16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

118. mál, framfærslulög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mig langar til að fá ofurlitlar upplýsingar frá hæstv. félmrh., (StJSt) eða ef hann er ekki við, þá frá hæstv. fjmrh. (JakM) fyrir hans hönd. Mín litla brtt. miðar að því að fá inn í frv. orðið „sýslufélög“, og það, að ég flyt þá brtt. stafar af því, að mér er kunnugt um, að þegar bændakreppan var afgr. á sínum tíma, þá voru látnar falla niður kröfur, sem sýslusjóðir voru í ábyrgð fyrir, og var þar sumstaðar um verulega háar upphæðir að ræða, er aðilar gera nú kröfu til að sýslufélagið borgi. Í öðru lagi er mér kunnugt, að svo er nú komið fyrir sumum læknishéruðum, sem þarna eru líka nefnd á þskj. 477, eins og hv. 2. þm. S.M. (IngP) minntist á, að nú er farið að gera kröfur um fjárnám í tekjum þeirra hreppa, er að læknisbústöðunum standa. Mig langar til að fá að vita, hvort ekki muni mega treysta því, ef brtt. á þskj. 477 verður samþ., að hvorutveggja verði fyrirbyggt og séð um. að samið verði við kröfuhafa, svo viðkomandi hreppur geti staðið undir sér sjálfur án aðstoðar ríkisvaldsins, að samningum loknum. Má ekki treysta því, að þessar 100 þús. kr. verði m. a. notaðar til samninga um skuldaskil þeirra. Af sýslufélögnnum er talið, að þeim hafi stundum þótt vafasamt, hvernig þeim kröfum væri varið, sem þau hafa verið rukkuð um, þótt þau gætu ekki mótmælt því að greiða þær. Ég vil vænta þess, að hæstv. félmrh. athugi það að létta af þeim læknishéruðum og sýslum, sem svona er ástatt fyrir, et till. verður samþ. hér á Alþ; sem ég vona að verði. Ég get fullyrt, að það er ekki síður þörf á að létta undir með sýslufélögunum heldur en bæjar- og sveitarfélögum og læknishéruðum, sem þarna eru talin með.

Ég vil jafnframt segja það álit mitt á till. á þskj. 434, að félmrh. sé heimilt að setja hömlur á rétt manna til að flytja í sveitarfélög, að ég er eindregið á móti þeirri till. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að ég er alveg sannfærður um, að ef þetta ákvæði yrði að l., myndi það smám saman verða notað þannig, að þeir menn, sem mestar hefðu tekjurnar og þeir, sem fjöldinn álítur betur gefna andlega en almennt gerist, myndu stöðugt flytjast fleiri og fleiri til þeirra staða á landinu, þar sem yfirleitt er talið bezt að vera. Ég er t. d. sannfærður um það, að ef hér í Reykjavík væri komið á byggðarleyfi, myndu samt streyma hingað margir af þeim, sem taldir væru allvel stæðir efnalega, og bæjarstjórn Reykjavíkur myndi af skiljanlegum ástæðum ekki hindra það og ekki láta sér detta í hug að stemma stigu fyrir innflutningi slíkra manna. Ef t. d. maður, sem ætti 40–50 þús. kr. í handraðanum, vildi flytja til Reykjavíkur, myndi bæjarstjórnin hiklaust veita honum leyfið. Þannig myndi Reykjavík og helztu kaupstaðir landsins sía til sín efnuðustu mennina úr öðrum héruðum, og svo yrði reynt að flytja þangað einhverja aðra, ef ekki væri byggðarleyfi þar. Því hefir verið haldið fram, að aðstreymið til kaupstaðanna kæmi af breyttri aðstöðu. Ég skal viðurkenna, að það er breytt aðstaða, en sú breytta aðstaða stafar að miklu leyti af því, að Alþ. hefir á undanförnum árum hvað eftir annað aukið lífsþægindi og bætt kjör manna í kaupstöðunum fremur en annarstaðar, og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík. Þetta hefir gengið svo langt, að ríkið hefir gengið í 100% ábyrgð á láni til hitaveitu Reykjavíkur nú á þessu þingi; er slíkt einsdæmi, og aldrei neitt bæjar- eða sveitarfélag svo nauðulega statt áður, sem um ábyrgð hefir sótt, að þess hafi þurft. Það er allt öðru máli að gegna en þegar maður var að fá ábyrgð fyrir smáþorp úti á landi til lendingarbóta, svo að bátar gætu lent þar. Því var neitað, en að fá ábyrgð fyrir Reykjavík var talið sjálfsagt. Þetta er mikill aðstöðumunur, og sá aðstöðumunur og hin breytta aðstaða hefir, eins og hv. 1. þm. Reykv. (MJ) minntist á, orðið til þess ásamt öðru að skapa þægileg lífsskilyrði, ekki þægilegri skilyrði til að bjarga sér, heldur til þess að lifa án mikillar fyrirhafnar. Þessi skilyrði gera það að verkum, að einstaka mönnum dettur í hug að koma á byggðarbanni, en það myndi verða til þess að sigta annarsvegar úr þá, sem eru bezt gefnir andlega, og efnuðustu mennina, og skilja hitt fólkið eftir, og er það ástæðan til þess, að ég hefi alltaf verið því mótfallinn og er það enn.