22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

118. mál, framfærslulög

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég hefi hér í þessari hv. d. tvisvar sinnum flutt frv. um breytingar á framfærslulögunum, en þetta frv. hefir aldrei komizt lengra en til 2. umr. og n. Ég sé það, þegar nú hefir verið flutt af hæstv. ríkisstjórn frv. um breyt. á framfærslul., þá hefir ekki verið tekið nokkurt tillit til þeirra till. til umbóta, sem í því frv. voru. Ég ætla ekki að ræða hér frekar um það, aðeins minnast á aðalatriðið í því frv., en það var, að landið yrði gert að einu framfærsluhéraði. Ég er sannfærður um, að það fæst aldrei nein lausn þeirra vandamála, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, á að bæta úr, nema landið verði gert að einu framfærsluhéraði. Ég sé, að hér hefir verið stigið skref til baka, eins og oft hefir átt sér stað á öðrum sviðum hin síðari ár. Það hafa verið stigin spor til baka, hvert á fætur öðru, til þess að skerða umbótalöggjöf, sem samþ. var á Alþ. 1936. Má nefna sem dæmi iðnaðarlöggjöfina, öryggi á sjónum, o. s. frv. En þetta skref til baka, sem hér hefir verið stigið, er að nokkru leyti það að innleiða sveitfesti fyrir menn, sem orðið hafa að þiggja framfærslustyrk síðustu 2 ár áður en þeir fluttu til þeirra staða, sem þeir dvelja í. Annað atriði, sem horfir til baka, er það, sem fram kemur í 21. gr. l., þar sem sveitarstjórnum er gefið meira vald yfir styrkþegum. Nú er ekki svo að skilja, að ég líti svo á, að ekki sé nauðsyn til þess, að sveitastjórnir hafi það vald að geta bent styrkþegum á sómasamlega vinnu, jafnvel þó að hún sé fyrir utan viðkomandi framfærslusveit, en at þessu síðasta getur stafað allmikil hætta. Það eru engin takmörk fyrir því, hvaða afleiðingar það gæti haft, að skylda styrkþega til að vera í vinnu utan sinnar heimilissveitar; það getur þýtt upplausn heimilisins og jafnvel leitt til hjónaskilnaðar. Honum er skipaður staður meðal annars flokks manna. Þá er heldur ekki um það spurt, hvort sú vinna, er sveitarstjórn úthlutar framfærslustyrkþega, sé greidd samkvæmt taxta verkalýðs- og sjómannafélaganna eða annara stéttarfélaga. Nei, úrskurður lögreglustj. í hverri framfærslusveit er um það látinn einn ráða og ríkisvaldinu er á þann hátt gefið fyllsta tækifæri til kaupgjaldsbrota.

Eina leiðin, sem fær er til þess að losna við agnúa og ófremdarástand framfærslumálanna, er að gera landið allt að einu framfærsluumdæmi. Með því móti er hægt að rétta við hlut þeirra sveitarfélaga, sem núna stynja undir þunga fátækraframfærslunnar. Þá fyrst er hægt að tryggja réttlæti í þessum málum og verða sveitarfélögunum að raunverulegu liði, ef öllum framfærslukostnaði landsins er jafnað niður á framfærslusveitirnar eftir efnum og ástæðum. Alþfl. hefir allt fram til ársins 1936 barizt fyrir þessari lausn framfærslumálanna, sem ég hér hefi bent á. Og það er óneitanlega dálítið einkennilegt, að Alþfl. skuli nú vera horfinn frá hinni einu réttlátu, raunverulegu og viðunanlegu lausn þessara mála.