18.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

118. mál, framfærslulög

Magnús Jónsson:

Ég flyt tvær brtt. við þetta frv. ásamt hv. þm. S.-Þ. Ég ræði ekki um þá fyrri, því að hæstv. félmrh. hefir óskað, að hún yrði tekin aftur, þar sem efni hennar felist í brtt. allshn., sem fram er borin fyrir hans hönd. Ég get fallizt á þetta, en skýt því jafnframt til hæstv. forseta, hvort ekki sé hægt að láta atkvgr. um þessa brtt., þótt hún sé stíluð við 21. gr., bíða, þar til greitt hefir verið atkv. um brtt. allshn. Ef sú till. verður felld, hefir okkur till. fullt gildi.

Síðari brtt. er aðaltill. okkar. Hæstv. félmrh. fór um hana nokkrum orðum og mælti heldur á móti henni, þó ekki af kappi. Ég get tekið undir sumt af því, sem hann sagði á móti brtt. Hann sagði, að verið væri að hefta hreyfingar og búsetuheimild manna, sem gætu séð fyrir sér sjálfir, þótt hann viðurkenndi, að nauðsyn gæti borið til að beita þessari aðferð við þá, sem á framfæri eru. Ég er honum sammála um þetta, og þarf hann ekki að nefna mér nein dæmi um það, hvert ófrelsi og vandræði getur af þessu stafað. En það, að ég er meðflm. að þessari till., stafar af því, að búið er áður að gera ýmsar ráðstafanir á þessu sviði, sem til vandræða horfa. Hér voru til skamms tíma gildandi nokkurskonar hömlur á flutningum manna, þar sem var sveitfestitíminn. Ef menn komust í þrot og þurftu á hjálp að halda, áttu þeir ekki kost á slíkri hjálp annarstaðar en í sinni sveit fyrr en eftir svo eða svo mörg ár. Þá var óhætt að lofa mönnum að fara um og setjast að þar, sem þeim sýndist, með því að dvalarsveit gat haft nokkra tryggingu gegn því, að þeir yrðu henni til þyngsla, þar sem þeir fengu ekki rétt til styrks á staðnum, ef þeir kæmust í þrot, fyrr en þeir væru búnir að dveljast þar ákveðinn árafjölda, greiða útsvör og slíkt og þar með leggja fram nokkurskonar vátryggingagjald fyrir sig, ef þeir skyldu komast í þrot. Nú hefir þetta verið stytt og loks afnumið. Menn greiða að vísu þessi gjöld, en það er ekki lengur nein trygging fyrir því, að þeir einir, sem hafa greitt þessa vátryggingu í hinni nýju sveit, geti fengið sveitarstyrki, og hefir þetta komið miklu raski á öll þessi mál, og því hefi ég gerzt meðflm. að þessari till., þó að ég hefði raunar ekki viljað þurfa að draga þá ályktun, að það ætti líka að hefta ferðir þeirra manna, sem ekki eru komnir á framfærslu.

Með till. þeirri, sem n. hefir borið fram fyrir hönd hæstv. félmrh., hefir hann fallizt á, að reka megi menn úr héraði, ef þeir komast á framfæri eða það er yfirvofandi. En þegar svo er komið, að talin er nauðsyn á að vísa mönnum úr héraði undir vissum kringumstæðum, mætti ætla, að nær lægi þó að hefta heldur innflutning manna en að þurfa að vísa þeim burt síðar meir. Ef ætti að framkvæma þetta tvennt, yrði það eflaust sársaukaminna að hefta innflutninginn en koma á brottflutningi. Þó að það séu vandræði að halda mönnum föstum, ef þeir vilja flytjast burtu, er það þó skárra en rífa menn frá staðfestu sinni, ef þeir komast á framfæri, því að ég skil ekki, að þeir hafi fyrir það misst svo mikið af tilfinningum sínum, að þeir finni ekki til þess, eins og bv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) komst að orði. Ég vil heldur reyna að koma í veg fyrir slíkt fyrir fram en þurfa að grípa til brottflutningsráðstafana.

