02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get verið stuttorður. — Hv. frsm., 2. þm. S.-M., reyndi að gera mínar till. tortryggilegar, en satt að segja fann ég nú ekki rökfimina í hans ræðu, þegar hann ræddi um mínar brtt. Hann hefir stundum verið skeleggari um gagnrýni mála en í þetta skipti, því sannast að segja fann ég ekkert í hans gagnrýni, sem hægt væri að telja rök. Hv. þm. taldi fjarstæðu að miða fjölda félagsmanna við 10 menn og sagði, að það væri fjöldi báta, sem hefði minni skipshafnir. Ég þykist nú dálítið þekkja til um fjölda skipshafna. Ég veit, að „trillur“ svokallaðar hafa færri menn. Þessir bátar ganga mjög skamman tíma. Þetta eru bátar, sem sækja stutt og stunda veiðar aðeins þegar bezt er og blíðast. En jafnvel þó að um „trillubáta“ sé að ræða, þá hafa þeir oft fleiri menn en 5, því að þeir hafa oft menn í landi til að beita, sem hreint og beint eru skráðir sem hásetar. Færri en 10 menn eru helzt á bátum, sem stunda dragnótaveiðar, en aðeins stöku sinnum á bátum, sem t. d. stunda síldveiðar. (IngP: Eða handfæraveiðar). Handfæraveiðar eru nú að mestu leyti lagðar niður, nema e. t. v. er gripið til þeirra einstöku sinnum. Menn hafa verið að gera tilraunir í slíka átt, en það þýðir ekki að ætla að lifa eins og á gömlum tímum. Menn eru yfirleitt ófúsir að dúlla með eitt og eitt færi í sjó nú á dögum. (MJ: Þeir geta haft þau fimm). Ég held, að maður kannist nú við það, að hafa troll. (MJ: Það getur verið sinn maður með þvert færi).

Hv. 2. þm. S.-M. taldi það fjarstæðu, að verklýðsfélögin hefðu nokkuð um þetta að segja. En þessi hv. þm. hefir aldrei látið þau orð falla í mín eyru öll þau ár, sem við höfum setið saman á þingi, að verklýðsfélagsskapurinn væri ekki sá aðili, sem hefði meira eða minna um það að segja, fyrir hvaða lífskjör hann ynni. En nú ber hann sér það í munn, að þetta komi verkalýðsfélögunum ekkert við. (IngP: Útgerðarmenn eru ekki í verklýðsfélögum). Margir menn, sem stunda árabátaveiðar og aðrar veiðar á smærri skipum, síldveiðar vissan tíma árs o. s. frv., og eru þannig útgerðarmenn í vissum skilningi, eru launþegar aðra tíma árs, á sama hátt og gerist um aðra sjómenn, eiga sömu hagsmuna að gæta og þeir, og eru í verklýðsfélögunum.

Ég þekki það frá fornu fari, þegar rætt hefir verið um hlutarútgerð eða stofnun samvinnuútgerðar, hvert hítamál það vill verða í félagsskap sjómanna. Ég get upplýst, að á ýmsum tímum hefir það valdið miklum átökum í Verkamannafélaginu Dagsbrún og Sjómannafélagi Reykjavíkur, hvort verkalýðsfélög ættu að leggja út í útgerð af eigin rammleik. Ég man það var samþ. fyrir eindregna ósk manna að leggja út í sameignar- og samvinnuútgerð á einum togara. Það var reynt, en nú dettur engum í hug að leggja út í slík félög. Einnig að öðru leyti er málið viðkvæmt í verkalýðshreyfingunni. Að óbreyttu frv. myndi flestum þykja nokkuð á rétt félaganna gengið. Því má ekki gleyma, að þau eru lögfestur aðili í þessum málum, hvað snertir launakjör verkalýðsins, og hafa því sitt að segja, þegar farið er að ýta mönnum út í útgerð. Þó hér sé svo túlkað málið af forvígismönnum frv., að hér sé að eins um smáútgerð að ræða, þá er opin leið til þess, að togarafélög og önnur stór útgerðarfyrirtæki geti skotið öllum togaraflotanum undir það. (IngP: Ef bæjarfélögin leyfa). Ég veit, að það hefir verið tilgangur og stefna flokks hv. 2. þm. S.-M. Sá flokkur hefir alllengi hampað því, að það ætti að koma allri stórútgerð undir hlutaskiptafyrirkomulag. Sá flokkur hefir lengi prédikað þetta bæði leynt og ljóst, og hv. 2. þm. S.-M. tekur undir það, að það ætti að koma á hlutaútgerðarfélögum undir yfirskini smáútgerðar. En Kveldúlfur gæti t. d. komið hverjum einasta togara sínum undir þetta. Ákvæðið um 5 manna áhöfn á hverju skipi er ekki annað en spor í áttina til þess að koma hlutaskiptum á alla útgerðina og þar á meðal kannske á hvern einasta togara. Ég veit, að okkur greinir geypimikið á um þetta atriði og það er svo djúpur stefnumunur milli mín og hv. 2. þm. S.-M., að það er ekkert óeðlilegt, að við deilum.

