02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

112. mál, meðferð einkamála

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hefi ekki skilað sérstöku nál. hér, en mun bera fram brtt. við frv. við 3. umr. Að ég gat ekki fylgt samnm. mínum, var ekki af þeirri ástæðu, að ég vilji fella frv., heldur af því, að ég vil hafa það í öðru formi, á þann veg, sem ég skal nú skýra. Sá frestur, sem tiltekinn er í réttarfarslögunum, var útrunninn í gær. Ég vil að hann verði framlengdur þannig, að þeir, sem hér eiga hlut að máli hafi sömu aðstöðu til að ljúka þessu prófi og þeir höfðu fyrir 1. jan. Það er engin ástæða til þess, að þessir menn hafi sérstöðu, þar sem þeir hafa sömu reynslu og aðrir lögfræðingar. Ég vil benda á það, að það er sett sem skilyrði til að verða málaflutningsmaður í hæstarétti, að hafa 1. einkunn. Nú er það svo, að ýmsir lögfræðingar höfðu ekki 1. einkunn, þegar l. öðluðust gildi, en fengu þó sama rétt og þeir, sem höfðu 1. einkunn, til þess að leysa prófraun sína.

Það er sanngjarnt af ástæðum þeim, sem skýrt er frá í grg. frv., að tryggja það, að þessir menn geti lokið prófi sínu. Ég mun því við 3. umr. bera fram brtt. um, að fresturinn verði lengdur um 2–3 ár. Hinsvegar sést við nánari athugun, að þessi leið er ekki farin í frv., og gert er ráð fyrir, að þessum mönnum verði veittur meiri réttur en áður.