30.11.1939
Efri deild: 73. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er óvanal., að hv. 2. þm. S.-M. tali í máli af jafnmiklum hita og mér virðist koma fram í ræðu hans, því að allir þekkja hann að stöku jafnaðargeði. Andmæli mín virðast hafa farið í taugarnar á honum. Hann sagði það rangt hjá mér, að hér ætti að lögskipa hlutaráðningu, hér væri aðeins um heimild að ræða. Það má vera, að þetta sé aðeins heimild, en ef heimildin er notuð, þá er þetta orðin lögskipuð hlutaráðning. Í 2. gr. segir, að þegar búið er að stofna félag, þá sé þar með ákveðið, eftir hvaða reglum það skuli starfa.

Þá tortryggði hv. þm. það, sem ég sagði, að á síðari árum hefði ekki almennt verið ríkjandi hlutaráðningarfyrirkomulag í útgerð, en þetta gæti ég samt rökstutt með því að leggja fram allan þorra þeirra samninga, sem gerðir hafa verið í allri stærri útgerð hin síðari ár. Í smærri útgerð kann hlutaráðning að hafa verið nokkuð almenn, mjög misjafnlega þó, og hefir því verið misjafnlega tekið af sjómönnum, er þeir hafa á þann hátt verið látnir greiða kostnað af útgerðinni. Það má náttúrlega kalla það hlutaskiptaútgerð, er menn voru áður fyrr ráðnir upp á hundraðshluta, en það er ekki hlutaskiptaútgerð í því formi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það fyrirkomulag, sem ríkt hefir hér frá alda öðli, þar sem útgerðarmaður tók að sér að greiða allan kostnað við útgerðina og tók hlut fyrir það og leggja til skipið, en aflinn skiptist að öðru leyti milli skipsmanna, það var allt annað form á hlutaskiptaútgerð en þetta, sem hér er gert ráð fyrir. En þetta fyrirkomulag hefir orðið að breytast með breyttum tímum, með stækkandi útgerð, dýrum þilskipum, dýrum vélum, kostnaðarsömum veiðiáhöldum o. s. frv. og hefir þá skapazt nokkur togstreita um það, hversu mikill hlutur fiskimannsins skuli vera af afla, enda hefir hann verið mjög misjafn.

Með þessu frv. er ætlazt til þess, að svo eða svo margir menn myndi með sér félagsskap um að gera út skip, og um stærðina er ekkert ákveðið; það getur verið togari eða minna skip eftir atvikum. Svo er gert ráð fyrir því, að menn í landi, sem ekki vinna að veiðunum, hafi hina andlegu forystu í þessu, a. m. k. er engin skylda til þess, að það séu menn, sem sjálfir vinna að framleiðslunni. Verkafólki í landi hefir eins og kunnugt er verið gefinn frjáls réttur til að semja við atvinnurekendur um það, hve mikið það skuli fá fyrir vinnu sína, án tillits til þess, hversu mikið aflast. Verkamaðurinn vill fá fyrir vinnu sína það, sem hann þarf til að geta lifað, en hefir ekkert að flýja, ef ekki fæst bein úr sjó. Það er auðvitað ekki hægt að komast hjá því, að einhverjir beri þann halla, sem verða kann á útgerðinni. En ef þrengingar eru í þessum atvinnuvegi, þá hefir það verið stefna okkar alþýðuflokksmanna, að sveitarfélögin taki að sér að halda henni uppi. En með þessu frv. er þeim fórnað, sem leggja lifið í hættu á hafinu. Þessi mál er ekki hægt að leysa á sama sátt og áður var. Áður voru það bændur og vinnumenn, sem sjóinn sóttu, leituðu til verstöðvanna til að afla sér búsilags. En nú er ástandið svo í flestum kauptúnum landsins, að þeir, sem sjóinn stunda, verða að lifa af því eingöngu, oftast nær að minnsta kosti. Dæmi frá eldri tímum og nútímanum eru ekki sambærileg í þessu efni.

Hv. þm. vildi láta skína í, að ég vildi afnema alla hlutdeild verkamanna í framleiðslunni. Ég hefi áður sýnt fram á, að það hafi aldrei verið stefna Alþfl., að fiskimenn ættu ekki á neinn hátt að hafa hlutdeild í veiðunum. Hana geta þeir t. d. haft með því að fá hundraðshluta af andvirði þess, sem aflast, til viðbátar lágu kaupi. Í nærliggjandi löndum er talið heppilegt, að verkamenn hafi hlutdeild í framleiðslunni með slíkum hundraðshluta til viðbótar lágu kaupi, til þess að gera þá „interesseraða“ í atvinnurekstrinum. Víðast er og litið á þörf fiskimannsins með því, að honum er tryggt lágmarkskáup, sem fullnægi brýnustu þörfum hans. Ég get þessu til sönnunar lofað hv. þm. að lesa skýrslu frá árinu 1938 um fiskveiðar í nálægum löndum.

