02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ég mundi bera fram brtt. við 3. umr., sem liggja nú hér fyrir á þskj. 640, fluttar af mér og hv. 10. landsk. þm.

Ég get verið fáorður um þetta mál, þar sem ég gerði allýtarlega grein fyrir afstöðu minni til þess við 2. umr.

1. brtt., a-liður, er við 2. gr. frv., þar sem ég legg til, að í stað 5 menn komi 10 menn, þannig að a. m. k. 10 menn þurfi að vera ásáttir um stofnun slíks félags með sér á hverjum stað til þess að heimilt sé, að það skuli stofnað. Ég tel nokkuð lítið, eins og frv. gerir ráð fyrir, að það séu aðeins 5 menn, því það er aðeins undantekning, að bátar séu þannig gerðir út, a. m. k. ef þeir eru af meðalstærð, að á þeim sé ekki nema 5 manna áhöfn. Þetta virðist mér sanngjörn breyt. með tilliti til þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að óheimilt sé að ráða fasta starfsmenn hjá slíkum félögum, nema þeir um leið gerist meðlimir í félaginu.

B-liður 1. brtt. ætlast til þess, að hér komi einn aðili til, sem leggi samþykki sitt á stofnun slíks félagsskapar, sem sé verklýðsfélag á félagssvæðinu.

Þeir, sem mest mundu koma til með að eiga undir stofnun og rekstri slíkra útgerðarfélaga, sem hér er gert ráð fyrir, eru vitanlega menn, sem eru í verklýðsfélögunum almennt. Er það því ekki nema eðlilegt, að þessi félög séu ekki stofnuð í andstöðu við vilja þessara verklýðsfélaga. En ég lít svo á, að ef verklýðsfélag á viðkomandi stað telur rétt, að slík tilraun verði gerð að stofna hlutarútgerðarfélag, þá sé ekkert við því að segja. Og ég álít, að verklýðsfélög eigi að hafa jafnmikinn ákvörðunarrétt í þessum málum a. m. k. ekki minni en sveitarstjórnirnar, sem í frv. er ætlazt til, að hafi mikið um það að segja.

2. brtt. mín er við 3. gr. frv. Það má segja, að hún sé að efni til veigamikil, því að þar geri ég till. um, að 3. gr. frv. verði stytt allmikið, og hún er nokkur umorðun á 1. mgr. frv., en sú mgr. frv. gerir ráð fyrir því, að félagar hlutarútgerðarfélags geti þeir einir orðið, sem ráðast hjá félaginu, á skip þess eða í landi. Ég hefi í brtt. minni gert ráð fyrir, að skipverjar yrðu ráðnir upp á hlut. En ég tel ekki heppilegt að setja ákvæði í l. um það, að allir, sem í landi vinna hjá félaginu sem fastir starfsmenn, skuli vera í félaginu. Það má kannske þrátta um það.

hvað teljist fastir starfsmenn. En í grg. frv. er gert ráð fyrir, að það sé einmitt verkafólk, sem átt er við með þessu. Ég legg því þann skilning í orðin „fastir starfsmenn“, að það sé verkafólk, sem átt er við, bæði karlar og konur, sem vinna við slíkt félag sem þetta í landi. Ég býst þess vegna við, að það gæti orðið allmikill ágreiningur milli hlutarútgerðarfélaga og verklýðsfélaganna um það, hvort ætti að launa verkakonur eða verkamenn, sem t. d. skipa upp salti og fiski o. þ. l. fyrir hlutarútgerðarfélögin, eftir taxta verklýðsfélags á viðkomandi stað eða eftir reglum hlutarútgerðarfélagsins, þannig að það fólk fái hluta úr afla fyrir vinnu sína. Ég legg því til, að þessi 2. mgr. 3. gr. falli niður, en 3. gr. orðist eins og sjá má í brtt. minni.

Ég geri ráð fyrir því í brtt., að inn í þessi hlutarútgerðarfélög megi taka menn, þó að þeir séu ekki virkir þátttakendur, heldur vilji aðeins ganga í félagið af áhuga. En ég álít, að réttur þeirra manna eigi að vera miklu takmarkaðri heldur en þeirra, sem reka fyrirtæki félagsskaparins með það fyrir augum að hafa lífsuppeldi sitt af því.

3. brtt. mín er aðeins viðbót og um, að aftan við 4. gr. frv. bætist, að lögmætum félagsfundi sé heimilt að undanskilja bú látins félagsmanns frá þeirri ábyrgð, sem um getur í 4. gr. frv. og gert er þar ráð fyrir að hvíli á búi látins manns í 2 ár. Ég hygg, að þessi viðbót geti ekki valdið neinum ágreiningi. Í mörgum tilfellum getur það verið svo, að hér sé um blásnautt heimili að ræða, t. d. ekkju með börn, þó að hún kannske eigi lífeyri til ½ árs. Væri í slíku tilfelli harkalegt að ganga að slíkri ekkju með ábyrgðarkröfu til þess að taka af henni, ef hún kynni að eiga eitthvað lítilsháttar sem tryggingarfé, og gera hana þannig blásnauða. Ég vil því setja í þessi l. heimild til að víkja frá þeirri skyldu, svo að hægt sé að undanskilja slík dánarbú, ef um er að ræða. Ég get ekki skilið, að neinn geti verið á móti breyt. eins og þessari, hvernig sem menn annars líta á svona löggjöf.

