16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

118. mál, framfærslulög

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég hefi heyrt það hjá ýmsum þdm., að þeir leggjast mjög eindregið á móti brtt. á þskj. 434 frá hv. 1. þm. Reykv. (MJ) og hv. þm. S.-Þ. (JJ). Að því, sem mér hefir skilist, er mest andstaða gegn þessari brtt. frá þeim þm., sem munu helzt hafa ýmugust á því ákvæði þessa frv., að ríkissjóður skuli bera ábyrgð á framfærslu þeirra, sem flytjast milli héraða, og ekki öðlast framfærsluréttindi í hinni nýju dvalarsveit. Ég vil benda á það. að náttúrlega eru slík ákvæði sem þetta nokkur vörn fyrir ríkissjóð gegn þeirri áhættu, sem í slíkri ábyrgð er fólgin, þar eð með því á að stemma stigu fyrir flutningi þessara manna milli héraða. Það eru ýmsir, sem gera ráð fyrir, að af þessu stafi hætta. Hv. 1. þm. N.-M. (PZ) var alveg viss um það og færði fram rök fyrir því. Hann var ákaflega eindregið á móti þessari brtt. Mér finnst, að hann hafi misskilið gr. Hann vildi líta á það sem alveg sjálfsagðan hlut, að sérstaklega myndi verða mikið innstreymi hingað til Reykjavíkur af efnamönnum og menntuðum mönnum, því að gera mætti ráð fyrir, að engar ráðstafanir yrðu gerðar gegn innflutningi andans manna og efnaðra manna. Ég sé ekki hvers vegna hv. 1. þm. N.-M. þarf að vera svo eindregið móti þessari brtt. Mér fundust rök hans miklu fremur styðja hana. Ef engar hömlur væru settar, yrði hættan þá ekki alveg eins? Ég skil ekki, hvernig hv. 1. þm. N.-M. getur lagt þann skilning í þetta ákvæði, að það eigi að setja það í framfærslul. til þess að ýta undir flutning manna úr sveitum landsins og kaupstöðum hingað til Reykjavíkur. Ég geri ráð fyrir, að það geri þá hvorki til né frá hvað þetta atriði snertir. Hann virtist hinsvegar gera ráð fyrir að þetta hamlaði öðrum mönnum að flytja. En hann virðist þá sem sagt helzt kjósa, að sem allra flest fólk flytji úr sveitunum, sem má heita merkilegt um fulltrúa sveitakjördæmis. Ég vil minna þann hv. þm. á það, að þessi till. um byggðarleyfi er í raun og veru upphaflega ekki frá sjálfstæðismönnum, hvorki hv. 1. þm. Reykv. né öðrum, heldur er hún upp komin í hans flokki í því skyni að halda fólkinu í sveitunum, ekki vegna hagsmuna bæjanna, heldur vegna hagsmuna sveitanna, til þess að þær missi ekki fólkið. Þetta er ákaflega skiljanlegt, því að maður hefir oft heyrt kvartanir um, að ekki sé hægt að halda fólkinu í sveitunum. En hv. 1. þm. N.- M. vill, að því er virðist, helzt sem mest með þessu frv. greiða sveitafólki veginn til kaupstaðanna. En ég get nú huggað hann með því — og ég vil biðja hann að lesa brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 434, af því að hann álítur, að Reykjavík gæti eftir þessari till. ráðið, hverjir flyttu til bæjarins, og eins önnur bæjarfélög fyrir sig, — að það er hreinn misskilningur, því að við því er sleginn varnagli í. tillögunni með því að láta 3 manna n., sem skipuð er af þremur stærstu þingfl., úrskurða um það, hvort byggðarleyfi skuli veitt eða ekki. Með þessu móti mundu Framsfl. og Alþfl. ráða þessu gagnvart Reykjavík sem öðrum stöðum. Sjálfstfl. yrði bersýnilega í minni hl. í þessari n., svo að lítil ástæða virðist vera fyrir hv. 1. þm. N.-M. til að óttast slíka hlutdrægni. Og engin ástæða er til annars en að gera ráð fyrir, að hugsmuna sveitahéraðanna yrði fullkomlega gætt einmitt af þessari n.

Ég vil alveg sérstaklega leggja áherzlu á það í sambandi við þá ábyrgð, sem lögð er ríkissjóði á herðar í sambandi við flutning fólks á milli sveitarfélaga, að slíkt ákvæði dregur stórkostlega úr hinni fjárhagslegu hættu við það fyrir sveitarfélög, sem með því er lögð á ríkissjóð.

Það er að sjálfsögðu þannig að þetta ákvæði til bráðabirgða“ er ekki hugsað sem ákvæði til frambúðar. Það er ekki ætlazt til, að það gildi nema um næstu 3 ár. Vitanlega mætti fella það úr gildi fyrr, ef ekki þætti ástæða til að halda því lengur við. En af hálfu Sjálfstfl. er það borið fram sem hrein neyðarráðstöfun, en ekki í því skyni, að það verði frambúðarlöggjöf.