Samkv. 5. gr. frv. verður hver maður, sem gengið hefir í svona félagsskap, að sætta sig við, að búið sé að ákveða hans lífskjör með því, að þau miðist við ákveðinn hluta af afla, hvort sem verr gengur eða betur. Þetta vil ég aftur á móti láta vera með öllu frjálst samningsatriði, en ekki þannig, að menn skuli vera búnir að binda sig í allt að því tvö ár með því að ganga í svona félag, án þess að geta með nokkru móti losnað. Það hefir stundum verið haft orð á því, að það væri óþarflega margt, sem lögbinda ætti hér á landi, og er sjálfsagt nokkuð satt í því. Ég held, að þetta sé eitt af þeim málum, sem ekki eigi að lögbinda. Nú er reynslan sú, að þegar illa gengur, vilja margir útgerðarmenn ráða menn upp á hlut, en þegar vel gengur, vilja þeir gjarnan hafa fast kaup og taka arðinn sjálfir. Sum árin eru góð, önnur vond, og ég tel, að hafa eigi algilda reglu um góð ár og vond. En þetta á þó ekki að gera með l., heldur á það að vera komið undir skilningi manna á hverjum tíma, hvaða fyrirkomulag skuli hafa.

Þá hártogaði hv. þm. orð mín um það, að hér væri verið að ganga á hlut verklýðshreyfingarinnar. En ég fullyrði, að hér er í rauninni verið að ráðast á alla útgerð. Ef hans stefna verður ofan á og allir sjómenn ganga í slík félög sem þessi, þá hafa þeir ekki framar neitt að segja um sín mál, — þá er búið að skipta þeim í smáhópa, þar sem menn geta verið harla óánægðir, án þess að verklýðshreyfingin geti nokkuð við því sagt, því að hér er þá búið að taka fyrir kverkar henni um það að hafa hönd í bagga um lífskjör þeirra, er hún starfar fyrir. Svona hlýtur frv. að verka, ef nokkur vill eftir því fara. En það er vitanlega hægt að lokka menn inn í svona félagsskap eða jafnvel neyða.

Hv. þm. vitnaði í sína útgerð og sagðist jafnan hafa ráðið sjómenn upp á hlut. Ég rengi hann ekki. Hann hefir sennilega sýnt í útgerð sinni réttlæti og sanngirni, eins og honum er lagið í flestu. En hann er bara einn, kannske af fáum, sem sýnt hafa réttlæti og sanngirni.

Hv. þm. vildi ekki ræða um mínar spár um það, að samvinnuútgerðin myndi gefast illa, og virtist hann líta svo á, að það hafi orðið þessari útgerð að falli, að þar hefði ekki verið ráðið upp á hlut. Það má vera, að á Austurlandi hafi ekki almennt verið haft hlutaráðningarfyrirkomulag í þessari útgerð, en á Suðurlandi var það aftur á móti reglan. Á einum togara áttu menn t. d. að fá hlut af því, sem afgangs yrði eftir að búið væri að greiða beinan rekstrarkostnað. Menn höfðu þar öll árin yfirleitt 20% lægri tekjur en á öðrum togurum. Og nú hafa þeir afsalað sér togaranum. Ég gæti tekið fleiri dæmi úr samvinnuútgerðinni máli mínu til sönnunar. Það er eins og til þessarar útgerðar geti ekki valizt menn, sem fram úr skara í dugnaði eða heppni — sennilega aðallega heppni —, og liggur það sennilega í þeirri sálfræðilegu ástæðu, að þar, sem allir vilja ráða, þar getur ekkert blessazt. Þar sem allir eiga saman þátt í útgerðinni, vilja allir ráða jafnt, en enginn ræður í raun og veru, og svo gengur allt illa.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar hér. Okkur gefst sennilega tækifæri til að ræða málið frekar í n. Þar tekur hv. þm. vafalaust upp hanzkann fyrir sinn flokk. En ég tala hér fyrir þeirri stefnu, sem ég veit, að er almennt ríkjandi meðal sjómanna. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að hindra, að málið gangi til n. og hún reyni, ef hægt er, að sníða af frv. verstu agnúana. Ég mun ekki fyrr en að slíkri athugun lokinni geta sagt, hvort ég muni geta fylgt frv. eða ekki.