03.01.1940
Neðri deild: 98. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

112. mál, meðferð einkamála

*Garðar Þorsteinsson:

Eins og hér hefir verið tekið fram, þá er raunverulega um tvö atriði að ræða í þessu frv., sem máli skipta, annarsvegar sú undanþága fyrir málaflutningsmenn, sem frv. fer fram á, að verði veitt þeim, sem hafa stundað málflutning sjálfstætt í þrjú ár fyrir 1. jan. 1937, og hinsvegar að veita þeim mönnum undanþágu, sem hafa verið skipaðir dómarar og uppfylla skilyrðin til þess að vera skipaðir í föst dómaraembætti samkv. 32. gr. l. nr. 85 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði, sem eru íslenzkur ríkisborgararéttur, óflekkað mannorð og íslenzkt lögfræðipróf, og að hafa gegnt opinberu starfi sem lagv. eða hagfræðipróf þarf til, hafa t. d. verið fulltrúi í stjórnarráðinu, bæjarstjóri, bankastjóri, fulltrúi sendiherra eða settur héraðsdómari. Nú ber á það að líta hvað snertir fyrra atriðið, að ef það er talið sjálfsagt, að þeir menn, sem hafa stundað málflutning í 3 ár fyrir 1. jan. 1937, þurfi ekki að taka neitt próf, hvers vegna var þá talið sjálfsagt að setja það ákvæði í l. nr. 85 23. júní 1936? Það er þá sjálfsagt einhver misheppni í l. Ef á að ganga út frá, að svo sé, hvers vegna vaknar þá hv. þm. Barð. við það fyrst nú? Það er undarlegt. En ætli meiningin hafi ekki þá verið, að einmitt svona ættu l. að vera? Hinsvegar ef menn sáu, að þessu þyrfti og ætti að breyta, hvers vegna þurfti þá að narra Gunnar E. Benediktsson til að taka þetta próf, sem hefir stundað sjálfstæðan málflutning síðan 1917–18? En hann varð að flytja fjögur prófmál fyrir héraðsdómi og hafa lokið því prófi fyrir 1. jan. 1940, og hann gerði það. Ég gæti sjálfsagt nefnt fleiri málflutningsmenn, sem svipað stendur á um og hafa einnig orðið að taka þetta próf. Það var engin undanþága veitt eins og sú, sem hv. þm. Barð. fer fram á, fyrir Gunnar E. Benediktsson eða aðra, sem líkt stóð á um og uppfylltu öll skilyrði. Þeir urðu að taka próf fyrir 1. jan. 1940. En hvaða ástæða var til að narra slíka menn til að ganga undir prófraun, ef öðrum mönnum stendur opinn málflutningur fyrir héraðsdómi án slíks prófs, þótt þeir hafi stundað málflutningsstörf miklu skemmri tíma, e. t. v. lítið meira en þrjú ár, þegar skylda á mann til þess, sem er búinn að stunda málflutning í 20 ár? Hversvegna á að mismuna mönnum þannig? Það er alveg ósamboðið Alþ. að setja það ákvæði í l. árið 1936, að menn skuli ganga undir próf, ef Alþ. ætlar þrem árum síðar að undanskilja menn frá þeirri prófraun, sem eins stendur á með. Þeir verða að vísu að taka próf að mínu áliti, en það er rétt að gefa þeim frest til þess um næstu tvö ár. Hitt er allt annað mál, hvort það hefir verið sanngjarnt frá upphafi að setja þetta ákvæði í l., en þar fyrir er engin ástæða til að segja sem svo, að þeir, sem hafa stundað málflutning ákveðinn tíma, skuli ekki þurfa að taka próf, úr því að þessi regla hefir komizt inn í l. og aðrir menn eru skyldaðir til að taka slíkt próf, sem jafnvel hafa stundað málflutning lengur. Þetta verður að ganga jafnt yfir alla. Annaðhvort var sanngjarnt að setja þetta í l., og þá á það að haldast, eða jafnvel þó að það væri ósanngjarnt, á sú ósanngirni að halda áfram, og láta ekki nokkra menn. sem hafa trassað að taka prófið, fá þá undanþágu, sem hér er farið fram á. Það má vel vera, að þetta skipti minna máli nú en árið 1936, því að þetta nær nú til færri manna en áður, en eigi að siður er það ekki rétt gert af Alþ. samþ. það.

