22.04.1939
Efri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Bernharð Stefánsson:

Ég held þetta frv. gangi alveg í rétta átt. Ég ætla ekki að fara að rökstyðja það neitt, aðeins benda á, að það mun vera almenn ósk nær allra, sem hlut eiga að máli, að vera leystir undan þessari skyldu. Það er hæpið að bjarga mönnum með því, sem þeir vilja hreint ekki sjálfir. Það, sem ég hefi að athuga við frv., er, að mér finnst það ekki nógu víðtækt. Þetta orðalag um „opna vélbáta“ er óheppilegt. Líklega er of seint að fara fram á það við nefndina að athuga það milli umræðna og ákveða heldur eitthvert tonnatal, miðað við það, að allir „trillubátar“ sleppi við skylduna; mjög margir þeirra eru ekki opnir. Ég veit, að í stærstu útvegsplássum í mínu kjördæmi er það almenn og eindregin ósk, að allir minni vélbátar séu undanþegnir tryggingarskyldu, en aftur hitt, að heimild sé til tryggingarinnar.