30.11.1939
Efri deild: 73. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Ingvar Pálmason:

Ég veit ekki, hvort það er til nokkurs að halda áfram umr. um þetta mál. Hv. 2. landsk. hefir viðurkennt, að hér væri ekki um nýmæli að ræða, og er það strax ávinningur. Gæti verið, ef umr. væri haldið áfram, að hann tæki fleira aftur af því, sem bann sagði.

Þó að ræða hv. þm. væri ekki vel ljós, kom það fram í henni, að hann taldi, að hlutaráðning væri ekki heppileg, vegna þess að þá væri hlutverki verklýðsfélaganna lokið. Ég skal ekki segja um það; honum er kunnugra um afstöðu verklýðsfélaganna til þessara mála en mér, en með leyfi að spyrja: Væri nokkur skaði skeður, þótt svo væri?

Hann sagði, að nú á síðari árum hefði það verið meginregla í öllum stærri útgerðum, að menn væru ekki ráðnir upp á hlut. Þetta er rétt; á síðari árum hefir það verið svo í stærri útgerðinni, að menn hafa verið ráðnir upp á fast kaup, en hvaða blessun hefir það haft í för með sér?

Ég ætla ekki að fara frekar út í það hér, en ég held út frá þeim forsendum, sem komu fram í ræðu hv. þm., að allt bendi til þess, að hér stefni í rétta átt, með því að hlutaráðning geti haldizt, hvar sem hægt er að koma henni við. Hv. þm. sagði, að það væri talað um, að við Íslendingar vildum lögbinda flest. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér, en ég er honum ekki sammála. Ég álít, að hér sé ekki um lögbindingu að ræða, heldur lögheimild. Hann veit sjálfur, eftir að hann hefir lesið frv., að hér kemur ekki annað til greina en heimild samkv. lögum, og ég held, að hann hljóti að skilja það. Ég sé ekki, að það komi því máli við, hvort löggjafarnir gangi fulllangt í því að lögbinda ýms atriði þjóðlífsins. Hér er ekki verið að lögbinda, heldur lögheimila fyrirkomulag, ef vilji er til staðar að nota þessa heimild. Hv. þm. þóttist geta upplýst það, að í nágrannalöndunum væri allt annað fyrirkomulag um ráðningu fiskimanna en hjá okkur, og að hún væri ekki nema að litlu leyti hlutaráðning. Þetta getur vel verið satt, — en hvaða ástæða er fyrir okkur að leita erlendra fyrirmynda, þegar við höfum margra alda reynslu í þessum efnum og vitum, hvað bezt er?

Ég held nú, að þessi hv. þm. sé ekki svo hrifinn af dönsku fyrirkomulagi, að hann fari að leita fyrirmynda úr þeirri átt. Þar fyrir gætum við kannske lært margt af Norðurlöndum, en fyrst og fremst það, sem okkur er til gagns. Hann las upp eina gr. frv. og dró þá ályktun af henni, að ef ekki aflaðist, hefðu hlutaráðningarmenn ekkert upp á að hlaupa: Það er gert ráð fyrir, að reynt verði að safna saman í sjóð til þess að jafna útkomu milli ára. Ég held, að reynt sé í þessu frv. að ganga svo frá, að það sé svo aðgengilegt sem kostur er á. Hinsvegar má gera bætur á því, en hugmyndinni, sem liggur bak við frv., megum við alls ekki sleppa.

Ég læt svo hér með útrætt um þetta, en málið hefir ekki mikið upplýstst við þessar umræður.