14.12.1939
Efri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

112. mál, meðferð einkamála

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Eins og sjá má á þskj. 430 og 444, er ég sammála meiri hl. um, að frv. gangi fram, en þó svo, að 1. gr. sé breytt og orðuð um. Ég hefi innan n. bent á, að það er óþarft að breyta l. með tilliti til þeirra, sem búa utan Reykjavíkur, því að ljóst er í lögunum, að prófraun þarf ekki að inna af hendi nema til málfærslu í Reykjavík. Ég hefi kynnt mér það, að þetta ákvæði l. er sett af Einari Arnórssyni prófessor, sem samdi fyrstu drög frv., og milliþinganefndin, sem fjallaði um frv. á eftir, hefir alls ekki breytt því. Rak við það liggur sú skoðun, að fyllsta ástæða sé til þess, að lögfræðingar hafi innt af hendi prófraun og sýnt, að þeir séu hæfir til málfærslu, áður en þeir fá viðurkenndan rétt til hennar. Það hefir mikið gildi fyrir allan almenning. Það hefir líka þýðingu fyrir dómarana sjálfa, að málfærslumenn séu svo færir um starf sitt, að nokkurn veginn megi við una.

Mín till. gengur út á það, að lögfræðingar fái eins árs frest til að ljúka þessari prófraun. Ég hefi aflað mér upplýsinga um, hve margir menn komi hér til álita. Það eru einir sex, sem þegar hafa byrjað og eru búnir með ein tvö eða þrjú af fjórum tilskildum prófmálum. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir fái framlengdan frest til að ljúka sér af. Í grg. frv. er mikið úr því gert, hve erfitt geti orðið að fá til flutnings hæf prófmál. En það er venja, að lögfræðiskrifstofurnar skiptast á um mál til að flytja, svo að aldrei mundi standa lengi á því að útvega lögfræðingi prófmál. Sé það hinsvegar af getuleysi, sem lögfræðingur hefir ekki lokið prófraun í tæka tíð, — skyldi almenningi þá vera gagn í, að hann fái réttinn gefins? — Ég held ekki.

Annað atriði, sem lagt er til að breyta í frv., er, að allir þeir dómarar, sem hugsanlegt er, að vildu flytja mál, öðlist rétt til þess. Af þeim uppgjafaembættismönnum, sem hér er helzt um að ræða, mun það vera aðeins einn, sem mun hafa viljað flytja mál í Rvík og flytur nú mál fyrir undirrétti, þótt utan bæjarins sé. Flestallir þeir menn eru komnir á eftirlaun og mundu þá heldur leita sér að öðrum störfum en þessum. Ég held það sé því tilefnislaust að víkka þessi ákvæði frv. svo, að þau nái til þeirra. Hér eru nákvæmlega sömu ákvæði og um hæstarétt. Það eiga allir að inna af höndum prófraun, sem þar ætla að stunda málfærslu. Með því að samþ. frv. óbreytt yrði þarna skapað misræmi.

Af því að ég hefi nokkur kynni af málfærslu, veit ég, að það er nauðsyn að gera strangar kröfur til undirbúnings þeirra, sem flytja eiga mál fyrir dómstólum. Málfærslumannafélagið er, eftir því sem ég veit bezt, móti þessu frv. nálega sem einn maður. Stéttinni er það aðallega metnaðarmál að gera til sín strangar kröfur, en mótstaðan gegn frv. ekki af því, að þeir óttist menn, er ekki hefir tekizt að ljúka prófraun, sem hættulega keppinauta.