16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Frsm. Magnús Gíslason):

Frv. þetta er borið fram af hæstv. forsrh., og er ætlazt til, að það komi í stað l. frá 1928 um dómsmálastarfa lögreglustjórn, gjaldheimtu o. fl. í Reykjavík. Á þessum 11 árum síðan hafa orðið margvíslegar breytingar. Fram til 1917 var þetta allt í höndum bæjarfógetans í Reykjavík. En þá hafði bærinn vaxið svo, að ekki þótti fært lengur án breytinga, og var sett á stofn lögreglustjóraembætti við hlið bæjarfógetans og skipt starfinu í tvennt. Að 11 árum liðnum hafði bærinn stórum vaxið og kröfur orðið háværar um að skipta lögreglustjóra- og bæjarfógetaembættunum að nýju. Þá var lögtekið, að embættin yrðu þrjú, eins og nú er. Enn hefir vöxtur bæjarins verið geysiör, og er svo komið, að fullur þriðjungur landsmanna er hér saman kominn. Það er full ástæða til þeirrar breytingar, sem frv. fer fram á, sem er, að stofna skuli sakadómaraembætti í Reykjavík og skipa verkum með sakadómara og hinum öðrum embættismönnum. Hann skal fara með opinber mál, rannsókn þeirra fyrir dómi og utan dóms og dómsuppsögn, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og umsjón hegningarhússins. Lögreglustjóri fer eftir sem áður með lögreglustjórn, að því leyti sem hún heyrir ekki undir sakadómara, ennfremur strandmál, útlendingaeftirlit, heilbrigðismál og útgáfu vegabréfa. Annars sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í þá skiptingu. Nefndin hefir reynt að gera sér grein fyrir því, hver þörf sé á breytingunni, og spurzt í því skyni fyrir hjá lögreglustjóra Reykjavíkur og hæstv. dómsmrh., einnig hefir hún fengið umsögn lagadeildar háskólans og forseta hæstaréttar, Þórðar Eyjólfssonar, en það voru dómarar hæstaréttar, sem lagt höfðu á frv. síðustu hönd. Í frv. eru aðallega tilfærðar þær ástæður, að nauðsyn sé að greina sundur dómsvald og löggæzlu. Hvort um sig heimtar mikla sérþekkingu, og er erfitt að fá menn, sem hafi hana til brunns að bera á báðum þeim sviðum. Nefndin telur auk þess, að störf lögreglustjóra séu orðin of umsvifamikil fyrir einn og það eitt næg rök til að skipta. Í því felst ekki nokkurt vantraust á núv. lögreglustjóra, sem virðist vera starfi sínu mjög vel vaxinn. En öllum má ofbjóða.

Nefndin leggur einróma til, að frv. verði samþ. með tveim lítilsháttar breytingum, eins og sést á þskj. 467. Fyrri breyt. þar er þess efnis, að barnsfaðernismál og uppkvaðning meðlagsúrskurða skuli lögð undir sakadómara, en ekki lögmann. Þetta eru að vísu einkamál að lögum, en meðferð þeirra er svo lík því, sem er við sakamál, að þetta virðist hagkvæmara, með því að sakadómari, en ekki lögmaður, hefir aðgang að rannsóknarlögreglunni. Hin breytingin er, að mæling og skráning skipa skuli ekki fara fram hjá tollstjóra, heldur lögmanni, og er það gert til þess, að fullt samræmi sé milli skipaskráningar og veðmálaskráningar, svo að auðvelt sé fyrir menn að sjá það á einum og sama stað á hverjum tíma, hver hefir eignarréttinn á skipi og hvaða veð hvíla á þeim eignum sem öðrum.

Í frv. því, sem fyrir liggur um meðferð opinberra mála, er, sem kunnugt er, lagt til að skilja alstaðar ákværuvaldið frá dómsvaldinu í opinberum málum. Það er líklegt, að það dragist ekki ákaflega lengi, að þetta nái samþykki, því að svo ljóst er mönnum, hve stórfelld endurbót það væri. Nú hefði verið æskilegt að koma á um leið aðskilnaði ákæruvalds og dómsvalds í Reykjavík. Nefndinni þótti þó rétt að láta þetta mál ekki bíða neitt eftir afgreiðslu frv. um meðferð opinberra mála né breyta til samræmis við það, heldur afgreiða það þegar. — Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið.