16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

118. mál, framfærslulög

Brynjólfur Bjarnason; Herra forseti! Það liggja fyrir ærið margar brtt. við þetta frv. Annars er hér hver silkihúfan upp af annari, þar sem er frv. og brtt. við það. Þó keyrir alveg um þverbak, þegar fram kemur brtt. frá hv. þm. S.-Þ. og hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 434. Það er auk þess ærið undarleg aðferð, sem þessir hv. þm. hafa til þess að koma till. sínum á framfæri. Í fyrsta lagi er það alveg óviðeigandi að hafa ákvæði sem þetta í framfærslul., því að hér er um lagafyrirmæli að ræða, sem ekki eiga þar heima. Þessi ákvæði um byggðarleyfi eða byggðabönn eða hvað þau nú eiga að kallast. snerta ekki aðeins styrkþega, eins og framfærslul., heldur alla Íslendinga, og fyrst og fremst þá, sem ekki eru á framfæri. Í öðru lagi er það meira en skrítið að koma með till. um stærstu lagabreytinguna fyrst við 3. umr. málsins, því að ekki er neinn vafi á því, að þessi till. á þskj. 434 er stærsta og umfangsmesta brtt., sem fram hefir komið við framfærslul. Hér er um að ræða stórmál, sem hefir verið mjög mikið rætt í landinu. Hv. þm. S.-Þ. hefir verið aðalforsvarsmaður þessa máls, en allur almenningur og lýðræðissinnar í landinu hafa staðið á móti, hafa útlitið þetta eina af þeim skuggalegu hugsunum, sem skotið hefir upp í höfði þessa manns hin síðari árin og menn hafa vonað, að ekki kæmust lengra. En nú er þetta komið fram sem brtt. við framfærslul., og bann hefir jafnvel fengið annan þm. til að flytja þetta með sér. Brtt. þessi, ef samþ. yrði, myndi leiða til þess, að horfið yrði til baka til fornra ófrelsistíma og átthagafjötra. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði, að ekki væri ætlazt til að koma átthagafjötrum á. Ég veit það vel, að hér er aðeins um heimild að ræða, en vitaskuld er hún sett í frv. í því skyni, að hún komi til framkvæmda, og þá yrði horfið til baka til fornra ófrelsisákvæða, sem kostað hefir baráttu heillar kynslóðar að afnema. Í heild sinni verður þessi till. ekki til annars en þess að gera mönnum torveldara að bjarga sér sjálfum, því að mönnum er meinað að leita þangað, sem helzt er bjargar von. Eina aflið í hinu sundurvirka þjóðskipulagi, sem ýtir undir, að landsgæðin séu hagnýtt, þ. e. hið frjálsa einstaklingsframtak, hyggst löggjafarvaldið nú að afnema að þessu leyti. Það á ekki að fá að njóta sín lengur, heldur á nú að setja á það stórkostlegar hömlur. Auk þess eru með þessari till. eins og hún er framsett á þskj. 434 opnaðar allar gáttir fyrir pólitískri misbeiting. Hér er beinlínis um hreina flokkspólitíska misbeitingu að ræða, þar sem valdið er fengið pólitískri nefnd í hendur, sem er skipuð af ákveðnum pólitískum flokkum. Það er náttúrlega hægt fyrir slíka n. að beita þessum l. með alveg takmarkalausri pólitískri hlutdrægni. Það er hægt að sjá svo um, að hún eða meiri hl. n. myndi að líkindum skipa mönnum að vera kyrrir á þeim stað á landinu, þar sem þeir eru nú, bara vegna þess, að þeir teldu ekki heppilegt, að maður með vissa pólitíska skoðun flytti inn í byggðarlagið. Ekki er annars að vænta, þar sem úrskurðarvaldið er hjá slíkri n.

Hvað snertir þær röksemdir, sem hv. frsm., hv. 1. þm. Reykv. (MJ) bar fram fyrir þessari till., er það að segja, að þær voru svo veigalitlar, óskiljanlegar og hringavitlausar frá upphafi til enda, að ég sé enga ástæðu til að fara inn á þær. M. a. breiddi hann sig út yfir það, hvað mikil nauðsyn það væri fyrir þau bæjareða sveitarfélög, sem væru vel stæð og hefðu möguleika til sæmilegrar afkomu, að hindra innstreymi frá þeim, sem tvísýn skilyrði hafa til atvinnu og afkomu.

Ég skil ekki, hvað þessi hv. þm. átti við, þegar hann fór að finna að því, að fólk flyttist frá þeim stöðum á landinu, þar sem atvinnumöguleikarnir eru litlir, og til þeirra sveitarfélaga, þar sem heldur væri bjargar von. Er það álit hans, að þessi till. sé borin fram til að torvelda mönnum bústaðaskipti? Að þessa heimild eigi að setja í l. til þess að sjá um, að menn geri sem minnst að því að flytja til þeirra staða, þar sem helzt er bjargar von? Hv. 1. þm. Reykv. vildi halda því fram, að hér væri ekki um meiri þvingun að ræða, heldur jafnvel minni en í flestum öðrum ákvæðum framfærslul., fyrst og fremst þeim, sem felast í 21. gr. þessa frv. Það eru þvingunarákvæði, sem að vísu snerta ekki alla landsmenn, heldur aðeins styrkþega. En því er bara til að svara, að allt þvingunartal, allar till. um þesskonar ráðstafanir, og allar röksemdir fyrir þessum till. er ekki annað en fleipur frá upphafi til enda. Ef mönnum er vísað á atvinnu, sem þeir geta framfleytt sér af, í stað þess að verða styrkþegar, munu þeir taka hana hvar á landinu sem er, og allir hv. þm. vita, að þetta er staðreynd. Ef það skyldi vera til undantekningar frá þessu, ef einhverjir vandræðamenn eða húðarletingjar skyldu vera til, sem sérstökum úrræðum þyrfti að beita gegn, þá eru vissulega alveg nægilega skörp ákvæði í núgildandi framfærslul., til þess að ná sér niðri á slíkum mönnum. Í fyrsta lagi má neita þeim um styrk, og það er líka gert, og meira en það, það er líka hægt að setja þá í fangelsi. Sannleikurinn er sá, að þessar röksemdir eru hreint fleipur út í loftið. Tilgangurinn með þessu lagaákvæði, sem hér um ræðir, ef samþ. verður, er nefnilega allt annar. Hann er sá, að nota styrkþegana sem ódýrt vinnuafl og taka upp þá venju, að skylda styrkþega til einskonar þrælahalds. Slíku stórmáli á svo að fara að smygla hér inn sem einskonar smábreyt. við framfærslul. við 3. umr. Það mætti þó ekki minna vera en að fram færu þrjár umr. um þetta mál eins og önnur þingmál. En bara vegna þess, að fyrrgreind ástæða er fyrir hendi, er talið sjálfsagt að fella þetta ákvæði inn í framfærslul. strax við þessa umr. Í rauninni er það nákvæmlega hið sama sem gildir um till. allshn., sem gengur út á það að smygla aðalákvæðum höggormslagafrv. einnig inn í framfærslul., að vísu ofurlítið breyttum.

Það, sem ég hefi sagt um það, í hvaða höfuðtilgangi brtt. á þskj. 434 hafa verið bornar hér fram sem brtt. við framfærslul. við 3. umr., á líka alveg jafnt við brtt. frá allshn. á þskj. 466. Þar eru einnig ákvæði, sem alls ekki eiga heima í framfærslul., ákvæði sem snerta atvinnubótavinnuna og yfirleitt þá opinberu vinnu, sem styrkt er af ríkinu, og þar að auki stórmál, sem mikið hefir verið rætt um og ég ætla að ganga framhjá við þessa umr. Vitaskuld nær það ekki nokkurri átt að smygla slíkum ákvæðum sem smábreyt. inn í framfærslul., þar sem þau hafa alls ekki komið fram fyrr en við 3. umr.

Hvað snertir brtt. frá hv. 2. landsk. (SÁÓ) á þskj. 473, þá er ég þeim sammála svo langt sem þær ná, fyrir þær sakir, sem ég tók fram við 1. umr. þessa máls. Um 2. brtt. á þskj. 475 er það að segja, að þótt hún að vísu afnemi ekki þvingunarákvæðin í 21. gr., þá er hún a. m. k. ákaflega mikil bragarbót frá ákvæðum þeirrar gr. eins og þau eru í frv., og tel ég, að ef hún nær samþykki Alþ. þá væri ekki eins mikill skaði skeður með þeim.