09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

118. mál, framfærslulög

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Frv. þetta er fram borið að tilhlutun stjórnarinnar allrar, en ekki eins ráðh. eða ráðuneytis. Nefnd sú, sem stjórnin setti sameiginlega til að semja það, skilaði henni því, og var fallizt á, að stjórnin stæði öll að því. Ég tel því skylt, að ég geri grein fyrir afstöðu minni, sérstaklega til þess atriðis, sem meiri hl. n. vill fella úr, en það er, að undir ákveðnum skilyrðum beri ríkið ábyrgð á framfærslueyri vissra manna, sem flytjast milli sveita, en öðlast ekki rétt til styrks, þar sem þeir setjast að. Með breyt,, sem gerðar voru 1935 á þessum l., þótti gengið mjög á rétt þeirra bæjarfélaga, sem mest aðstreymi höfðu af fólki, sem af einhverjum ástæðum hafði ekki getað séð fyrir sér heima fyrir og leitað betri skilyrða annarstaðar. Sérstaklega þótti hart að gengið, að framfærsluskylda þeirra, sem þegar voru komnir á framfæri, félli á dvalarsveit. Nú er ekki farið fram á að breyta meiru en að þeir, sem þegar eru ósjálfbjarga, geti ekki eignazt framfærslurétt í sveit, sem þeir flytjast til, en allir aðrir, þótt kannske séu alveg í þann veginn að verða að leita á náðir hins opinbera og geta þó að þeim orðið ærnar búsifjar. Það þótti ekki ósanngjarnt að miðla þannig málum, að sveitarfélögin fengju tryggða greiðslu fyrir ósjálfbjarga innflytjendur frá fyrri dvalarsveit þeirra. Það varð ekki tryggt, nema ríkissjóður tækist á hendur ábyrgð á greiðslunum. Þetta er að sjálfsögðu baggi, sem lagður er á ríkissjóð. En þess er þá að gæta, að hann á langtum hægari aðgang að viðkomandi sveitum en sá bær eða sveit. sem greiðsluna á að fá. vegna þeirra viðskipta, sem ríkið hefir við sveitarfélögin. Ríkisstj. var auðvitað ljóst, hvað í þessu ákvæði gat falizt. En þar sem það var viðurkennt, og einnig hér á Alþingi, að óhjákvæmilegt væri að greiða nokkurt fé til sveitar- og bæjarfélaga, bæði í sambandi við framfærslulögin og af öðrum ástæðum, þótti rétt að leggja til, að þessi breyting, sem hér ræðir um, yrði samþ. Ég vil því eindregið mælast til þess, að frv. verði afgreitt hér án þess að afnema þá tryggingu, sem í ríkisábyrgðinni er veitt.

Aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, sé ég ekki ástæðu til að gera að miklu umtalsetni, enda heyrir þetta mál í sjálfu sér ekki undir mitt ráðuneyti. Auk þess hefir hv. 3. landsk. (SÁÓ) fallizt á að taka aftur til 3. umr þær brtt. sínar á þskj. 375, sem ágreiningur er um. Ég skal þó ekki leyna því, að þessar brtt. hans, a. m. k. önnur þeirra, við 21. gr., raska grundvelli frv.

Þá er með 9. brtt., við 31. gr., farið fram á að breyta orðunum: „þurfamanni“ eða „atvinnuleysingja“ í „styrkþega“. En gr. er um það, á hvern hátt slíkir menn geti öðlazt framfærslurétt í nýju héraði. Ég er hræddur um, að brtt. gæti orðið til þess, að verra yrði að fá atvinnu fyrir atvinnuleysingja í öðrum sveitum, ef þeir eiga að koma á framfæri þar strax, ef þeir verða ósjálfbjarga, enda hægt að komast kringum lögin með því að koma þannig fyrir ósjálfbjarga mönnum, sem ekki væru beint orðnir styrkþegar. Það eru þessir tveir annmarkar, sem mér virðast vera á þessu, og ég vil beina því til hv. n., hvort hún vilji ekki athuga þessar brtt. til 3. umr.