22.04.1939
Efri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og efni þess er að undanþiggja frá vátryggingarskyldu opna vélbáta. Í lögunum um vátryggingarfélög vélbáta eru allar fleytur, sem fiskiveiðar stunda, vátryggingarskyldar hjá félögum þeim, er komið hefir verið upp samkv. lögunum. Það hefir ekki tekizt alstaðar kringum land að koma á tryggingu á „trillubátum“. Eigendur þeirra hafa neitað, og þó að félögin hafi lagaákvæði fyrir því að krefja hjá þeim iðgjöld, hafa þau heldur skirrzt við að innheimta iðgjöldin með hörðu. Og nærri úr hverri veiðistöð hafa komið áskoranir um að afnema vátryggingarskylduna á þessum bátum.

Fyrir mitt leyti er ég á móti því að hverfa frá vátryggingunum. Heldur á að gera þær aðgengilegri fyrir bátaeigendur, svo að þeir verði fúsir til að tryggja. Samt sé ég mér ekki fært að vera á móti þessu frv., því að óbreyttu ástandi verða lögin pappírslög og verri en ekki. Sjútvn. hefir fallizt á að mæla með, að frv. verði samþ., sérstaklega þar sem brtt. komst inn við meðferð málsins í Nd. um að bæta verulega kjör þeirra bátaeigenda, sem vátryggja af fúsum vilja.

Ég tel, að félögin verði að berjast fyrir því, að kjörin batni og að innan tíðar verði aftur lögleidd vátryggingarskylda fyrir opnu bátana líka, — ella væri hér mjög miður farið.