16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

118. mál, framfærslulög

Páll Zóphóníasson. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að það mætti ganga út frá því sem nokkurn veginn vísu, að þau læknishéruð, sem komast í vandræði, myndu fá lausn á sama hátt sem hrepparnir, þegar þeir lenda í slíkum vandræðum, að við búið er, að þeir fari á landið, af þeim 100 þús. kr., sem frv. fer fram á, að verja megi til skuldaskila eða bjargar í þessu skyni.

Alveg sama máli er að gegna um sýslufélögin, þegar þau komast í vandræði vegna ábyrgða, er þau hafa tekið á sig viðvíkjandi skuldum, sem faldar voru hreppakreppunni, og tvísýnt er, eins og stendur, hvernig fer um, nema úr leysist á einhvern hátt með aðstoð ríkisins og þá í sambandi við þessa fjárveitingu. Ég vil því eftir undirtektum hæstv. ráðh. mega vænta þess, að það læknishérað og sú sýsla, er ég hér ber fyrir brjósti, megi í gegnum þessar 100000 kr. fjárveitingu fá leyst sín aðkallandi skuldamál.