22.04.1939
Neðri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

85. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Með l. nr. 93 11. júní 1938 var útgerðarfyrirtækjum íslenzkra botnvörpuskipa veitt heimild til að draga frá skattskyldum tekjum sínum tap það, sem orðið hefði á rekstri þeirra frá 1. jan. 1931, og skyldi heimild þessi gilda árin 1938 til 1942, að báðum meðtöldum. Í þessum l. var sömu fyrirtækjum einnig heimilað að draga frá skattskyldum tekjum sínum 90% þeirrar fjárhæðar, sem þau leggja í varasjóð af árstekjum sínum.

Ég hefi ásamt hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. borið hér fram á þskj. 184 frv. um viðauka við þessi l., sem ég hefi nefnt, sem felur það í sér, að ákvæðið um frádrátt á tillagi til varasjóða skuli einnig gilda um útgerðarfyrirtæki íslenzkra línuveiðara og vélbáta á sama tímabili. Teljum við það rétt og sanngjarnt, að þau fyrirtæki njóti sömu hlunninda eins og útgerðarfyrirtæki botnvörpuskipa. En í þessu frv. okkar er einnig ákvæði um það, að ef nokkur fjárhæð úr varasjóði verður síðar notuð til úthlutunar til hluthafa eða yfirleitt varið til annars en greiðslu á stofnkostnaði eða rekstrarhalla fyrirtækjanna, þá verði sú upphæð talin til skattskyldra tekna hjá viðkomandi fyrirtækjum á því ári. Á þetta að fyrirbyggja það, að þessi varasjóður, sem fyrirtækin hafa skattfrjálsan að 9/10 hlutum, verði notaður á nokkurn annan hátt en til stuðnings útgerðinni.

Ég vildi leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.