09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

118. mál, framfærslulög

*Magnús Jónsson:

Það hafa nú allmargir hv. þm. talað síðan ég kvaddi mér hljóðs og um ýmislegt af því, sem ég vildi tala um viðvíkjandi till. n.

1. brtt. allshn. er við 9. gr. frv. (IngP: Hún er tekin aftur til 3. umr.). Af því að hún er ekki endanlega tekin aftur, vil ég segja, að ég sé ekki, að ástæða sé til að fella þessa gr. niður úr frv. Mér finnst ákvæði þessarar greinar mjög eðlilegt. Í l. frá 1935 er svo ákveðið, að et barni hefir verið ráðstafað og goldið með því meðalmeðlag, þá er ekki hægt að taka það frá þessum fósturforeldrum án samþykkis þeirra; jafnvel þó að foreldrarnir geti tekið barnið að sér. Mér finnst það undarleg ráðstöfun, ef lögskyldur framfærandi getur ástæðna sinna vegna tekið að sér barnið meðlagslaust, má ekki gera það, svo framarlega sem ekkert er athugavert við hann að öðru leyti. Það liggur að sjálfsögðu í valdi barnaverndarn., ef framfærandi er á einhvern hátt ófær um að taka barnið að sér að sjá um, að hann fengi þá ekki að gera það. En að setja það í l., að hann megi það skilyrðislaust ekki, finnst mér ákaflega óeðlilegt. Það má segja, að réttur fósturforeldra sé mikill — þó virðist mér hann naumast eins mikill, þegar tekið er með barninu full meðgjöf. En réttur foreldra er þó að eðlilegum rétti meiri. Og mér virðist þetta ákvæði frv. því í alla staði eðlilegt, jafnvel alveg án tillits til fjárhagshliðar þess máls, sem mér finnst þó einnig mæla með þessari breyt. á l.

Það er því langnæst mínu skapi, að n. hefði einnig tekið þessa brtt. alveg aftur.

Um 2. brtt. var rætt af hv. 2. landsk. Ég er einnig mótfallinn þessu því mér finnst óeðlilegt að kjósa framfærslun. eftir öðrum reglum heldur en aðrar fastar n. og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess. Það hefir ókosti að kjósa hana til lengri tíma, en ég sé ekki, að það hafi nokkurn kost. Því að jafnvel þó maður vildi vernda þessa n. alveg frá pólitískum lit, þá er það ekki fremur hægt, þó þessi brtt.samþ. Það eina, sem maður gæti hugsað sér, að væri kostur við að kjósa þessa n. til lengri tíma, er, að menn í n. fengju æfingu í þessum störfum. En þó að kosið sé í þessa n. árlega, skapast hér að mínu áliti alveg sú sama festa í þessu efni, því að það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að bæjar- og sveitarstjórnir nota sér leiknu og vönu mennina til þessara starfa, en skipta ekki um, nema þeim þyki alveg sérstök ástæða til. En ef þeim þykir sérstök ástæða til þess, hví mega þær það ekki? Ef maður snýr í þessu sambandi huga sínum að þeim, sem framfærðir eru, og ef maður í framfærslun., gagnstætt því sem fyrirfram var haldið, kemur illa eða ónotalega fram við þurfamenn, hvers vegna er þá ekki sjálfsagt að skipta um manninn strax? Hvers vegna þarf þá að hafa manninn endilega í 4 ár? Ég held því, að réttur allra, bæði þeirra, sem eiga að kjósa, og hinna, sem búa eiga undir störfum n., sé ríkari með því, að þessu verði breytt eins og í frv. er gert ráð fyrir.

Um 3. og 4. brtt. ætla ég ekki að ræða, því að þær eru að mínu viti þannig, að engin ástæða er til að amast við þeim. En 5. brtt. er tekin aftur og því ekki ástæða til að ræða hana. Ég býst við, að með þeirri brtt. hafi verið meiningin að lagfæra misfellur á frv., og er hér nær eingöngu miðað við atvinnurekstur, sem hægt sé að ráðstafa mönnum til, og eins hverjar kröfur gerðar eru til þeirra tekna, sem viðkomandi á að geta aflað sér.

