22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

165. mál, rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna

*Jónas Jónsson:

Ég vil spyrja hv. 9. landsk., hvernig hann hugsi sér þau vinnubrögð og þá rannsókn, sem hann vill vera láta hér í þessu efni. Nú er komið fast að jólum og almenn skoðun, að þingið þurfi ekki að vera — nema því sé seinkað viljandi — lengur en til áramóta. Og nú eru eftir allmörg stór mál, sem þarf að afgr.

Ég get ekki skilið hv. 9. landsk. öðruvísi en svo, að hann ætli með þessu að gera drátt á þessum málum. Það er vitanlegt, að hér verður engin rannsókn á þessum málum, ef þau koma á dagskrá strax á morgun. Hv. 9. landsk. er ekki svo sérstaklega skyni skroppinn, að hann geti ekki áttað sig á málinu nú, og þm. vita nokkurn veginn um efni þessa máls. En ég vildi benda á þetta, til þess að það komi fram, hverjar hvatir hans eru gagnvart þessu máli, að hann ætlar að láta þingið standa langt fram í janúar, því að það eru engar líkur til, að því verði slitið fyrr en þessi mál hafa gengið í gegn.