23.11.1939
Neðri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég hefi notað þann rétt, sem nm. áskilja sér í nál. til þess að koma fram með brtt. við frv. Brtt. mínar eru á þskj. 293, og aðalbreyt. er sú, að fella burtu úr 15 gr. ákvæðin um, að bæjar- og sveitarstj. geti undanþegið þessi félög sveitarútsvari. Það er vitað, að bæjar- og sveitarfélög eru í miklum vandræðum vegna þess, að þau geta mörg hver ekki aflað sér tekna til greiðslu á útgjöldum, og það er ekki á þau vandræði bætandi. Hinsvegar hafa verið hér á döfinni till. um það, að útgerðarfélög bátaútvegsins fengju svipaða undanþágu frá opinberum gjöldum eins og togarafélögin. Það er allt annað, þó að útgerðin sé leyst undan gjöldum á sérstökum vandræðatímum, um alveg afmarkað tímabil, heldur en að heimila með l., að slíkt sé gert ótakmarkað. Ég held, að þetta ákvæði freisti til þess að gera mun í þessum efnum á útgerðarfyrirtækjum í sama byggðarlagi, og það er ekki heppilegt. Ég býst ekki við, að það verði mikill ágreiningur um þetta, því að það er flm. ekkert kappsmál að halda þessu ákvæði, þó að þeir kjósi það frekar.

Síðara atriðið er um það, að fella burtu orðin „skipaútgerð ríkisins eða“ úr 16. gr. Það hefir orðið misprentun; orðið „eða“ hefir fallið burt í brtt. Ég vænti þess, að þetta verði leiðrétt þegar frv. verður prentað, ef brtt. verður samþ. Sú breyting er hvorki fyrirferðarmikil né þýðingarmikil. Mér sýnist það ekki liggja neitt beint við, að skipaútgerð ríkisins fari að hafa eftirlit með fiskveiðum. Mér finnst það liggja miklu nær hlutverki fiskveiðasjóðs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara neitt verulega út í frv. sjálft, eða einstakar gr. þess. Ég lýsi yfir því eins og sést í nál., að ég er ekkert á móti því, að svona félög hafi heimild til þess að starfa, en ég hefi ekki sterka trú á því, að þessi heimild verði notuð mikið. Ég er ekki heldur á móti því, að menn safnist saman til þess að reka sína eigin útgerð. Það er hætt við, að hin tíðu mannaskipti verði mikill agnúi á þessum framkvæmdum, en reynslan mun skera úr, hvort sá agnúi er svo stór, að svona félagsskapur geti ekki staðizt.