19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Eins og grg. fyrir þessu frv. ber með sér, þá er það undirbúið af nefnd, sem ríkisstj. skipaði til þess að athuga um breyt. á framfærslul. Þessi nefnd starfaði hér í bænum um skeið, og voru henni til aðstoðar menn, sem langa reynslu hafa í meðferð framfærslumála í bæjum og sveitum landsins. Þegar þessi nefnd hafði lokið störfum, kom ríkisstj. saman um að leggja þetta mál fyrir hv. Alþ., og hefir það nú gengið í gegnum hv. Ed.

Aðalatriði þessa frv. má segja, að séu þau, að nokkuð er breytt ákvæðum fyrri framfærslul., hvað snertir rétt manna til að vinna sér nýja framfærslusveit. Nú er í gildi með framfærslul., að menn eigi framfærslusveit, þar sem þeir hafa tekið sér lögheimili, án tillits til þess, hvort þeir hafa dvalið þar lengur eða skemur. Þær takmarkanir eru gerðar í þessu frv., að vissir menn, sem flytjast milli sveita, öðlast ekki framfærslurétt f hinni nýju heimilissveit fyrr en eftir tilskilið tímabil. Það eru fyrst og fremst þeir menn, sem þegið hafa af þeirri sveit, sem þeir flytjast frá, og í annan stað menn, sem dveljast á sjúkrahúsum, heilsuhælum eða öðrum slíkum stofnunum. Loks eru það þeir menn, sem ráðstafað er af framfærslunefnd eða hreppsnefnd í annað framfærsluhérað.

Þá má geta þess, að í þessu frv. eru nokkuð ríkari ákvæði um rétt framfærslusveitar yfir högum þeirra manna, sem komast á framfærslu. Þar er lögð áherzla á, að í stað þess að greiða mönnum framfærslueyri án vinnu, þá sé reynt að útvega þeim mönnum vinnu, sem geta unnið, svo þeir geti séð sér og sínum borgið. Það er gert ráð fyrir, að þetta sé gert, þó það sé ekki alltaf á sama stað og heimili manna er á.

Loks er þriðja höfuðatriðið í þessu frv., en þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist nokkrar greiðslur í viðskiptum milli sveita, sem stafa af þessum nýju ákvæðum frv. Þessi ákvæði er að finna í 22., 23. og 31. gr. frv., þar sem ríkissjóði er gert að ábyrgjast greiðslur á 2/3 þess kostnaðar, sem framfærslusveit á að greiða dvalarsveit eftir þeim reglum, sem ég gat um fyrr. Í 23. gr. er ábyrgzt greiðsla framfærslukostnaðar af hálfu dvalarsveitar, sem sjúklingur dvelur í, án þess að hafa öðlast þar framfærslurétt.

Þetta eru höfuðatriði frv., og sé ég ekki ástæðu til að fara út í það nánar á þessu stigi málsins. Við meðferð málsins í hv. Ed. hefir frv. lítið breytzt að öðru leyti en því, að aftan við það er sett ákvæði til bráðabirgða um skipun 3 manna nefndar, sem á að hafa með höndum till. og að vissu leyti framkvæmdir eftir ákvörðun ráðh., í ýmsum málum viðkomandi framfærslulöggjöfinni og eins afskipti af því fé, sem á hverjum tíma er veitt úr ríkissjóði til atvinnubóta og framleiðsluaukningar. Ég fyrir mitt leyti var því meðmæltur, að slík nefnd væri skipuð eftir því ákvæði, sem fyrir liggur frá hv. Ed. Ég tel það mikinn styrk fyrir þann mann úr ríkisstj., sem fer með framfærslumálin á hverjum tíma, að hafa slíka ráðunauta sér til aðstoðar, og sé þangað hægt að leita till. og jafnvel fela þeim mönnum framkvæmdir vissra greina innan þessara mála.

Að öðru leyti gerði hv. Ed. ekki neinar verulegar efnisbreyt. á frv. frá því, sem það var lagt fyrir þingið á sínum tíma. Ég vil svo mælast til þess, að þetta frv. nái fram að ganga, og óska eftir, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.