09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

118. mál, framfærslulög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hafði í minni fyrri ræðu gleymt að minnast á brtt., sem ég stend einn að, sem er nr. 8 á þskj. nr. 375. Ég verð þá að greina frá því, að ég tek aftur þær brtt., sem ég stend einn að, við þessa umr., einnig þessa. Og ekki síður fyrir það, að hér er fram komin brtt. á þskj. nr. 410 frá hv. 5. landsk. (ÞÞ). sem mér skilst, að hann geti fellt sig við að taka aftur til 3. umr., með það fyrir augum, að n. athugi einnig þessar brtt. báðar nánar.

En ég hygg, að það leiki ekki á tveim tungum, að hér er dálítið vandamál á ferðinni, þegar um er að ræða að svipta ógiptar barnsmæður styrk, og ber þess að gæta, að það sé ekki gert á þann hátt, að börnin líði þar stórlega við. Ætla ég ekki að fara frekar út í það að þessu sinni. Mun ég gera frekari grein fyrir því við 3. umr., annaðhvort með brtt., eða þá ef ég kemst að þeirri niðurstöðu að brtt. hv. 5. landsk. nægi í þessu efni.

Ég verð að svara hv. 11. landsk. fáeinum orðum út af breyt., sem hann lýsti sig á móti, í 16. gr. frv., um kjörtímabilið. Ég og hv. 2. þm. N.-M. munum vera sammála um, að þessi breyt. eigi að ná fram að ganga. Og þau rök, sem hann vildi færa fram fyrir sínu máli í þessu efni, tel ég ekki svo veigamikil. þessi hv. þm. vildi halda því fram, að það mundi verða meira pólitískt lituð framfærslun., ef hún væri kosin árlega. En í framfærslul., eins og þau eru nú, er gert ráð fyrir, að þessar n. séu kosnar til 4 ára í einu; en þær skulu þó kosnar hlutfallskosningu eftir pólitískum fl. N. þessar verða því jafnt pólitískt litaðar, hvort sem þær eru kosnar árlega eða á 4 ára fresti.

Þá vildi hann leggja ákaflega mikið upp úr þeirri þekkingu, sem þeir menn þyrftu að hafa sem gegndu störfum þessara n. Nú er það svo, að menn, sem hafa fullkomið vinnuþrek, eru vanir og hafa reynzt ötulir í starfinu, eru að jafnaði endurkosnir í þetta starf. En ef þeir verða þreyttir á starfinu eða vilja losna eða þá að menn vilja skipta um þá, þá er það líka hægt. Hér í Reykjavík álít ég, að þurfi sérstaklega lifandi og samvizkusama menn í þetta. Og ég sé ekki, að því marki verði ekki alveg eins náð með því að kjósa menn í þessar n. árlega eins og með því að kjósa þá á 4 ára fresti. En pólitískur litur hlýtur hér alltaf að koma til greina, nema það ákvæði verði fellt úr að kjósa þessa menn með hlutfallskosningu. En ef ekki væri kosið með hlutfallskosningu, þá yrðu n. enn einlitaðri pólítískt. Svo að þannig er ekki hægt að komast hjá pólitískum lit á þessum n. Og hér í Reykjavík er reyndin sú, að um leið og framfærslun. kynnist starfinu, þá hvílir starfið á framfærslufulltrúunum sérstaklega. Því að þeir eru svo margir hér vegna þess mikla starfs, sem þeir þurfa að inna af höndum. Og framfærslun. er ekki annað en úrskurðarvald um það, hvort till. framfærslufulltrúanna skuli fylgt eða ekki, sem gert er að jafnaði.

Ég ætla ekki að ræða um ábyrgðirnar. Hv. þm.

gerði grein fyrir sinni skoðun um það, að þær gætu orðið hættulegar. En jafnvel innan n. kom sú skoðun fram, að með þeim takmörkunum, sem nú eru í frv., mundi ríkisábyrgðin í flestum tilfellum ekki verða mjög veruleg; það gæti að sjálfsögðu komið fyrir, að hún yrði veitt. En hún myndi yfirleitt frekar verða óveruleg og ekki koma verulega að sök. Og ég lít svo á, að báðir meðnm. mínir hafi verið á móti þessu atriði meira af prinsipástæðum heldur en af hinu, að þeir teldu ríkissjóði að neinu leyti hættu búna af þessu ákvæði.

Hv. 1. þm. N.-M. var að tala um, að Reykjavík þyrfti ekki að kvarta o. þ. l. Ég játa, að ég get ekki frekar en hæstv. fjmrh. lagt fram neinar skýrslur um það, hvort styrkþegar hér í Reykjavík yfirleitt hafi verið lengi eða skamman tíma í bænum, þegar þeir fá styrk fyrst. En aðrir bæir á landinu hafa sennilega um þetta sína sögu að segja. Og hvaðan er aðstreymið? Það er ekki víst, að það komi ofan af Jökuldal til kaupstaðanna, en fleiri sveitir eru nú til á landinu. Þeir, sem flytja til kaupstaðanna, koma bæði úr sjóplássum og líka ofan úr dölum og héðan og þaðan að. En reynslan hefir sýnt, að sveitarstjórnir hafa gengið lengra en lög leyfa í að koma fólki til bæjanna, af því að fólkið vill vera þar. Og þess vegna hefir þetta aðstreymi til bæjanna orðið meira en menn létu sig dreyma um, þegar framfærslul. voru sett árið 1935.

Hv. 2. þm. N-M. talaði um málið af mikilli þekkingu, sem hans var von og vísa, og beindi til n. að athuga, hverjir ættu að borga fyrir flutning þurfamanna milli héraða og í öðru lagi, hvort úthlutunarreglur hvað snertir Reykjavík væri ekki rétt að áætla í frv. með tilliti til þeirra breyt., sem kæmu fram. Ég held, að n. hafi þegar athugað úthlutunina að því er snertir Reykjavík, og hún hafði þar sérfróðan mann sér við hlið. Og það kemur í ljós, að engar líkur eru til, að Reykjavík komi til greina ettir höfðatölureglunni, eins og sakir standa. En um hitt atriðið, um að greiða þurfamannaflutning, vísa ég til grg. mþn., sem hefir undirbúið þetta frv. fyrir hönd ríkisstj. Og ég get ekki betur séð en að rauði þráðurinn í hugsanagangi mþn. sé þessi: Það skal í engu breyta frá eldri l. hvað viðkemur flutningi fólks á milli sveita. Sveitfestitíma fyrir fólk skal ekki breytt. En það er bara torveldað fyrir þurfamenn að flytja úr einni sveit í aðra. — N. mun að sjálfsögðu taka til greina ábendingar hv. 2. þm. N.-M. og athuga, hvort hér hafi verið skotið yfir markið og ekki athugað mikilsvert atriði.