17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki nema að nokkru leyti nýtt mál. við flm. þessa frv. höfum á undanförnum þingum flutt frv. um útgerðarsamvinnufélög; er því efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, að verulegu leyti það sama og áður, þó að vísu séu á því gerðar nokkrar breyt., m. a. á nafni frv. Það, sem fyrir þeim vakir, sem að þessu frv. standa, er að skapa löggjöf um nýtt form fyrir útgerð, sem mætti verða til þess, að svo miklu leyti sem það er hægt með lagasetningu, að skapa útgerðarrekstri heilbrigðan grundvöll, a. m. k. heilbrigðari en nú er. Það er svo til ætlazt með þessu frv., að ef 5 menn eða fleiri á útgerðarstað gera samtök um að stofna hlutarútgerðarfélag, geti þeir það að fengnu samþykki bæjar- eða sveitarfélags á viðkomandi stað, ennfremur að fengnu samþykki ríkisstj. á samþykktum félagsins, og nýtur þá slíkt félag hlunninda sem gert er ráð fyrir með þessu frv. Um fyrirkomulag slíks félagsskapar er svo nánar ákveðið í frv.

Höfuðatriði, sem í þessu frv. felast, eru þau, í fyrsta lagi, að sú útgerð, sem stofnað er til á þennan hátt, verði sameign þeirra manna, sem að henni vinna bæði á landi og sjó. Í öðru lagi, að þeir, sem mest bera úr býtum, hvort sem það eru sjómenn eða landmenn, eða aðrir, sem starfa hjá útgerðarfélaginu, eigi kaup og kjör undir því, hvernig framleiðslan ber sig á hverjum tíma.

Í þriðja lagi er það eitt höfuðatriði frv., að auk venjulegs tryggingarsjóðs, varasjóðs, er gert ráð fyrir, að safnað sé í tryggingarsjóð til þess að tryggja tekjur þeirra félagsmanna, sem vinna hjá félaginu.

Í þessu frv. eru tvö nýmæli, sem ég vil vekja athygli hv. þdm. á, frá því sem var í fyrra frv., sem ég gat um. Annað er það, að gert er hér ráð fyrir, að stofnaðir séu sérstakir tryggingarsjóðir á þann þátt, að greiddur sé ákveðinn hluti af verði aflans og þar á móti leggi svo viðkomandi hrepps- eða bæjarfélag jafnháa upphæð í sjóðinn, og að þessum tryggingarsjóði sé varið til þess að tryggja þeim, sem við útgerðina vinna, lágmarkstekjur í þeim árum, sem svo litið aflast, að vinnandi menn við fyrirtækið bera lítið úr býtum. Við höfum orðið varir við, að ýmsir sjómenn töldu það agnúa á eldri frv. um þetta efni, að í þeim árum, þegar illa gengi, gætu þeir, sem við útgerðina vinna, eftir ákvæðum þeirra frv., gengið frá vertíðinni slyppir og snauðir. Nú hefir það því orðið að ráði að leggja til þá breyt. á þessu í frv. Það verður að viðurkenna, að það er ekki óeðlileg krafa frá þeim mönnum, sem leggja fram krafta sína til starfa við þessi félög, að þeir ætlist til þess, að þeim sé veitt slík trygging. Við flm. frv. þykjumst fara eðlilega leið til þess að skapa þessa tryggingu, með því að ætla félaginu þegar vel gengur að leggja nokkuð af sínum tekjum í sjóð í þessu augnamiði, og jafnframt gera viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum að styrkja sjóði þessa. Því að vitanlega er það hagur fyrir viðkomandi bæjar- og sveitarfélög, að slíkur félagsskapur sem þessi rísi upp.

Hitt nýmælið, sem ég vil vekja athygli á, er það, að gert er ráð fyrir, að hlutarútgerðarfélög samkv. þessum l. greiði ekki tekjuskatt til ríkisins af því fé, sem lagt er í varasjóði eða tryggingarsjóði þeirra, og sömuleiðis, að bæjar- og sveitarstjórnum sé heimilt á hverjum tíma að veita slíkum félögum undanþágu frá greiðslu útsvars í bæjar- eða sveitarsjóði.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að allir þeir, sem eru ráðnir hjá félögum slíkum sem þessum, hvort sem þeir vinna á sjó eða landi, séu meðlimir hver í því félagi, sem hann vinnur fyrir. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að allir fastir menn hjá slíku félagi taki kaup sitt sem hlut, og að sá hlutur sé full greiðsla á vinnulaunum félagsins til þeirra.

Okkur, sem að þessu frv. stöndum, er það fullkomlega ljóst, að hér er komið inn á nokkuð vandasamt svið með þessu nýmæli. Sérstaklega mun það mega teljast algerlegt nýmæli, að þeir, sem vinna hjá útgerð í landi við skrifstörf, taki kaup sitt á slíkan hátt, sem hlut. En við erum þeirrar skoðunar, að það verði ekki ánægja með þetta hlutaskiptafyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, né að slíkt fyrirkomulag geti gengið sem frambúðarskipulag, nema hægt sé að framkvæma það á þennan hátt, þannig að það sé ekki álitið eðlilegt, að það séu sjómennirnir einir, sem taka kaup sitt sem hlut, heldur verði aðrir starfsmenn slíkra félaga að gera slíki hið sama. En þar sem þetta hefir ekki verið áður reynt — hlutaskipti sjómanna hafa að vísu verið framkvæmd — að láta fasta starfsmenn alla taka kaup sitt á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir hér, má vel vera, að það sé nokkurt vandaverk að finna fyrirkomulag hlutaskiptanna fyrst um sinn. En ég hygg, að það sé rétt sjónarmið að láta sér ekki vaxa það í augum, þótt slíkt kunni að verða erfitt fyrst í stað, því að enginn vafi er á því, að það er framkvæmanlegt. Og yfirleitt er það svo, að fáum umbótum verður fram komið, hvorki í atvinnurekstri né öðru, ef menn víkja af hólmi fyrir úrlausnarefnunum, sem vandasöm eru.

Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vildi vænta þess, að á þessu þingi og með þeim breytingum, sem á þessu frv. eru orðnar, gangi þetta mál nú greiðlega fram.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.