Svo er hitt atriðið. Samkv. síðari málsl. þessa frv. eiga þeir lögfræðingar að vera hæfir til að flytja mál próflaust fyrir héraðsdómi, sem hafa fullnægt þeim skilyrðum, sem sett eru í 32. gr. l. nr. 85 23. júní 1936, til þess að vera skipaðir héraðsdómarar. Ég skal geta þess, að þar sem ég talaði áðan um að vera skipaðir í héraðsdómaraembætti og verið þar e. t. v. eina viku, er það mismæli, því að það er nóg, að þeir séu hæfir til að vera settir í embættin. En þetta nær ekki nokkurri átt. Í 7. tölul. þeirrar gr. eru talin allmörg skilyrði, sem þarf að uppfylla til að vera „kvalifiseraður“ til að vera skipaður í héraðsdómaraembætti. Við skulum taka fyrsta skilyrðið, þ. e. að hafa verið í þrjú ár skrifstofustjóri t. d. í atvinnu- eða fjármálaráðun. En hvaða trygging er fyrir því, að slíkur maður sé hæfur til þess að flytja mál? Eða t. d. fulltrúi í stjórnarráðinu, sem kemur kannske bara ekki nærri lögfræðimálum, — er nokkur trygging fyrir, að hann sé hæfur til að vera málaflutningsmaður án allrar prófraunar? Hvaða trygging er fyrir því, að t. d. bæjarstjóri í litlum bæ, t. d. á Siglufirði, sé endilega hæfur til að flytja mál fyrir héraðsdómi? Hvar hefir hann sýnt það? Hvers vegna á ekki að heimta af honum, eins og Gunnari E. Benediktssyni, að hann flytji fjögur mál, sem séu prófmál? Við skulum halda áfram upptalningunni og hugsa okkur mann, sem hefir verið bankastjóri í þrjú ár, t. d. austur á Eskifirði, — hvaða sönnun er fyrir því, að hann sé hæfur til þess að flytja mál fyrir héraðsdómi? Það er mjög lítið gefandi fyrir þessi ákvæði, ef hægt er að opna málflutning alveg upp á gátt fyrir öllum mönnum, sem e. t. v. hafa starfað að alveg óskyldum málum í 3 ár. Eða t. d. fulltrúi sendiherra, sem kemur einhverstaðar utan úr löndum og er talinn samkv. 7. tölul. 32. gr. hæfur til að vera skipaður héraðsdómari, — á hann þá einnig að vera hæfur til að flytja mál fyrir héraðsdómi án allrar prófraunar, enda þótt hann hafi ekkert kynnzt málflutningi? Hann á þá að mega setja sig niður hér í Reykjavík eða öðrum kaupstað landsins, opna þar málaflutningsskrifstofu og öðlast þann rétt, sem aðrir lögfræðingar hafa orðið að berjast fyrir með því að taka sitt próf. Það er svo mikið ósamræmi í þessu, og slíkt ákvæði sem þetta er svo vitlaust, að það nær ekki nokkurri átt, ef á annað borð próf fyrir málflutningsmenn fyrir héraðsdómi á að vera aðalreglan. Ég vil benda þeim, sem síðar tala í þessu máli, á, að ég var alls ekki að bera saman þær prófraunir sem hæstaréttarmálflutningsmenn og málflutningsmenn fyrir héraðsdómi eiga að taka. Ég sagði bara, að ástandið var svipað árið 1920, þegar l. um hæstarétt voru sett, eins og nú. Þá var fjölda af lögfræðingum veittur réttur til að flytja mál fyrir hæstarétti, án þess að þeir hefðu 1. eink. við lögfræðipróf, ef þeir flytja fjögur prófmál fyrir hæstarétti, en svo sem kunnugt er, var það tilskilið í l. um hæstarétt, er kom í staðinn fyrir yfirdóm, að þeir, er ætluðu að verða hæstaréttarmálaflutningsmenn, skyldu hafa haft 1. eink. við lögfræðipróf. Svo á nú að gera undanþágu og segja, að þeir menn, sem uppfyllt hafa skilyrðin til að geta verið yfirréttardómarar með því að flytja 4 mál fyrir hæstarétti og þar með sýnt, að þeir eru færir um starfið, skuli geta verið málflutningsmenn fyrir hæstarétti, þótt þeir hafi ekki fengið fyrstu einkunn. Það hefir komið á daginn, að það eru 2 eða 3 menn, sem hafa verið yfirdómsmálaflutningsmenn, sem ekki hafa notað sér þriggja ára frestinn. Svo kemur Alþingi og segir, að það skuli veittur frekari frestur og þeir geti notað hann, sem vilja. Það liggur enginn samanburður í því, hvort sé erfiðara að vera hæstaréttarmálaflm. eða flytja mál fyrir héraðsdómi.

Ég verð að segja, að ég legg minna upp úr því, þótt 1. mgr. frvgr. verði samþ., sem sé að þeir lögfræðingar, sem stundað hafa málflutning fyrir héraðsdómi sjálfstætt eða sem fulltrúar hæstaréttarmálaflm. minnst 3 ár samfleytt fyrir 1. jan. 1937, skuli vera undanþegnir prófraun þeirri, sem um ræðir í 1. gr., þótt þeir fái að öðru leyti þennan rétt skilyrðislaust. Það eru aðeins fáir menn, sem þetta nær til, en ég legg mjög mikið upp úr, að síðari mgr. verði ekki samþ. og þannig opnaður rétturinn til málflutnings fyrir héraðsdómi, svo að bankastjórar, bæjarstjórar o. s. frv. geti skilyrðislaust orðið málflutningsmenn, án þess að leysa af hendi þessa prófraun og án þess að hafa sýnt á nokkurn hátt, að þeir séu hæfir til starfsins. Ég mun bera fram brtt. um, að síðari málsl. 1. gr. verði felldur niður.