16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er náttúrlega alveg rétt, að nokkur kostnaður fylgir þessu frv., líklega 20–30 þús. kr. á ári, til þess að nefna tölur, sem standast. En mönnum má ekki koma það á óvart, þótt hann aukist, og það nokkuð verulega. Síðan 1928 hefir Reykvíkingum fjölgað úr 25 þús. í 37 þús. manns, eða um 12 þús. Og allir, sem þekkja til slíkra hluta, vita vel, að þörfin fyrir aukna löggæzlu vex hraðar en fólksfjöldinn í bæjum á þessu reki og með líkri stærð og Rvík. Ég vil benda á þetta, að þrátt fyrir sparnaðarvilja er ekki hægt að komast hjá að sinna þeirri þróun, sem verður í okkar þjóðfélagi. Og það er mikils virði, að góð löggæzla sé í þessum bæ, þar sem ekki á einungis heima fullur þriðjungur landsmanna að tölu til, heldur og fjöldi ungra námsmanna af öllu landinu, sem síðan hafa áhrif, hvar sem þeir setjast að.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 362 vil ég fyrst benda á, að í 10. gr. er sagt, að fulltrúa megi aðeins skipa „til að framkvæma sérstök störf“. Reglan hefir verið sú, að fulltrúar væru skipaðir til að framkvæma þau störf almennt, sem til falla, í umboði embættisins. Líklega ber að skilja frv. svo, að fulltrúa skuli skipa eins og hingað til. — Brtt. fer fram á, að bæði þeim og embættismönnunum, sem um ræðir, skuli skylt að taka ókeypis að sér setudómarastörf. Það er ekki hægt að neita því, að stundum er mönnum illa við að taka á sig þau störf, og að því leyti fengi þetta ákvæði dómsmrn. meira vald en það hefir nú. En hvað það snertir, að þeir fái ekki sérstök laun fyrir þessi setudómarastörf, þá er þess að gæta jafnframt, að þegar þessir menn eru teknir til starfa hjá þessum embættismönnum, þá eru þeir teknir í þær stöður, sem krefjast þess, að þeir séu við störf sín svo að segja frá morgni til kvölds. Það er þannig, að menn brjóta í dag og menn brjóta á morgun, svo að þessir menn eru störfum hlaðnir frá morgni til kvölds. Það yrði því að setja aðra menn í staðinn fyrir þessa fulltrúa, þegar þeir væru sendir út á land.

Þessi brtt. er sjálfsagt flutt úr frá því sjónarmiði, að þeir, sem eru fulltrúar lögreglustjórans í Rvík og eiga að verða setudómarar, ef till. yrði að l., hafi meiri æfingu og séu þess vegna hæfari til að taka að sér setudómarastörf úti á landi, en við störfum þeirra tækju óæfðir menn, sem ynnu þá undir stjórn æfðs manns, sem lögreglustjóri hlýtur að sjálfsögðu að vera. — Hv. d. tekur auðvitað afstöðu til þessa um leið og hún greiðir atkv. um þessa till.

Ég mun svo ekki ræða um þetta frekar.