglu sér til aðstoðar.

Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv., vil aðeins vænta þess, að greitt verði fyrir málinu eftir föngum og að það fái góða afgreiðslu í hv. d.