23.12.1939
Neðri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

129. mál, iðnaðarnám

*Einar Olgeirsson:

Ég vildi bara láta það í ljós, að ég álít þetta frv. vera til hins verra fyrir iðnsveinasamtökin. Það er í þessu frv. gengið lengra en áður hefir verið gert í því að þrengja að þeirra rétti. Hér liggja fyrir mótmæli frá iðnsveinasamtökunum, en ég sé, að n., sem um mál þetta hefir fjallað, hefir ekki tekið tillit til þeirra mótmæla, heldur þvert á móti gengið heldur lengra með sínum till. en flm. hafði gert. Ég sé hinsvegar ekki, að það sé til neins að koma fram með brtt. Það er aðallega 3. og 5. gr., sem ég álít hættulegar, þar sem að því er auðsjáanlega stefnt að tryggja meisturum, að þeir geti unnið með nemendum í verkföllum. Þetta felst einnig að nokkru leyti í 1. gr. Með henni er rýrður réttur sveinanna til að hafa áhrif á námssamninga. Hinsvegar er það vitanlegt, að sveinafélögin hafa haft mikil áhrif á námssamningana, og hafa meira að segja verið háð verkföll, sem beinlínis hafa verið gerð til að hafa áhrif á námssamninga. Ég mun þess vegna, þar sem frv. miðar að því að rýra réttindi iðnaðarmanna, og ennfremur þar sem ekki hefir verið tekið tillit til mótmæla samtaka þeirra. greiða atkv. gegn þessu frv.