27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. ráðh. hefir óbeint svarað þeirri fyrirspurn, hvort hann myndi slá upp embættinu, á þann veg, að hann muni líta í kringum sig eftir hæfum manni í þetta starf. Hinsvegar fékkst hann ekki til að lýsa því yfir, að þessu embætti myndi verða slegið upp og það síðan veitt eftir hæfileikum umsækjendanna. Það á að vera sjálfsögð regla, þegar embætti eru veitt, en það á ekki að viðhafa þá reglu, að ráðh. líti í kringum sig og veiti svo embættið eftir því, á hvað hann kemur auga við að líta í kringum sig. Það á að gefa mönnum tækifæri til þess að sækja um embættið. Hæstv. ráðh. 1ýsti því þó yfir, að það væri verulegur ávinningur fyrir þann, sem gegndi þessu embætti og tollstjóraembættinu, að hafa lögfræðipróf. Mér finnst þá, að hann hefði fyrst og fremst átt að lita í kringum sig meðal lögfræðinga. En ég verð að draga í efa, að hæstv. ráðh. hafi gert það. Ég er sannfærður um, ef hæstv. ráðh. vill slá upp þessu embætti, að þá muni sækja um það lögfræðingar, sem að hans áliti eru vei hæfir til að gegna embættinu. (Forsrh.:Vill hv. þm. sækja?). Vill hæstv. ráðh. auglýsa embættið? Ef ég lýsti því yfir, að ég myndi sækja og taka við embættinu, ef hæstv. ráðh. vildi veita mér það, þá myndi hann kannske álita sig að einhverju leyti bundinn við að veita mér það, svo ég vil ekki binda hann neitt í þessu efni, því það yrði kannske til þess, að hann hætti við að slá embættinu upp.

Það er, eins og hæstv. ráðh. sagði, verulegur ávinningur fyrir mann í þessu starfi að hafa lögfræðipróf, svo þess vegna væri það útlátalaust fyrir hæstv. ráðh. að leita fyrst og fremst meðal lögfræðinga. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það þurfi að vera meðal málflutningsmanna í Rvík. Úti á landi eru margir hæfir menn, sem gegna sýslumannsstörfum, sem ekki er ólíklegt, að vildu sækja um þetta starf. Hæstv. ráðh. stendur hér illa að vígi, þar sem hann sjálfur sótti um hliðstætt starf á sínum tíma.

Hæstv. ráðh. segir, að það verði að fá mann til að undirbúa sig undir þetta starf. Það má vel vera. En það eru ekki rök fyrir því, að það sé ekki lögfræðingur, sem gegnir þessu starfi. Það mætti að sjálfsögðu fá lögfræðing til þess að undirbúa sig undir það. Það gæti líka verið þannig, að lögreglustjórinn sjálfur væri löglærður maður, en sá, sem stæði fyrir lögreglunni, væri ólöglærður maður, sem starfaði undir stjórn lögreglustjóra. Ég hygg, að það hafi verið þannig, þegar hæstv. ráðh. gegndi lögreglustjóraembættinu, að þá hafi ákveðinn maður, Erlingur Pálsson, staðið fyrir hinni daglegu stjórn lögreglunnar. Þetta eru þess vegna engin rök gegn því, að ekki eigi að fylgja hinni almennu reglu, að lögfræðingur skuli gegna embættinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert lögfræðilegt efni skilið eftir fyrir lögreglustjórann. Þetta er ekki rétt. Hann veit, að það koma svo að segja daglega fyrir atvik, sem lögfræðing þarf til að skera úr um. Það er satt, að hann á ekki að hafa dómsvald, en hann þarf að geta kveðið upp formlega úrskurði, sem almenna menntun í lögfræði þarf til. Ég vil t. d. benda hæstv. ráðh. á lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Það koma fyrir ótal tilfelli, þar sem lögreglustjórinn verður að skera úr um starfsemi lögregluþjónanna og lögfræðiþekkingu þarf til. Við skulum taka sem dæmi, að lögregluþjónar séu kallaðir inn á heimili að næturlagi. Þá þarf lögfræðing til að skera úr um það, hvað langt lögregluþjónarnir megi ganga í þeirri deilu, sem kann að vera risin upp á heimilinu. Heimilin eru eins og menn vita friðhelg og þar verður að fara að með hinni mestu varkárni. Það er þunglamalegt, ef verður að kalla á sakadómara og láta hann kveða upp formlega úrskurði um það, hvað langt lögreglan megi ganga í hverju einstöku tilfelli.

Við skulum hugsa okkur, að kallað væri á lögregluna og það væri borið upp á mann, að hann hefði stolið einhverjum hlut og falið hann inn á sér. Hvað á lögreglan að gera í þessu tilfelli? Hún hefir gegn mótmælum mannsins ekki leyfi til að leita á honum. Ef lögreglustjóri má ekki skera úr þessu, þá verður að leita úrskurðar sakadómara. Það er því augljóst, hvað maður, sem hefir lögfræðipróf, stendur þarna betur að vígi.

Það má vel vera, að hæstv. ráðh. geti borið um það, að menn vilji ekki fara úr góðum og vel launuðum embættum í þetta starf. Um það skal ég ekkert segja. Starfið er samt ekki illa launað, og það er þó virðulegt starf og margir gefa nokkuð fyrir það. Það er þess vegna að mínu áliti fjarstæða að halda því fram, að úr hinum stóra hópi lögfræðinga, sem margir hafa litla atvinnu, en eru þó vel hæfir og greindir menn, fáist ekki menn, sem vilja sækja um þetta embætti. Það er þá hægur vandi fyrir hæstv. ráðh., ef embættið hefir verið auglýst og enginn maður með lögfræðiprófi hefir sótt um það, að veita það ólöglærðum manni. Ég verð að segja það, að hinn ólöglærði maður má hafa mikla hæfileika til að bera, ef það á að vera réttlætanlegt að taka hann fram yfir lögfræðing. Mér finnst það „hasarderað“, ef menn slá því föstu án þess að hafa litið í kringum sig, að ekki megi finna hæfan lögfræðing til að takast þetta embætti á hendur. Mér finnst a. m. k. sjálfsagt, að ráðh. hreinsi hendur sínar með því að auglýsa embættið laust til umsóknar og sjá hverjir sækja. Ef það sýnir sig, að enginn hæfur lögfræðingur sækir um starfið, þá er a. m. k. nógur tími að fara að hugsa um að setja í það ólöglærðan mann. Mér finnst útlátalaust fyrir hæstv. ráðh. að lýsa yfir því, að hann muni taka hæfan lögfræðing fram yfir ólöglærðan mann við veitingu þessa embættis. Og þótt ráðh. vilji e. t. v. ekki gefa slíka yfirlýsingu, þá veit ég, að það verður þessi „praksis“, sem tekin verður upp. Ég veit ekki, hvers þeir menn ættu að gjalda, sem árum saman hafa kostað sig í dýrum skólum við sérfræðinám, ef þeir mættu ekki koma til greina þegar embætti eins og þetta losnar. Það er hart, ef fyrirfram á að slá því föstu af veitingarvaldinu, að enginn af slíkum mönnum sé fær um að gegna þessu starfi og að fá þurfi ólögfróðan mann til að gegna því. Hugsum okkur ef beita ætti t. d. læknastéttina samskonar brögðum, eða hverja aðra stétt sem væri, allt frá verkamönnum til lækna t. d. Það er ekkert eðlilegra en að læknar og aðrar stéttir séu látnar sitja fyrir þeim störfum, sem þeirra þekking nær sérstaklega til, en ekki teknir fram yfir þá einhverjir „outsiders“.