Hæstv. ráðh. sagði, að mikil ósamkvæmni væri milli 21. gr., sem heimilar sveitarstj. að flytja menn á brott, og svo hins að setja á byggðarbönn. Það er satt í vissu falli, og er hægt að hugsa sér, að þetta rækist á, ef t. d. sveitarst. vildi ráðstafa manni í eitthvert hérað, þar sem væri byggðarbann. Væri ef til vill rétt að taka tillit til þessa í l. En ég hefi reyndar allt af skilið l. svo, að menn væru áfram á framfæri þeirrar sveitar, er flytur þá burt, svo að byggðarbannið snerti þá ekki á þann hátt. Þeir gætu að vísu tekið þarna einhverja atvinnu, og skal ég ekki um það segja, hvernig sá árekstur kynni að verða. Hæstv. ráðh. hefir það á móti þessu ákvæði, að ef sköpuð eru góð atvinnuskilyrði einhverstaðar, þá sé afleitt fyrir menn að mega ekki flytjast þangað. En það er nú kunnugt, að ef á einhverjum stað skapast sæmileg atvinnuskilyrði, þá streyma menn þangað og eyðileggja þar með hin góðu atvinnuskilyrði. Mætti snúa þessu við og segja, að byggðarleyfið sé nauðsynlegt til þess, að ekki verði þegar eyðilögð hin góðu atvinnuskilyrði, sem skapast kunna á einhverjum stað, til þess að bæjar- og sveitarfélög geti varið sig gegn því, að allt fyllist á svipstundu. Það eru til dæmi, sem sýna þetta. Fáum nóg er mörgum smátt, segir Örn Arnarson einhverstaðar. Við skulum taka dæmi af því, er settur er upp stórrekstur, eins og á Bíldudal, sem gerir það að verkum, að afkomumöguleikar gerbreytast. En ef menn fá að flykkjast þangað ótakmarkað, verða þeir áreiðanlega ekki lengi að éta upp þá atvinnu, sem þar er að hafa. Þetta er náttúrlega enn hættulegra, ef um er að ræða mikil mannvirki, sem standa skamma hríð, eins og til dæmis hitaveita Reykjavíkur. Bæjarfélögin reyna að verjast þessu með því að hafa hönd í bagga um það, hverjir fá atvinnuna, til þess að standa ekki uppi ráðalaus, þegar verkinu er lokið.

Hæstv. ráðh. minntist á hræðslu heimaríkra sveitarstj., ef maður kæmi í sveitina með stóra fjölskyldu, sveitarstj. væri dauðhrædd um að fá hann á sveitina með alla fjölskylduna. En getur ekki í raun og veru verið hætta á þessu? Þessi hætta var ekki til áður en sveitfestitíminn var afnuminn.

Þá myndi ég, ef hæstv. ráðh. væri viðstaddur, þó að ég ætli ekki að fara að deila á hann, benda honum á, að allt þetta er á valdi hans sjálfs. Hann getur heimilað sveitarstj. að gera þetta, og fyrst, er hann hefir heimilað það, geta þær framkvæmt það. Og þeir, sem sveitarstj. synjar um leyfi, geta skotið máli sinu til 3 manna n. og áfrýjað þannig úrskurði heimaríkrar sveitarstj.

Þetta mál er annars svo kunnugt, að ég ætla ekki að fara að hafa um það miklu fleiri orð, enda býst ég ekki við að geta snúið hug manna um þetta, sérstaklega þeirra, sem ekki eru viðstaddir. En ég hefi bent á þau ákvæði, sem milda þetta, svo að ekki ætti að þurfa að skapast neitt átthagaband. En auk þess vildi ég rétt minnast á brtt. á þskj. 475 um, að 9. gr. falli niður. Það er ekki fyrir það að synja, að barn, sem komið hefir verið fyrir hjá fósturforeldrum, vilji heldur vera þar kyrrt en fara til foreldra sinna. En það er þó varla hægt að fara svo langt að telja það plágu fyrir barnið að þurfa að fara til foreldranna, ef þeir geta séð fyrir því. Það er þá af, sem áður var, þegar talað var um aumingja sveitarbörnin, og oft með réttu. Ég myndi yfirleitt hafa meiri meðaumkun með barni, sem tekið væri frá foreldrum sínum og komið fyrir gegn meðlagi. Og vald barnaverndarn. er auðvitað óskert af þessu. En ef synda ætti fyrir allt, sem komið getur fyrir, þá held ég, að við mættum sitja lengi yfir okkar löggjöf.