27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Ég álít ekki ástæðu til að koma með fyrirspurn í þessu sambandi um það, hvernig ráðh. ætlar að haga embættaveitingum yfirleitt. Um slíkt mætti auðvitað gera sérstaka fyrirspurn, en ég sé ekki, að hún eigi rétt á sér í sambandi við þetta mál. — Ég vil geta þess út af því, sem hæstv. forsrh. tók réttilega fram, að í lögunum frá 1928 um embættismenn í Reykjavík eru ekki sett skilyrði um menntun þeirra. En það var vegna þess, að allir gengu út frá því, að sömu kröfur yrðu gerðar til þeirra og til bæjarfógetans áður, og var þó ólöglærður dómsmrh. þá. Brtt. er til bóta. Þar eru sett fram viss skilyrði, sem þó má veita undanþágu frá, ef sett eru sérstök skilyrði að því er lögreglustjóra varðar í konunglegri tilskipun. Um hin embættin gildir það, að ekki má setja í þau aðra en þá, sem fullnægja dómaraskilyrðum. Gildir þetta engu síður um tollstjóraembættið. Ég hefi verið fulltrúi þess embættismanns í fjögur ár og veit vel, að mikið af hans störfum er beinlínis lögfræðilegs eðlis.