16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

118. mál, framfærslulög

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Að þessu sinni flytur allshn. eina brtt., sem hún stendur öll að, en það er brtt. á þskj. 466. Þessi brtt. er flutt af n. að tilhlutun félmrh. og er efni hennar l. gr. úr frv., sem liggur fyrir þinginu og heitir að mig minnir frv. til l. um ráðstafanir út af styrjöldinni. Þetta frv. hefir fengið auknefnið „höggormurinn“, og hygg ég þá, að mönnum muni vera kunnugt, við hvað er átt. Að vísu er að nokkru leyti breytt bæði formi og efni till., en ég hygg, að eins og hún er orðuð nú, sé hún í samræmi við vilja ríkisstj. í heild.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í efni till. Ég held, að hv. þdm. sé orðið mjög kunnugt um efni hennar, enda mun þá hæstv. félmrh. gera grein fyrir henni, ef hann sér ástæðu til þess.

Við þessa till. hefi ég leyft mér að koma fram með brtt. á þskj. 477, og það, að ég flyt hana einn er ekki af því, að það sé fyrirfram ákveðið að allshn. fallist ekki á hana, heldur er það af því, að tíminn var svo naumur, að mér vannst ekki tími til að leita álits meðnm. minna um hana. Ég held, að mér sé óhætt að lýsa því yfir, að hæstv. félmrh. sé henni fylgjandi og ekki sé nein andstaða gegn henni innan ríkisstj.

Till. þessi fer fram á, að ráðh. sé gefin heimild til að ákveða, að á árinu 1940 megi verja allt að 100 þús. kr. af tekjum jöfnunarsjóðs til þess að greiða fram úr vandræðum illra staddra hreppsfélaga. Eins og hv. dm. er kunnugt um, þá er svo ástatt um nokkur bæjar- og sveitarfélög, að þau hafa engin ráð til þess að standa í skilum með afborganir og vexti af þeim lánum, sem hvíla á þeim. Þetta mun vera viðurkennt af öllum, sem þekkja til, og ég hygg, að það sé ekki sízt viðurkennt af hæstv. ríkisstj., að gera verði ráðstafanir til þess að bæta úr þessu, þó ekki sé nema í svipinn.

Ég hygg, að finna megi dæmi þess, að svo illa sé komið fyrir einstökum af þessum aðilum, að jafnvel sé hægt að leita lögtaks í tekjum viðkomandi sveitarfélaga. Þessi leið, sem hér er stungið upp á, virðist vera eðlileg, því gert er ráð fyrir í till., að með þessu fé, sem til þessa verður veitt, verði ekki einungis reynt að gera þessum stofnunum kleift að standa við skuldbindingar sínar í bráðina, heldur einnig að reyna að fá skuldaeftirgjafir. Það á m. ö. o. að reyna að koma fjárhag þessara sveitarfélaga á þann grundvöll, að líkur séu til, að þau geti staðið við sínar skuldbindingar framvegis.

Ég held, að það þurfi ekki að útskýra þetta frekar. Ég veit ekki betur en að fyrir hendi sé næg þekking á því hjá hv. dm., að full þörf sé á þessari ráðstöfun.

Ég vil svo að lokum geta þess, að teknar hafa verið upp 2 brtt., sem allshn. flutti við 2. umr., en voru þá teknar aftur. Brtt. á þskj. 446 er við 3. gr. og er borin fram óbreytt frá því, sem hún var flutt af allshn. við 2. umr., en það þótti réttara að bera hana fram á sérstöku þskj. nú. Ég gerði nokkra grein fyrir þessari brtt. við þá umr. og sé því ekki ástæðu til að fara frekar út í hana. Ég hefi ekki ástæðu til að ætla, að meðnm. mínir hafi skipt um skoðun síðan.

Ég vil svo geta þess, að þó ég hafi ekki skipt um skoðun frá því, að þetta mál var hér til 2. umr., þá hefi ég samt ekki flutt brtt. við 38. gr. frv., þó ég teldi þess fulla þörf. Ég varð þess var, að hæstv. fjmrh. lét í ljós við þá umr., að hann teldi, að ekki yrði hjá því komizt að taka upp þá stefnu, sem frvgr. gerir ráð fyrir. Hér í hv. d. flutti nokkur hluti allshn. brtt., sem sannaði, að ekki er fyrir hendi vilji í hv. d. að hverfa frá þeirri stefnu, sem er mörkuð í 38. gr. Ég vil geta þessa, vegna þess að ég lét í ljós við 2. umr., að ég hefði til athugunar, hvort ekki væri rétt að flytja brtt., en ég vil taka það skýrt fram, að þó ég hafi ekki gert það, þá hefi ég ekki breytt um skoðun, en ég sé ekki, að það hafi neina þýðingu að flytja brtt. um þetta atriði.