03.01.1940
Efri deild: 100. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

129. mál, iðnaðarnám

*Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Frv. þetta er komið frá Nd. og er upphaflega borið fram af þm. Snæf. Frv. tók nokkrum breyt. í iðnn. Nd. Það var í byrjun eins og 3. og 5. gr. eru nú. Hinar greinarnar bættust við eftir athugun n. í Nd., og voru þær breyt. gerðar í samráði við eftirlitsmenn, sem kosnir voru með lögum á síðasta þingi, og eru breyt. aðallega fólgnar í því, að í A-lið 1. gr. stendur í lögunum „þegar iðnaðarmenn taka nemanda“, en í frv. „þegar meistarar í iðnaði taka nemanda“. Það er skýrar að orði kveðið, en annars raskast það ekki að neinu. B-liður er að komi ný málsgr., og er það aðallega vegna þess. að það hefir komið á daginn, að ýmsir meistarar væru útilokaðir eða fengju verri kjör en aðrir meistarar, og er þetta gert til þess að fyrirbyggja, að einstök félög geti ákveðið, hvaða meistarar taka nemendur til kennslu. Það á að vera óheimilt og meistarar eiga að ráða því sjálfir. C-liður er líka ofurlítil breyt. á núgildandi lögum. Það er nú þannig: Áður en iðnaðarfulltrúi ritar á o. s. frv. M. ö. o., að þeir eiga í hvert skipti áður en þeir innrita námsmenn að leita álits, en þarna er gert ráð fyrir, að það sé einu sinni á ári, þannig að þeir þurfi ekki að gera það í hvert skipti.

Þá er 2. gr. um það, að í núgildandi lögum er það þannig, að 3 fyrstu mánuði kennslutímans ber að skoða sem reynslutíma fyrir báða, og þegar í stað að þeim tíma liðnum hafa báðir rétt til þess að segja upp samningum án þess að tilgreina ástæðu. En það er þannig þarna, að þetta má á hverjum tíma sem er innan þessara þriggja mánaða. Það er vitanlegt, að þegar það er augljóst meistara, að nemandinn er ekki hæfur til námsins, er það gott að vera ekki skyldur að hafa hann út reynslutímann.

3. gr. er ný málsgr. Þar er tekið fram, eins og var í byrjun málsins, að nemum er óheimilt að vera í sveinafélögum, og félögunum bannað að hafa nema innan sinna vébanda. Þetta er eðlilegt frá sjónarmiði sveinanna, sem hugsa um sína hagsmuni, því að vel getur verið, að sjónarmið þeirra brjóti í bága við sjónarmið meistara, sem taka nema til kennslu, og nemunum er skylt að hlýða meisturunum. Þess vegna getur orðið árekstur, ef þetta er ekki tekið fram í l.

4. gr. segir, að aldrei megi meistari hafa fleiri nemendur í vinnu en fullgilda iðnaðarmenn. Er þetta ákvæði sett til þess, að ekki verði of ör vöxtur í iðngreininni, og til að tryggja það, að meistarar taki ekki frekar iðnnema í vinnu en sveina, svo að sveinarnir verði ekki útilokaðir frá allri vinnu.

5. gr. er ný málsgr., sem er afleiðing af 3. gr., að stjórnendur sveinafélaga sæti sömu hegningu og segir í 20. gr. l., ef brotið er gegn ákvæðum 7. gr., eða m. ö. o. 3. gr. þessa frv., og eins skal sektarfé ráðstafað eins og í núgildandi l. segir.

N. hefir haft þetta frv. til athugunar á fundi og lagt til, að það yrði samþ. óbreytt við þessa umr. Það hefir komið til mála í n. að athuga frv. nánar til 3. umr. upp á væntanlegar brtt., en þó er vafasamt, að þær komi frá n. héðan af.