16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

118. mál, framfærslulög

Páll Zóphóníasson:

Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. skilur þetta frekar, ef ég tek dæmi af liðnum tíma. Það er hreppur norður í landi, þar sem eru innan við 20 bæir. Fyrir stuttu síðan þurfti Reykjavík að ráða sér starfsmann. Hún sótti hann í einn bóndann í þessari sveit, sem hafði, áður en hann fluttist hingað, borið ¼ hluta af útsvörum í sveitinni, enda átt stórt bú og eignir. Svo þurfti Reykjavík að ráða sér annan starfsmann. Hún sótti hann í annan bónda í sömu sveit. Sá maður hafði borið 1/10 af útsvörum sveitarinnar. En stjórnendur fátækraframfærisins í Reykjavík settu svo mann, sem var fátækur og átti marga krakka og lá við að þiggja af bænum, á aðra af jörðunum, sem þessir menn höfðu flutt af. Hann hafði 5 kr. útsvar í fyrra. Mönnum finnst orðinn ákaflega mikill munur á útsvörunum þar í sveitinni frá því sem var. Þessir tveir menn fluttu 60–90 þús. kr. eignir með sér hingað suður.

Ég geri ráð fyrir, að ef l. um byggðarleyfi hefðu verið komin á, þegar þessir menn fluttu, þá mundi Reykjavík ekkert hafa haft á móti því, að þessir menn kæmu. Þeir mundu báðir hafa verið alveg eins velkomnir til Reykjavíkur, og þeir voru, er eftir þeim var sózt. En að aðrir, sem engin útsvör gátu borið og hefði viljað flytja úr sveit til Reykjavíkur, hefðu mátt flytja þangað, — það hefði verið haft á móti því. Þeir hefðu sjálfsagt verið látnir vera kyrrir.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. þekki þetta dæmi, sem ég nefndi — þekki þessa menn — og að hann geti séð af þessu dæmi, hvernig þetta muni taka sig út í framkvæmdinni.