24.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

118. mál, framfærslulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Frv., sem hér liggur fyrir, horfir til bóta, en hinsvegar er mér það ljóst, að þegar ræða er um það, hvor lausnin sé betri, sú, sem tekin er með þessu frv., eða hin, að gera landið allt að einu framfærsluhéraði, þá er það vandasamt mál að skera úr að svo stöddu.

Ef haldið er áfram með jöfnunarsjóðsfyrirkomulagið, þá er tekið upp skipulag án skorða. Einstaka sveitarfélög geta farið með fé ríkissjóðs eftir vild. Til þessa hefir ekki verið hægt að reisa skorður við misnotkuninni og heldur ekki hefir verið hægt að fá heildaryfirlit yfir fátækramálin. Eins og fátækraframfærslan er nú með jöfnunarsjóði og hnotbíting sveitarfélaga á milli, þá verður að taka öll þessi mál til athugunar og nákvæmrar rannsóknar.

Við umræðurnar í þessari háttv. deild hefir ekki verið minnzt á það atriði, sem ég tel höfuðkost frv. Þar á ég við það fyrirkomulag, að hægt verður að nota vinnukraft þann, sem afgangs verður á einum stað á landinu, til hagnýtingar á þeim stöðum, þar sem hörgull er á vinnuafli, það er eitt hið þýðingarmesta atriði í félagslegum, í sósíölum efnum, að menn, sem geta unnið, þurfi ekki að ganga auðum höndum. Það þarf varla að útlista það nánar, að atvinnuleysið er ein hin mesta bölvun manna nú á tímum. Atvinnuleysingjunum sjálfum er það fyrir beztu, lífi og afkomu þjóðarinnar ríður á, að vinnulausum mönnum verði ráðstafað til vinnu, þar sem hennar er þörf og þar sem skortur er á vinnuafli.

Ætlun frv. er því að taka upp kosti þess skipulags, er gerir landið allt að einu framfærsluhéraði. Frv. mun færa mönnum reynslu í framfærslumálunum, og þegar allt kemur til alls, þá er það reynslan, sem sker úr að lokum um það, hvert verður fyrirkomulag fátækralöggjafarinnar í framtíðinni. Hinu skal ég ekki neita, að allmikill mótþrói er víða gegn því að flytja menn úr stað til vinnu. En þess er þá líka að gæta, að það er ömurleg tilhugsun, er menn ganga iðjulausir í sumum plássum og stöðum í landinu á sama tíma og aðrir landshlutar fá ekki að gert fyrir sakir fólkseklu. Það er hættulegt að halda áfram á þeirri braut.

Loks vil ég fara nokkrum orðum um það atriði 21. gr. laganna, þar sem segir, að skjóta megi úrskurði lögreglustjóra til ráðherra. Ég álít, að dómsúrskurðurinn sé betur kominn í höndum lögreglustjóra en að málinu sé vísað til ráðh. Dómsúrskurðurinn verður að vera almennur, skoðaður frá almennu sjónarmiði. Ef málið er lagt undir ráðherra, þá er hætt við, að þessa almenna sjónarmiðs verði ekki gætt, því að ráðh. koma og ráðh. fara, eins og kunnugt er. Hinar mismunandi skoðanir ráðh. munu því marka dómsúrskurðinn, en ekki almennar forsendur. Framkvæmd laganna yrði því eins mismunandi eins og skoðanir ráðh. eru mismunandi. Þessu ákvæði laganna ætti því að mínu áliti að breyta, og ég vil beina því til þeirrar nefndar, sem á að fjalla um þetta mál, að taka þetta til athugunar, því að fólkið heimtar, að það sé dæmt eftir almennu réttlæti. En ráðh., sem treysta á eigið réttlæti, mega ekki gleyma því, að á eftir þeim koma aðrir ráðh. Ég vil svo endurtaka það, að frv. er mjög til bóta og gefur grundvöll að nýrri reynslu.