Þriðja brtt. mín, við 4. gr., segir hv. 2. þm. S.-M., að sé sanngjörn, og hann talaði um, að þarna mætti gera undanþágu, en þó vill hann ekki samþ. brtt. En hversu fátæk ekkja sem í hlut á, er ekki hægt að gera neina undanþágu, nema þetta ákvæði sé í gildandi l., og þess vegna hefi ég borið fram þessa brtt. Ég hefi sannarlega ekki orðið þess var, þar sem ég þekki til, að þeim fátæku og smáu væri hlíft við svona áföllum, heldur gengið að þeim miskunnarlaust.

Um tryggingarsjóðinn er það að segja, að hv. 2. þm. S.-M. vildi telja hlutverk hans að uppfylla þær kröfur, er menn gerðu til lágmarks lífeyris. En ég vil, að ríkið geri sitt til og leggi sjóðnum til fé. Ég tel það heppilegustu leiðina, ef eitthvað verður úr hlutaskiptum, að kauptrygging fáist með framlögum úr þeirri átt. (IngP: Kannske verklýðsfélögin vilji leggja sjóðnum til fé? Þá væru þau orðin aðilar). Þau hafa yfirleitt ekki svo há iðgjöld, að þau gætu lagt mikið af mörkum.

Ég finn ekki rök fyrir því, sem hv. 2. þm. S.-M. vildi meina, að brtt. mín við 5. gr. sýndi yfirlýstan fjandskap minn við frv. En þegar hann segir, að það sé fjandskapur við frv., þá hann um það. Í brtt. 5. gr. frv. segi ég ekki annað en það, að þar sem hlutaskipti eru, verði skipverjar ráðnir gegn ákveðnum hluta af afla, og sé hlutur greiðsla fyrir vinnu þeirra, þó þannig, að þeir sleppi aldrei með minna en gildandi kauptaxti eða samningar verkalýðsfélags á félagssvæðinu ákveða. Mér fundust bæði hv. frsm., hv. 2. .þm. S.-M., hv. 1. þm. Reykv. sammála mér um það atriði, að landsmönnum ætti að sleppa úr hlutaskiptum, en þó er ekki samræmi milli hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Reykv. um þetta. Á þeim stöðum, þar sem hlutaskipti eru tíðkuð, gilda um þau ýmsar reglur, og það stendur næst verklýðsfélögunum að semja um þær.

Um það, að 7. brtt. mín sé yfirboð, vil ég taka fram, að þetta stóð einmitt í frv. eins og það var borið fram í upphafi. Var það yfirboð? Hv. 1. þm. Reykv. hefir þegar verið bent á þetta, og ég get nú minnt hann á það líka, að nú hefir stórútgerðinni verið veitt skattfrelsi og að mestu leyti útsvarsfrelsi. Ég get ekki annað séð, en að það eigi að veita smáútgerðinni sömu fríðindi og stórútgerðinni, því að það hafa komið óhöpp fyrir hana alveg eins og hina stærri útgerð. og ekki sízt þegar til þessa félagsskapar yrði stofnað af mönnum, sem yrði að hjálpa til að skapa sér einhverja atvinnu, alveg blásnauðum mönnum, sem ekkert hafa fram að leggja sjálfir til að koma upp útgerðinni og lifa, þar til hún fer að skila arði. Ef þessi útgerð gengur sæmilega vel og sýnir mikinn tekjuafgang, þá koma þarna nýir skattþegnar, sem hægt er að leggja á.

Ég get minnt á samvinnufélögin. Samkv. l. greiða þau aðeins gjald miðað við verð fasteigna sinna. Þetta er gert og talið nauðsynlegt til að tryggja þau gegn allt of mikilli ágengni um útsvarsálagningu af hálfu sveitar- og bæjarfélaga. Ég sé ekki ástæðu til annars en að hið sama gildi um þessi félög. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara hv. 1. þm. Reykv. Ég mun greiða atkv. með till. hans um að vísa málinu til ríkisstj. Þó að brtt. mínar bættu nokkuð úr, ef samþ. yrðu, skal ég játa, að ég gerði þær á mjög skömmum tíma, og tel þær að vísu allar dálitla lagfæring, en hreint ekki fullnægjandi. Þess vegna get ég fallizt á, að málið eigi að fá þessa afgreiðslu á þessu þingi og bíða næsta þings.