03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Finnur Jónsson:

Hæstv. viðskmrh. var að tala um það, að það væri einkennilegt, að nokkur skyldi kveðja sér hljóðs um þetta mál nú. Ég segi fyrir mitt leyti, að mér þætti það harla einkennilegt, ef þetta mál gengi gegnum d. án þess að nokkur kveddi sér hljóðs, jafnvel á þessum tíma sólarhringsins. Það er sjálfsagt alveg einstakt, að ég hygg, ef það á að fara að setja það inn í löggjöf, sem ætlazt er til að standi í mörg ár, ef til vill, að réttur verkamannafélaga og sjómannafélaga til að ákveða kaup og kjör sé af þeim tekinn, eftir að búið er að setja um það ákvæði í vinnulöggjöfina, að félög verkamanna hafi þennan rétt.

Þegar þetta mál hefir verið hér til umr., hefir verið bent á, að í því eru ákvæði um, að hlutarútgerðarfélög skuli ráða menn til sín gegn ákveðnum hluta af aflanum, og ennfremur, að veiðarfæra- og beitukostnaður skuli greiðast af óskiptum afla. Nú er það vitanlegt, að þar sem hlutaskipti eru, þá er hvergi dreginn frá veiðarfærakostnaður af óskiptum afla. Slíkt lagafrv. kemur því í bága við þá samninga, sem annars gilda alstaðar á landinu, þannig að þó að ekki væri annað en þetta, þá gengi þetta fyrirkomulag á rétt sjómannafélaganna til þess að ákveða kaup og kjör.

Ég vil í trausti þess, að ríkisstj. hafi meint eitthvað með þeim yfirlýsingum, sem hún gaf hér á Alþingi um það, að það sé aðeins vegna styrjaldarástandsins, sem ríki nú, að Alþ. eftir tilmælum ríkisstj. hafi nú samþ. breyting á l. um gengisskráningu, þannig að kaupgjald verður nú lögboðið í eitt ár, en að ekki sé ætlunin, að ríkið ákveði kaupgjaldið til frambúðar, leyfa mér að lýsa brtt., er ég legg fram við þetta frv. Ég hefi því miður ekki getað borið þessar till. öðruvísi fram en skrifl., þar sem þetta frv. er alveg nýkomið aftur til d.

1. brtt., sem ég hefi leyft mér að gera við frv., er á þá leið, að 5. gr. orðist svo:

„Í hlutarútgerðarfélög séu skipverjar ráðnir gegn ákveðnum hluta úr afla, og sé hlutur greiðsla fyrir vinnu þeirra, þó aldrei lægri en gildandi samningur milli útgerðarmanna og sjómannafélags á staðnum ákveður, eða taxti sjómannafélags, ef samningur er ekki til“.

Með þessari brtt. er loku fyrir það skotið, að þetta frv. gangi svo þvert ofan í nýlega gefnar yfirlýsingar ríkisstj. eins og 5. gr. þess gerir nú.

Í 7. gr. þessa frv. segir, að í samþykktum hlutarútgerðarfélags skuli vera ákvæði um tryggingarsjóð, er hafi það markmið, að tryggja félagsmönnum, sem vinna hjá félaginu, lágmarkstekjur eftir ákvæðum í reglugerð, sem félagið setur. Ennfremur segir, að sú reglugerð skuli vera samþ. af bæjar- eða sveitarstjórn, þar sem félagið á heima, og staðfest af ríkisstj. Það er m. ö. o. svo, að ákvæðin um lágmarkstekjur eiga fyrst og fremst að vera samþ. af bæjar- eða sveitarstjórn og svo ríkisstj., en ekki af sjómannafélagi, þar sem slík félög eru starfandi. Þessi gr. gengur einnig berlega í bág við vinnulöggjöfina og nýgefnar yfirlýsingar ríkisstj. Það er því tvisvar sinnum í þessum sömu l. verið að vega að sjómannafélagsskapnum í landinu.

Ég vil nú leyfa mér að gera tilraun — og vitanlega er það síðasta tilraunin í þessari hv. d. — til þess að samræma þetta frv. við gildandi löggjöf í landinu og nýlega gefnar yfirlýsingar ríkisstj. á þann hátt, að leggja fram brtt. við þessa gr. Hún er við 7. gr., að 1. málsgr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í samþykktum hlutarútgerðarfélags skal vera ákvæði um tryggingarsjóð, er verja skal til þess að tryggja sjómönnum, sem vinna hjá félaginu, lágmarkstekjur samkv. 5. gr.“ — Ég skal svo ekki frekar fjölyrða um þetta atriði.

Ég vil geta þess, að í 9. gr. er ákvæði um atkvæðarétt á félagsfundi, sem er mjög óljóst. Flm. þessa frv. vildu halda því fram við fyrri umr. þessa máls í hv. d., að ætlazt væri til, að sama regla gilti um atkvæðisrétt í þessum félagsskap og samvinnufélögunum, þannig, að enginn maður gæti farið með nema eitt atkv. En þegar 7. gr., sem ákveður um atkvæðisrétt félagsmanna, er athuguð, þá kemur það í ljós, að í henni er hvergi neitt ákvæði um það, að enginn félagsmaður megi ekki fara með nema eitt atkv. Þetta vantar því í frv. Þetta frv. er að því leyti verr úr garði gert en hlutafélagal., því þar eru sett takmörk fyrir því, hvað mörg atkv. einn maður megi fara með á félagsfundi. Í þessu frv. eru engin takmörk fyrir því, hvað einn maður megi fara með mörg atkv.

Til þess að bæta úr þessu og færa það í samræmi við það, sem flm. ætlast til, þó þeir hafi ekki borið gæfu til að orða fyrirætlanir sínar nógu skýrt, þá hefi ég leyft mér að leggja fram brtt. við 9. gr. frv., að á eftir næstsíðasta málsl. 2. málsgr. komi: og má enginn félagsmanna fara með nema eitt atkvæði.

Ég lýsti að öðru leyti minni afstöðu til þessa frv. við fyrri umr. á þann hátt, að ég taldi þetta frv., ef að l. yrði, ganga fram gegn vilja sjómannafélaganna í landinu, og þar sem ýmislegt í því væri beinlínis til að skerða réttindi sjómannafélaganna, þá myndi þetta frv., þó að l. yrði, ekki koma að gagni, því fyrsta skilyrðið til þess, að það komi að gagni, er, að einhverjir sjómenn vilji verða til þess að stofna slík félög. En ég tel litlar líkur til þess, eins og frv. er nú úr garði gert.

Ég er þess vegna mótfallinn frv., en hefi þó viljað gera þær tilraunir, sem ég hér hefi lýst til þess að gera frv. þannig úr garði, að það bryti ekki í bága við vinnulöggjöfina. Ennfremur hefi ég gert tilraun til þess, að frv., ef að l. yrði, færi ekki alveg þvert ofan í nýgefnar yfirlýsingar ríkisstj.