22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

118. mál, framfærslulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 1. landsk. sagði, að það væri yfirlýst, að þetta frv. væri undirbúningur undir víðtækari breyt. Ég mun hafa sagt eitthvað á þá leið, að með þessum l. gæti skapazt sú reynsla, sem leiddi til þess, að einhverjar breyt. yrðu gerðar á framfærslul., og að ég vildi rannsaka, hvort nægilegt væri að finna leið til þess að gera landið að einu framfærsluhéraði.

Ég vil undirstrika það, að það er alveg tvennt, ólíkt, sem vakir fyrir okkur í þessu máli. Það sem hv. þm. tekur fram, að hafi aðallega vakað fyrir sér, er aðeins eitt, að framfærslubyrðin komi jafnt niður eftir efnum og ástæðum á sveitarfélögin í landinu, og svo ekki neinar umbætur að öðru leyti. (BrB: Jú, jú!) Það sagði hv. þm., að væri meginatriði í þessu máli. En mér finnst það einn höfuðkostur þess (BrB: Ég get bara ekki séð leiðina til þess að fyrirbyggja gallana), að hafa landið eitt framfærsluhérað, að það séu meiri möguleikar til þess að skipta vinnu á milli héraða með því að flytja vinnukraftinn til á milli héraða, ekki með þvingun, heldur með frjálsum flutningi, sem framfærslul. eru nú byrjuð að fyrirbyggja. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, en ég man ekki betur en að hjá sumum þjóðum sé svo fyrir mælt, hvað margt fólk megi vera við atvinnu á hverjum stað, og hver borg megi ekki fara yfir vissa stærð. Og þó ekki sé gengið svo langt, þá er ekki hægt að neita því, að það er mjög háskasamlegt eins og er í nokkrum bæjarfélögum, án þess að ég telji upp nokkur sérstök, að þar er fátækraframfærið orðið mikið, en ekki sjáanlegt, að á þeim stöðum séu möguleikar til þess að skapa framtíðaratvinnu fyrir það fólk, sem þar býr, með neinum skynsamlegum ráðum. Og á þá að leyfa þessu fólki að vera þar og jafnvel að festa það þar með fjárframlögum, að það verði að vera þar kyrrt og framfært af sínu sveitarfélagi, eins og nú er í Reykjavík eftir að jöfnunarsjóður kom, þótt þar séu ekki atvinnumöguleikar fyrir fólkið. (BrB: Skaffa því bara vinnu annarstaðar). Það er nú það, sem verið er að fara fram á.

Það er alltaf vandi að taka einstök dæmi, og það er kannske ekki rétt að gera það, en ég býst við, að með þeirri fólksfjölgun, sem er í Reykjavík, geti orðið ákaflega erfitt að útvega vinnu við framleiðslu, sem geli staðið undir því, að afkoma bæjarins geti orðið sæmileg; en jafnhliða því vantar vinnukraft annarstaðar. Um það, hvað ég á við með þessum flutningum, þó að ekki sé talað um þvingunarflutninga, skal ég nefna dæmi.

Þegar útmældar voru lóðir hér nálægt Reykjavík, þá vildu margir fá þær. En þótt þetta fólk vilji rækta þarna og setjast þarna að, þá fær það það ekki, því Seltjarnarneshreppur á landið. Og samkvæmt l. verður hann að samþ., að fólkið fái landsetu, og hann hefir ekki leyft þessu fólki að eiga þar heima. Þetta fólk fær ekki að búa í sveit, þótt það óski þess. Það eru æðimargir, sem ég þekki, sem vilja flytja út í sveit og fá sér jörð til þess að búa á, en sveitarfélögin hafa þá keypt þær jarðir til þess að koma í veg fyrir, að menn flyttu þangað, vegna hræðslu við að þyngdist fátækraframfærið í sveitarfélaginu. Fátækral. eru farin að standa í vegi fyrir, að menn flytji sig á staði, þar sem atvinnumöguleikar eru fyrir hendi fyrir þetta fólk.

Þetta vakti fyrir mér, þegar ég taldi, að það væri rannsóknarefni, hvort ekki væri rétt að hafa landið allt eitt framfærsluhérað. Og með þeim ákvæðum, sem í frv. felast, ef það verður að l., mun skapast reynsla, sem hægt verður að byggja á.