16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég álít, að brtt. hv. allshn. séu til bóta á frv. frá því, sem var. Eins og fram var tekið í framsögu, var frv. borið undir þá aðila, sem bezta þekking hafa á málinu, og m. a. einmitt með það fyrir augum, að skiptingin milli embættanna yrði sem eðlilegust og hagkvæmust í framkvæmd. Frá upphafi var um það talað af öllum þessum aðilum, og kemur einkum greinilega fram í áliti lagadeildar, að rétt mundi að fela sakadómara barnsfaðernismál og meðlagsúrskurði. Og ég held það sé rétt, því að enda þótt þetta heyri nú undir dómsvald lögmanns, er vitað mál, að oft þarf talsvert miklar rannsóknir, sem eðlilegra er, að sakadómari framkvæmi en lögmaður, vegna sambands síns við rannsóknarlögregluna. Ég viðurkenni einnig, að það er rétt, sem og var bent á í bréfi lagadeildar, að hentara muni, að skráning og mæling skipa fari fram hjá lögmanni, þar sem svo margur maðurinn þarf að leita sér upplýsinga um eignarheimildir og veð, bæði fasteigna og skipa, og getur þá fengið nauðsynleg vottorð um það á einum stað.

Enn eitt atriði kæmi til mála að færa undir valdsvið sakadómara, og það eru úrskurðir í fátækramálum. Þau eru oft dálítið flókin, eins og menn vita, og stundum nokkuð erfitt fyrir lögmann án lögregluaðstoðar að komast að hinu sanna, ekki síður en í barnsfaðernismálum. Rannsókn getur þar jafnvel verið óframkvæmanleg án rannsóknarlögreglu og þá ekki gott að fella úrskurði með rökum.

Það er rétt, sem segir í bréfi lagadeildar, að þessum embættum þarf að skipta meira og aðskilja þá að fullu ákæruvald og dómsvald, eins og tíðkast víðast erlendis. En tilkostnaðurinn yrði of mikill til þess, að þetta sé fært að svo stöddu. Hjá sýslumönnum er hvorttveggja þetta vald í eins manns höndum. Í Reykjavík er gert ráð fyrir, að sá, sem færi með löggæzluna, eða fulltrúi í sambandi við hann, gæti verið opinber ákærandi. En starfsaukningin yrði mikil, hvernig sem því væri fyrir komið. Sama daginn geta farið fram þrenn réttarhöld, sum frá morgni til kvölds, og við hvert mál yrðu þrír menn uppteknir. Það yrði að hafa bæði opinberan ákæranda og verjanda við hlið hvers dómara í öllum málum, þar sem nú er dómarinn einn. Ég viðurkenni umbótaþörfina, en treysti mér ekki til þess nú vegna kostnaðar, sem yrði alltaf 100–200 þús. kr. á ári, að fylgja frv. um meðferð opinberra mála. — Ég vildi að lokum biðja nefndina að taka atriðið, sem ég nefndi í fátækramálum, til athugunar.