5. gr. frv. hefi ég orðað um í 4. brtt. minni. Ég hefi að sjálfsögðu gengið inn á, að skipverjar séu ráðnir upp á ákveðinn hlut af afla og það sé greiðsla fyrir þeirra vinnu, en bæti við, að þar sé farið eftir gildandi reglum, sem viðkomandi verklýðsfélag hefir sett á þeim stað um hlutaskipti. Því að sumstaðar hafa verklýðsfélög sett reglur um slíkt. Ég get ekki séð annað en að hlutarútgerðarfélög geti haft sömu reglur um þetta og verklýðsfélögin hafa ákveðið.

5. brtt. mín er við 7. gr., og gengur a-liður út á það, að þær lágmarkstekjur, sem ákveðnar eru í gildandi kauptaxta á viðkomandi stöðum, skuli vera einnig gildandi fyrir þessa útgerð. M. ö. o., ef um slíka lágmarkstryggingu er að ræða, sem algengt er að hafa, til þess að menn þurfi ekki alveg að svelta, ef óhöpp koma fyrir þá, svo að þeir geti t. d. ekki unnið að fiskveiðum í mestu aflahrotunum á vertíðinni, þá skuli hlutarútgerðarfélög greiða ekki minni tryggingu. Þessi trygging er víðast ekki sérlega há; sumstaðar er hún 150 kr. á mán. og sumstaðar 200 kr. á mánuði. Þessar tryggingar hafa verið settar til þess að viðkomandi heimili þyrftu ekki að leita til sveitar um hjálp, því að það er hart fyrir menn að þurfa að leita slíkrar hjálpar, meðan þeir eru starfandi menn.

Í b-lið 5. brtt. minnar við sömu gr. (7.) er gert ráð fyrir, að af óskiptum afla sé tekinn 1%, sem leggist í tryggingarsjóð, ennfremur, að jafnmikil upphæð skuli í hann renna frá viðkomandi bæjar- eða sveitarfélagi. En ég álít, að vegna þess að ríkið skiptir sér mikið af þessu máli, þá eigi ríkið að leggja jafnmikla upphæð í þessa sjóði eins og viðkomandi bæjar- eða sveitarfélagi á hverjum stað er gert að skyldu að leggja fram. Með því gæti ríkisstj. hjálpað til þess, að menn þurfi ekki að leita á náðir sveitar- eða bæjarfélaga í þeim tilfellum, sem ég gat um áðan. Ég sé ekki annað en að þetta sé sanngjörn og réttlát krafa.

6. brtt. mín er við 2. mgr. 9. gr. frv., og er um það, að styrktarfélagar í hlutarútgerðarfélögum hafi ekki atkvæðisrétt. Því að eftir frv. eins og það er nú, þá er það alveg sýnt, að styrktarfélagar gætu ráðið öllu fyrirkomulagi í félagsskapnum, og fiskimennirnir sjálfir hefðu þá í raun og veru ekkert um það að segja. Ég tel rétt að heimila mönnum að styrkja svona útgerðarfyrirkomulag, en hinsvegar, að slíkir styrktarfélagar fái ekki neinn möguleika til að ráða lögum og lofum í félagsskapnum, heldur aðeins að vera leiðbeinandi, þannig að þeir hafi tillögurétt og málfrelsi, en ekki atkvæðisrétt. Ég vil í þessu sambandi vitna í l., sem ég held, að séu um verkamannabústaði. Mig minnir, að í þeim l. sé ætlazt til þess, að styrktarfélagar hafi þennan takmarkaða rétt, aðeins málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Og er þetta ákvæði sett til þess, að þeir geti ekki orðið ofjarlar hinum eiginlegu virku félagsmönnum. Ég hygg það rétta skoðun, að styrktarfélagar eigi aldrei að geta orðið ofjarlar hinna annara félagsmanna í félögum yfirleitt.

Þá kem ég að ákvæðunum um fundarboðunina. Ég get ekki að öllu leyti fellt mig við þau. Ég get ekki fellt mig við það, að við endurboðun fundar sé hann lögmætur, hversu fáir, sem á honum mæta, svo að nokkrir félagsmenn geti á þann hátt valtað og skraltað með félagið. Ég álít, að ekki sé mikill áhugi fyrir hendi í svona félagsskap, ef ekki fæst í fyrsta skipti helmingur félagsmanna, a. m. k., til að mæta á fundi. Ég sé því ekki, að það sé nein hætta, sem felst í því, að láta það vera reglu, að félagsfundur sé lögmætur, ef helmingur atkvæðisbærra félagsmanna er mættur. Það er líka heldur óvenjulegt að sjá það í l. fram tekið, að hversu fáir félagsmenn í félagi, sem mæti á fundi, þá geti þeir ráðið úrslitum mála.

Þá kem ég að 7. brtt., sem er við 15. gr. Þar geri ég það að till. minni, að þessi félög yrðu látin vera algerlega skattfrjáls, því að ef mönnum er virkilega svona mikill áhugi á að koma slíkum rekstri sem þessum á fót, þá tel ég sjálfsagt að lyfta undir hann með því að undanþiggja hann opinberum gjöldum. Slík hlunnindi myndu áreiðanlega vera bezta ráðið til að koma virkilega fótunum undir slíkan rekstur.

Ég hefi nú lýst mínum brtt. og ég sé ekki, að þær séu þess eðlis, að þeir, sem bera þetta mál mjög fyrir brjósti, geti ekki gengið inn á þær í aðalatriðum. Ég verð hinsvegar að segja það, að ég hefi ekki mikla trú á, að svona útgerðarfélög risi upp í stærri bæjunum. Það má vel vera, að í smærri kauptúnum séu einhverjir, sem vilji reyna svona fyrirkomulag. Ég mun nú sjá, hvernig fer um mínar brtt., og við það miðast svo að lokum mín afstaða endanlega til þessa máls.