16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

118. mál, framfærslulög

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) ; Ég kvaddi mér aðeins hljóðs til þess að svara fyrirspurn frá hv. 1. þm. N.-M. (PZ) út af brtt. á þskj. 477 í sambandi við brtt. þá, sem hann flytur við þessa till. Að vísu er ekki hægt að svara því öðru en almennum orðum, sem hann spurði um, því að ekki er unnt að segja með neinni vissu um, hvað verður hægt að komast langt með þeim 100 þús. kr., sem kunna að fást til þess að kaupa einstökum bæjar- og sveitarfélögum skuldaskil. En það get ég sagt hv. 1. þm. N.-M., að ekki mun síður koma til álita það, sem hann spurði um, heldur en annað, því að það er m. a. orsökin til vandræða sveitarfélaganna. Brtt. á þskj. 477 er borin fram vegna þess, að hæstv. ríkisstj., eða þeir innan hennar, sem helzt hafa með þessi mál að gera, komust að þeirri niðurstöðu, að það muni verða nauðsynlegt að hafa til umráða fé m. a. til þess að geta greitt úr vandkvæðum einstakra sveitarfélaga, ekki sízt út af málum eins hrepps, sem komizt hafi í ógöngur í sambandi við læknisbústaði og annað. Ég tel, að ekki komi síður til mála, að slík heimild verði veitt einstökum sýslufélögum til þess að losa þau úr vanda með því að kaupa þeim skuldaskil.

Út af fyrirspurn hv. 2. landsk. (SÁÓ) skal ég taka undir þá skoðun, að ég tel 9. gr. í frv. til framfærslul. vera talsverða breyt. til bóta frá því ákvæði, sem áður var í framfærslul. um vald barnaverndarnefnda. Ég held, að álit hv. 2. landsk. á þessu muni vera alveg rétt. Ég heyrði ekki þau orð, sem hv. 1. þm. Reykv. lét um þetta falla. En þeirri fyrirspurn, sem hv. 2. landsk. beindi til mín sérstaklega út af þessu, get ég svarað á þá lund, að það sé töluverð efnisbreyt. í þeirri brtt., sem flutt er við 9. gr. frv., með því að fella hana niður.