23.12.1939
Neðri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

129. mál, iðnaðarnám

*Frsm. (Emil Jónason) :

Nefndin hefir athugað málið og leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum viðaukatillögum, sem sjá má á þskj. 529. Þær till. eru að miklu leyti komnar frá iðnaðarfulltrúunum, þeim 3 mönnum, sem með síðustu breytingum á l. voru settir til eftirlits með samningum meistara við iðnaðarmenn og nemendur, og er einn valinn af ríkisstj., annar af landssambandi iðnaðarmanna og þriðji af iðnráðinu. Þessir menn eru nú búnir að starfa eitt ár og hafa rekið sig á ýmsa galla eða agnúa, sem þeir leggja til að reyna að losna við með breyt. á l. Sumar þessar brtt. eru aðeins orðabreytingar. Þannig er hin fyrsta (l.a), að í staðinn fyrir: „Þegar iðnaðarmenn taka nemanda — komi: „Þegar meistarar í iðnaði taka nemanda —. Þetta verður skýrara. Líkt má segja um 1.c., um að upphaf 3. málsgr. 1. gr. laganna orðist svo: „Árlega skulu iðnaðarfulltrúarnir leita álits — . Þó er ofurlítil efnisbreyting í því, að nægja skuli að leita árlega álits aðila, en þurfi ekki í hvert sinn, sem nýr nemandi er tekinn. Nýtt varúðarákvæði er hinsvegar b-liðurinn, um að einstök félög geti ekki með samþykktum sínum ákveðið, hverjir meistarar taka nemendur til kennslu, og að óheimilt sé að torvelda á nokkurn hátt framkvæmd námssamninganna. Það hefir komið fyrir, að samtök meistara hafa ívilnað einstökum meisturum um nemendur, en meinað öðrum meisturum að taka við nokkrum nemendum.

Þá er brtt. um, að upphaf 2. málsl. 55. gr. l. breytist þannig, að heimilt sé að segja upp námssamningi hvenær sem er á því 3. mánaða reynslutímabili, sem báðir aðilar hafa nú til að ákveða hvort þeir noti uppsagnarmöguleikann. Það virðist ekkert eðlilegra að binda uppsögnina við lok þess tíma en að leyfa meistara og nemanda að skilja fyrr, ef þeir eru búnir að komast að raun um, að þeir eiga ekki saman.

II. og IV. brtt. leiðir af sjálfu sér, en þá er ótalin III. brtt. um nýja málsgr. í 10. gr. l. svo hljóðandi: „Aldrei má meistari hafa fleiri nemendur að vinnu en fullgilda iðnaðarmenn“. Þetta ákvæði kemur varla að sök fyrir nemendur. ef á það er litið, að nú er ekki nema einn nemandi á móti fjórum sveinum hjá meisturum í Reykjavík. Þess vegna hefir nefndin gengið inn á þetta, svo sem hún hefir gengið inn á frv. í aðalatriðunum eins og það kom frá hv. flm., sem sé að nemendum skuli bannað að vera í sveinafélögum. Hv. flm. hefir og fallizt á brtt. n., og innan n. hefir ekki verið mikill ágreiningur um afgreiðslu þeirra. Vil ég því mælast til þess fyrir hennar hönd, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.