02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Frsm. 1. minni hl., (Ingvar Pálmason) :

Ég vil byrja á því að taka það fram, að ég tel brtt. frá hv. þm. Hafnarf. þess eðlis, að það getur verið, að sumir geti rökstutt það, að ekki þurfi að, saka neitt, þó að hún yrði samþ., og tvímælalaust tel ég hana miklu réttari en brtt. hv. 2. landsk. Það er nauðsynlegt, að lágmark verði sett viðvíkjandi hinum smærri útgerðarstöðum, og ég tel það ekki neina verulega skemmd á frv., þótt sú brtt. kæmist á.

Að því er snertir ræðu, hv. 2. landsk. sé ég ekki ástæða til að svara henni nema einu. Þótt hann bæri sig borginmannlega og segðist vera kunnugur útgerð við strendur landsins, og eftir ræðu hans að dæma, myndu víst fáir þm. vera þeim málum kunnugri en hann, þá held ég, að fáir séu jafnvel ókunnugri smábátaútgerðinni úti um land en hann. Ég ætla að taka fram eitt dæmi. Handfæraveiðar voru áður góðar og gildar, enda mun hv. 2. landsk. vera vel kunnugt um það, því að hann er gamall skákmaður. En hann segir að handfæraveiðar séu nú orðnar úreltar, en þær hafa þó verið talsvert stundaðar á undanförnum árum, og við Austurland eru eingöngu stundaðar veiðar með handfærum 7–8 mánuði af árinu. Það er engum vafa bundið, að fjöldi manna hefir grætt á þeim, og er auðvelt að staðfesta það. Ég get gefið hv. 2. landsk. þær upplýsingar, að á Austurlandi hafa tvö sveitarfélög verið í uppgangi nú hin síðari ár og bæði sjávarpláss. Samkv. kenningu hv. 2. landsk. er vafasamt hvaða ávinningur væri að stunda þar veiðar, því að þar eru fiskveiðar stundaðar á smábátum eingöngu með handfærum, bæði við Djúpavog og Stöðvarfjörð. Ég verð að telja, að ég sé manna bærastur að dæma um þetta, og tel ég, að ég muni hafa mesta þekkingu á sjávarútgerð á Austurlandi, og a. m. k. miklu betri þekkingu en hv. 2. landsk., sem ekki veit um það, að í vissum hlutum landsins eru enn stundaðar handfæraveiðar með mjög góðum árangri, og miklu fleiri verstöðvar er stunda þær veiðar en aðrar, t. d. Vattarnes, Hafnarnes, og margir úr Neskaupstað, og eina útgerðin, sem hefir borið sig síðustu árin þar, eru einmitt handfæraveiðar á smábátum. Ég hygg að einn maður, sem hefir stundað handfæraveiðar frá Neskaupstað einn á bát, hafi að jafnaði fengið milli 40-50 skp. á vertíð, og hefir þó engan bátsmann í landi. Ég vildi láta þetta koma fram, til þess að hv. 2. landsk. þurfi ekki að halda, að hann sé eini maðurinn hér, sem tali af viti og þekkingu um þessi mál. Þeir, sem eru málum kunnugir, telja, að þeir menn, sem hafa lagt afla sinn í íshús, hafi hagnazt vel. Maðurinn, sem ég nefndi, hefir þannig fengið 1400 kr. fyrir 14–l5 skip. af fiski. Þetta er töluverð útgerð miðað við það, sem á sér stað viða annarstaðar á landinu, og það er alveg áreiðanlegt, að þessir menn lifa við talsvert skárri kjör heldur en margir halda, sem ekki þekkja nægilega til, og ég held, að engan skorti þá þekkingu meira en hv. 2. landsk., sem þarf til að dæma um, hvaða atvinnuvegir séu úreltir og hverjir ekki. Hann endurtekur sífellt þá kenningu, að það sé lífsnauðsyn fyrir verklýðsfélögin að hafa eitthvað um þetta að segja, og mér heyrðist, bæði á hv. 2. landsk. og hv. 1. þm. Reykv., að þeim fyndist varasamt að setja l. um þetta efni í trássi við verklýðsfélögin. Ég er þar á alveg gagnstæðri skoðun; ég fel, að verklýðsfélögin hafi ekkert um þetta að segja, vegna þess að þetta frv. er þannig uppbyggt, að þessi félög eru alveg óviðkomandi verklýðsfélögunum og kauptöxtum þeirra, og þarna verða menn aðeins að gera það upp við sig sjálfa, hvort þeir vilja vera í þessum félagsskap eða ekki. Ég held, að það sé alger misskilningur, að þetta mál snerti á neinn hátt verklýðsfélögin.

Ég held, að úr því að ég og hv. 1. þm. Reykv. erum sammála um, að eðlilegast sé, að hver einasti maður, sem í atvinnugreininni vinnur, eigi afkomu sína sem mest komna undir því, hvernig fyrirtækinu vegnar, sé rétt að samþ. frv. Hitt er auðvitað, að þeir, sem hugsa ekki um neitt annað en að tryggja, að aldrei sé unnið nema fyrir fullt faxtakaup, líta öðrum augum á málið.

Þó að víst sé, að taka eigi upp hlutaskiptingu, sem verkalýðsfélögin ákveða, þá verð ég að segja, að ég lit svo á, að það sé ástæðulaust vegna þess, að hlutaskipti eru svo misjöfn, eins og gefur að skilja, þar sem um er að ræða allar stærðir af bátum, allt frá þeim, sem ekki eru á nema 3 eða 4 menn, upp í togara, sem á eru um 30 menn. Það er ómögulegt að búa til nokkurn viðeigandi taxta. Það verða þessi félög að finna út sjálf, enda er þeim langbezt trúandi til þess, en ekki verkalýðsfélögnnum, sem ekki hafa annað fyrir augum en að þeir, sem þessa atvinnu stunda, beri sem mest úr býtum. Ég álít, að rök hv. I. þm. Reykv., um, að þessu máli beri að vísa til ríkisstj., séu ekki rétt. Ég vil láta það fylgja frá mínu sjónarmiði, að ef svo skyldi fara, að þessu máll yrði vísað til ríkisstj:, og ef hún skyldi undirbúa frv. eitthvað líkt þessu fyrir næsta þing, þá verði skýrt tekið þar fram, að ekki eigi að fara með fjárhag þessara félaga eingöngu eftir þeim skoðunum, sem koma fram hjá verkalýðsfélögum, og að þessi félög eigi að vera alveg fyrir utan verkalýðsfélögin.

Það var meira vit í rökum þeim, sem komu fram hjá hv. þm. Hafnf., að bæjarstjórnirnar ættu að athuga þetta, því bæjar- og sveitarstjórnir eru með þessum l. gerðar aðili, enda er sá varnagli sleginn í frv, að ekki megi stofna slíkan félagsskap nema með samþykki hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar, svo að ef bæjarstjórn er mótfallin fyrirkomulagi félagsins, þá samþykkir hún ekki neitt félag innan bæjarfélagsins.

Ég get nú látið útrætt um þetta mál, og látið skeika að sköpuðu, hvernig fer um afgreiðslu þess. Ég sé enga þörf á að vísa því til ríkisstj., því það er ekki annað en töf. Ég held, að málið sé nú komið í það horf, að ekki séu á því stórvægilegir gallar, þótt auðvitað geti verið á því einhverjir gallar, sem mér eru duldir. En ég segi fyrir mig, að ég mun greiða atkv. á móti því, að málinu verði vísað til ríkisstj.