Þá eru tvær brtt., sem varða ábyrgð ríkissjóðs, og hefir þegar verið rætt svo mikið um það efni; og sérstaklega er þess að gefa, að mælt hefir verið með ákvæðum frv. um þau atriði af tveim hæstv. ráðh., sem það mál heyrir undir, bæði félmrh., sem þetta frv. stendur næst, og sömuleiðis fjmrh., sem stendur næst hins vegar að gæta hagsmuna ríkissjóðs. Báðir hafa þeir mælt með ákvæðum frv. í þessu efni og sömuleiðis einn nm., sem stóð að þeirri till., sem dregur þær rökréttu ályktanir af áliti ráðherranna, að hann héldi ekki fast við þessar brtt. Get ég því sparað mér að ræða um það atriði. Þetta eru þær brtt. n., sem mestar voru í mínum augum, því að með því að fella þessi ákvæði niður, ef það væri gert, yrði fellt niður það, sem að mínu áliti er nauðsynleg umbót, sem felst í þessu frv. Reynslan sýnir, hve geysierfitt það er fyrir bæjarfélögin að sækja sinn rétt í þessu efni. Það er sýnu nær þó fyrir ríkissjóð. Hann hefir öllu betri tök og mesta möguleika og mest vald til þess að geta hlaupið þarna undir baggann, ef greiðslufall verður. Ég get fallizt á með frsm. n., að það geti slævað nokkuð sveitareða bæjarfélög í tilraunum þeirra til að kalla þetta inn, ef ríkisábyrgð er í bakhönd. En þetta ákvæði er að mínu viti þó mjög mikilsvert. Ég hefi ekki svo mikla reynslu í þessum efnum, að ég þori fyllilega að dæma um, hve mikið þetta ákvæði mundi koma til framkvæmda. En mér sýnist, að þar muni varla verða um mjög stórvægilegar upphæðir að ræða, og ekki eins stórar og ef miðað er við þann tíma, þegar sveitfestitíminn var öðruvísi ákveðinn. Því að mér skilst, að eftir þessu frv. sé þetta mjög mikið skilyrðum bundið, og að það sé alveg undantekningartilfeili, að önnur sveit sé framfærslusveit heldur en dvalarsveit. Svo framarlega sem maður hefir ekki þegið af sveit í 2 ár, þá vinnur hann sér sveit með því að setjast að og eignast lögheimili á viðkomandi stað. Það er aðeins í þeim tilfellum, sem menn hafa fengið framfærslustyrk á tveimur síðustu árum fyrir flutning, að menn verða að halda óbreyttri sveitfesti, svo að mér skilst, að þau viðskipti, sem verða hér milli héraða, séu alhnikið takmörkuð. Ég get sagt það, út af ummælum hv. 2. þm. N.-M., að ég hygg, að það muni hafa stafað af því, hvað þetta var álitið takmarkað, að ekki hafi þótt taka því að setja ákvæði um þetta.

Mér skilst, að 8. brtt. á þskj. 375 sé tekin aftur. Annars er það um þessa till. að segja, að bæði hún og ákvæði frv. um þetta atriði stefna að vandræðalausn á þessu atriði. Ég veit ekki, hvernig hægt er að komast í kring um það um mann, sem hefir stúlku á heimili sínu, að annaðhvort giftist hann henni eða hún sé ráðskona hjá honum eða vinnustúlka. Að öðrum kosti skilst mér það vera bara hrein og bein yfirlýsing um það, að maðurinn ætli sér að taka saman við hana óleyfilega. Ég er fylgjandi till hv. 5. landsk. Mér virðist hún leysa málið á viðunandi hátt.

Ég skal svo ekki tefja hv. d. með lengri ræðu. Ég vildi óska þess, að frv. yrði samþ. með sem minnstum breyt. Ég hygg, að það muni vera svo vandlega undirbúið, að slíkt sé óhætt, og að það muni fela í sér verulegar réttarbætur.