15.11.1939
Efri deild: 61. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

112. mál, meðferð einkamála

*Flm. (Magnús Gíslason) :

Með þessu frv., sem er flutt af hv. 2. þm. S.-M. og hv. 10. landsk., auk mín, er ætlazt til, að breytt verði 56. gr. l. nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði, eða breytt þeim skilyrðum, sem þar eru sett fyrir því, að lögfræðingar, sem stundað hafa málflutning, geti haldið áfram þeim störfum sínum, auk þess, sem nýtt ákvæði er sett í gr. um, að lögfræðingar, sem skipaðir hafa verið í föst dómaraembætti, eða skipa má í þau, þurfi ekki að ganga undir prófraun þá, sem getur um í gr., til þess að geta flutt mál fyrir undirrétti.

Ég skal þá fyrst og fremst skýra grg. fyrir frv., en að öðru leyti aðeins fara um það örfáum orðum.

Með l. um meðferð einkamála í héraði frá 1936 voru settar nýjar og strangari reglur um það, hverjir skyldu hafa rétt til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Þau l. voru sett, að enginn mætti flytja mál fyrir þeim rétti fyrr en hann hefði fengið lögfestingu eða flutt 4 prófmál, og þar af hefðu a. m. k. 2 verið munnlega flutt.

Þeim lögfræðingum, sem starfað höfðu sem málaflutningsmenn fyrir héraðsrétti áður en l. gengu í gildi, var þó heimilt að starfa áfram með því skilyrði, að þeir hefðu gengið undir prófraun og lokið henni innan þriggja ára frá því, að l. gengu í gildi, eða frá 1. janúar 1936, þannig að þeim fresti er lokið 1. janúar næstk., svo að þeir, sem þá hafa ekki lokið prófrauninni, missa réttinn til að flytja mál fyrir héraðsdómi.

Nú hafa nokkrir þessara manna lokið prófrauninni, en það eru nokkuð margir, sem ekki hafa haft tækifæri til þess, og er ástæðan sú, að þeim mun ekki hafa gefizt kostur á að fá þau mál til flutnings, sem að dómi réttarins hafa þótt hæfa sem prófmál, því að ef þetta ákvæði á ekki að verða nafnið tómt, verður að velja til prófflutnings mál, sem eru torveld og flókin, svo að réttinum gefist kostur á að dæma um, hvort þeir, sem málin flytja, hafa þá lögfræðiþekkingu og leikni, sem að þeirra dómi þarf til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Loks eru slík mál ekki auðfengin, einkum fyrir þá lögfræðinga, sem hafa lítið að gera eða stunda lögfræðistörfin í hjáverkum. Margir þessara manna hafa þung heimili og mega illa við því, að þessi réttur sé af þeim tekinn.

Þetta ákvæði, að sett sé skilyrði fyrir því, að maður geti haldið atvinnuréttindum, sem hann hefir haft áður, er algert nýmæli í l. hér. Hæstv. Alþingi hefir einmitt fylgt þeirri reglu, þegar sett hafa verið l. um atvinnurekstur, að taka fram, að þeir, sem rétt hefðu samkv. eldri lögum, skyldu halda honum. Slíkt ákvæði var sett í iðnaðarlögin frá 1937, í l. um lækningaleyfi frá 1932 og l. um atvinnu við siglingar frá 1936. Í öllum þessum l. er skýrt fram tekið, að þau hafi engin áhrif á réttindi þeirra manna, sem öðlast höfðu réttindi sín áður en l. gengu í gildi. Virðist ástæðulaust að gera undantekningu með héraðsdóm og engin ástæða til að gera um það strangari kröfur en aðrar atvinnugreinar.

Við höfum ekki gengið lengra en það í frv. að fara fram á, að l. skuli ekki ná til þeirra, sem 3 ár samfleytt hafa stundað málflutning fyrir héraðsdómi áður en l. gengu í gildi, svo að þeir, sem bætast við nýir, verða allir að taka þetta próf.

Hitt ákvæði frv. er um það, að þeir, sem gegnt hafa dómaraembætti eða skipa má í föst dómarasæti, skuli hafa rétt til þess að flytja mál fyrir héraðsdómi án þess að þurfa að taka sérstakt próf. Byggist það atriði á því, að það virðist óeðlilegt, að dómarar skuli þurfa að taka slíkt próf, þar sem l. heimila þeim að skera úr um, hvort þeir. sem óska lögfestingar, skuli öðlast hana eða ekki. Enda ekki óeðlilegt, að þeim mönnum sé betur trúandi til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Þá er og óviðfelldið að krefjast þess af eldri dómurum, sem látið hafa af starfi, t. d. hæstaréttardómurum og sýslumönnum, að þeir fái ekki að flytja mál fyrir héraðsdómi, nema þeir leysi áður af hendi sérstakt próf. Það getur og orðið erfitt fyrir dómara eins og aðra að fá þau mál til meðferðar, sem teljast hæf prófmál.

Ég vil leyfa mér að taka fram, að ef hv. d. verður okkur flm. sammála um, að rétt sé að breyta l. eins og frv. fer fram á, þá væri æskilegt, að málið færi greiðlega í gegnum hv. d. Ef þetta á að koma að liði, þarf að samþ. frv. á þessu þingi, því um næstu áramót er réttur þessara manna glataður.

Svo vil ég leyfa mér að óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.