22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

118. mál, framfærslulög

*Brynjólfur Bjarnason:

Þegar ræða er um það, hvort landið eigi allt að vera eitt framfærsluhérað eða ekki, þá er ekki að ræða um orð, heldur um innihald. Þegar ég tala um allt landið sem eitt framfærsluhérað, þá á ég við fyrirkomulag, þar sem sveitarþyngslin komi hlutfallslega jafnt niður á sveitarfélögunum, þrátt fyrir það, að ómegðin hjá þeim sé mismunandi mikil. Þetta er ekki tilfellið eins og nú er ástatt, því að sveitarþyngslin koma mjög mismunandi hart niður á hinum einstöku sveitarfélögum.

Hæstv. forsrh. vildi fá reynslu fyrir því, hvort hægt væri að flytja vinnukraftinn til í landinu, þetta kvað hann vera eitt þýðingarmesta atriði frv. Það er augljóst mál, að hér ber enn þá meiri nauðsyn til þess, að tryggilega sé frá því gengið, að þetta sé ekki misnotað af hálfu stjórnarvaldanna. En þetta er ekki gert. Eins og l. eru nú, er hægt að vísa styrkþegum á vinnu, sem greidd er undir taxta verkalýðsfélaganna. Það er hvergi minnzt á það, að þessi vinna skuli greidd með þeim taxta. Úrskurður er hér einungis hjá lögreglustjóra og svo hjá ráðh., sem sízt er trygging fyrir, að geti verið réttlátur, heldur þvert á móti. Þetta gæti orðið til þess, að styrkþegar væru notaðir sem ódýrt vinnuafl, og það til þess að brjóta niður taxta verkalýðsfélaganna.

Hvað segja menn um ,það, að úrskurður eigi að vera hjá lögreglustjóra um það, hvert kaup og kjör annara verkamanna en styrkþega eigi að vera. — fyndist mönnum tryggilega gengið frá kaupinu og kjörum verkamanna með því móti?