27.12.1939
Efri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Hæstv. forsrh. minntist á það, að það mætti kannske álykta þannig, að þessi maður, Oskar Sövik, hefði verið 5 ár í þjónustu sýslufélags eins í landinu, og þess vegna mætti telja, að hann hefði verið í þjónustu þess opinbera þennan tíma. En ákvæði l. eru svo skýr í þessu efni og ótvíræð, að það virðist ekki vera hægt að koma við neinni annari skýringu en að það sé eitt skilyrðið, að maðurinn hafi verið í þjónustu ríkisins í 5 ár, ef hann á að fá ríkisborgararétt eftir þann tíma.

Það kemur berlega fram í grg., sem fylgdi frv., sem lagt var fyrir þingið 1934 og varð þá að l., að flm. hafa lagt mikla áherzlu á, að stranglega yrði farið eftir þeim reglum, sem þar eru settar. Upphaflega var þessi tími 15 ár, og þótti ekki fært að hafa hann styttri, til þess að fyrirbyggja, að það yrði misnotað af útlendingum. Þessu var síðan breytt í 10 ár og lögfest ákvæðið um, að útlendingar, sem mætti álita, að ríkinu væri nauðsynlegt að hafa í þjónustu sinni, þyrftu ekki að vera hér búsettir nema í fimm ár, og mætti því grípa til þess að veita slíkum mönnum eftir þann tíma ríkisborgararétt. En til þess að geta fært þetta yfir á bæjar- og sveitarfélög, þarf að hafa sömu ástæðu fyrir því. Þá eru það fyrst og fremst miklu fleiri, sem kæmu til greina, ef bæjar- og sveitarfélög kæmu hér inn í. Það er miklu minni ástæða til þess að halda, að sérfróðan mann þyrfti í þjónustu bæjar- og sveitarfélags en ríkisins. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri slæmt fyrir Blönduósinga að missa þennan mann nú, af því að það stæði til að breyta stöðinni þar og forráðamenn treystu honum bezt til þess. Þetta getur vel verið, en ég sé ekki, að það þyrfti að veita honum ríkisborgararétt fyrir því, því ég sé ekki betur en hann hafi atvinnurétt í landinu, og skipti því hvorki til né frá, hvort það dregst eitt ár eða svo að veita honum ríkisborgararétt, úr því að hann hefir leyfi ríkisstj. til þess að starfa að þessu verki.

Hvað það snertir að fresta málinu til morguns, þá hefi ég ekkert á móti því, en það breytir ekkert minni skoðun á málinu; jafnvel þótt þessi vottorð fengjust, sem hæstv. forsrh. nefndi, þá mundi ég ekki samþ., að honum væri veittur ríkisborgararéttur fyrr en hann hefði verið hér á landi þessi 10 ár, sem gert er að skilyrði fyrir því.