25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

129. mál, iðnaðarnám

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Í sambandi við þetta frv. vildi ég fara nánar inn á þá aðstöðu, sem nemendur njóta í þeim félögum, sem þeir eru í, og hvaða afleiðingar frv. eins og þetta, ef að l. yrði, myndi hafa fyrir þá.

Í fyrsta lagi verð ég að segja það, að frá mínu sjónarmiði finnst mér þetta brot á þeim rétti, sem þeim er heimilaður samkv. stjórnarskránni, ef á að fara að banna nemendum að vera í félagsskap, sem skapaður er af þeirri iðn, sem þeir eru að læra og vinna með náminu venjulega í 4 ár a. m. k. Ég sé ekki betur en að þarna sé verið að vega að einmitt þeim grundvallarréttindum, sem veitt eru í okkar þjóðfélagi, sem verkamenn hafa áunnið sér.

Afleiðingarnar af þessu frv. myndu verða þær, að nemendum yrði gert miklu erfiðara að tryggja sér sæmileg kjör hjá iðnrekendum. Hjá meisturum í iðngreinum er mjög mikil tilhneiging til þess að nota nemendur sem ódýran vinnukraft. Sérstaklega er þetta, þegar nemendur eru búnir að vera svo sem 2 ár í iðninni, að þeir eru þá oft eins dýrmætur vinnukraftur og þeir, sem nýlega eru orðnir sveinar. Það hefir verið tilhneiging til þess hjá meisturum að hafa kjör netnendanna mjög slæm, og þá jafnframt tilhneiging til að hafa sem flesta nemendur. Í sterkum fagfélögum, eins og t. d. hjá prenturum, hafa nemendurnir verið með í félagsskap sveinanna, og það hefir orðið til að bæta kjör nemendanna. Það væri þess vegna með því að banna nemum að vera meðlimir í sveinafélögum verið að þrengja að þeim og rýra þeirra kjör. Ég man t. d. eftir því, að eitt af þeim verkföllum, sem járnsmiðir háðu, var háð til þess að knýja fram betri kjör fyrir nemana.

Hv. þm. Snæf., flm. frv., minntist á, að nemarnir væru tengdir allt öðrum böndum meisturum heldur en aðrir í iðninni. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Aðalböndin milli meistara og nema eru beinlínis kaupsambönd, nemarnir eru eins og hverjir aðrir verkamenn. Ef þetta á að tryggja það, að nemarnir haldi áfram með sína námssamninga, þá finnst mér, ef þingið vill sérstaklega hugsa um hag nemanna, að það ætti að tryggja það, að þó þeir gerðu verkfall, þá hefðu þeir eftir sem áður sama rétt viðvíkjandi námssamningunum, að það gefi ekki meisturum átyllu til að rifta námssamningunum. Það er vitað, hver hin beinu áhrif yrðu af þessu, sem sé þau, að hægt yrði að vinna með meisturum og nemum, þó sveinarnir ættu í verkfalli. Þetta yrði þá mjög hættulegt fyrir félagsskap iðnaðarmanna og yrði til þess að veikja samtök þeirra. Með þessu móti er því sérstaklega verið að vega að samtökum faglærðra verkamanna.

Þetta er hinsvegar ekki einstakt fyrirbrigði, að frv. eins og þetta komi fram. Á síðustu árum hefir í raun og veru hvert frv. á fætur öðru komið fram, sem miða í þessa sömu átt, að minnka þau réttindi, sem verkalýðurinn var búinn að ávinna sér fyrir árið 1937. Það eru ekki nema 2 ár síðan iðnaðarlöggjöfinni var breytt á þann veg, að svipta sveinafélögin dýrmætum réttindum, sem þau höfðu áunnið sér, og nú er gengið enn lengra. Í sambandi við þau l. var þannig fyrir séð, að þegar verkfall stæði og engir samningar væru í gildi milli meistara og sveina, þá væri meiri möguleikar en ella fyrir meistara að auka í iðngreinina, taka fleiri nema. Ef nemum væri með þessu fyrirskipað að vinna, þó verkfall væri, þá væri enn meiri hætta á, að fjölgað væri nemum meðan verkfall stæði og þar með reynt að eyðileggja verkfallsvopnið fyrir hinum faglærðu verkamönnum.

Þetta gengur í sömu átt og frv. það, sem samþ. var á þinginu í vetur, gengisl., þar sem félög verkamanna voru svipt réttindum viðvíkjandi kaupgjaldi og reynt var að hneppa í fjötra samtök verkamanna og gera þeim erfiðara fyrir að ná rétti sínum og tryggja sér sanngjarnt kaup fyrir vinnu sína.

Ég er eindregið á móti þessu frv. og mun greiða atkv. á móti því nú. En ef það fer til n., þá vil ég mælast til þess, að sú n., sem fær frv. til athugunar, leggi það fyrir sveinafélögin í bænum og leiti líka til nemanna, því það er rétt að láta þeirra skoðun koma fram á þessu atriði.