19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

118. mál, framfærslulög

*Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla að minnast á nokkur atriði í þessu frv. Það er borið fram af hæstv. félmrh., svo maður skyldi ætla, að það væri byggt á þeim grundvelli, sem Alþfl. hefir haft í framfærslumálunum, en því fer mjög fjærri. Það virðist eins og þetta frv. geri eingöngu ráð fyrir því sjónarmiði, hvernig eigi að koma þessum málum fyrir á sem haganlegastan hátt þannig, að sem minnstu sé kostað til framfærslumálanna. Það er ekki á neinn hátt litið á þarfir fólksins, sem þarf á framfærsluhjálp að halda og á samkvæmt stjskránni rétt á, að fyrir því sé séð. Það virðist svo, að sumar þær breyt., sem hér eru gerðar, séu þannig, að þær stappi nærri því að vera brot á stj.-skránni, að því er snertir sjálfræði manna.

Ég vil benda á þau ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir, að taka megi framfærslustyrkþega með valdi og flytja hvert á land sem er, í viðunanlega vist, eins og það er kallað. Það er sett þarna á vald sveitarstjórna, hvað gert er við þetta fólk. Áður þóttu fátækraflutningar hið mesta hneyksli, enda hafðist eftir langa baráttu og almennan skilning á því, hve svívirðilegir þeir voru, að fá þá úr l. numda. Nú er gengið ennþá lengra, því nú má ekki aðeins flytja fólk þangað, sem það er ættað, heldur hvert sem vera skal, án þess að það sá takmarkað af öðru en því, að það sé gert í atvinnuskyni um stundarsakir, en það er alveg lagt á vald fátækrastjórna að ákveða um þetta. Mér er alveg óskiljanlegt, hvaða áhrifum hefir verið beitt til þess að fá meiri hluta þm. til þess að ganga inn á þetta, fyrst í Ed., og nú lítur út fyrir, að eigi að keyra það í gegnum 1d.

[Eyða í handr. þingskrifarans].

aðbúnaður fólksins og kjör, og hvernig heimilin verða slitin sundur, allt er þetta á valdi þessara manna. Svo er verið að leysa upp höggorminn, og til þess að gera upphafsmenn hans ánægða, er verið að taka búta af honum og skeyta aftan við þetta frv., svo sem þessa þriggja manna nefnd, sem skipa á eftir tilnefningu þriggja stærstu þingflokkanna. Ætlazt er til, að nefnd þessi hafi með höndum framkvæmdir og ráðstafanir til framleiðslubóta og atvinnuaukningar, svo sem það er orðað, og framkvæmdir í framfærslumálum. Þar með eru þessi mál tekin úr höndum þeirra manna, er áður hafa ráðið þeim og hafa þó nokkra embættisábyrgð, þótt ekki sé annað, og fengin pólitískum flokkum til umráða.

Alstaðar þar sem þetta mál hefir verið rætt, bæði í verkalýðsfélögunum og annarstaðar, hefir það mætt hinni megnustu andúð, og það er ekki ósennilegt, að þing og stjórn séu ekki búin að bíta úr nálinni með það, ef það verður samþ. Ákvæðið um, að leitað skuli álits verkalýðsfélags á staðnum kemur að litlu haldi, því að víða er ekkert verkalýðsfélag til, eins og t. d. í sveitunum. Ef farið verður að ráðum hv. þm. Borgf. (PO), að hola þúsundum kaupstaðarmanna niður í sveit, þar sem ekkert verkalýðsfélag er til, verður lítil stoð í þessu ákvæði, og þó svo að álits verkalýðsfélaganna sé leitað, er framkvæmdavaldið í höndum þessara manna. Með öðrum orðum, valdið yfir framfærsluþurfunum er aukið stórkostlega, en réttur þeirra er skertur. Í nágrannalöndunum hefir þróunin gengið í þá átt að setja föst ákvæði um þessi mál, t. d. með því að koma þeim inn í tryggingarlöggjöfina eða á annan hátt að búa svo um, að framfærsluþurfar hefðu nokkur mannréttindi. Hér er hinsvegar verið að taka af þeim mannréttindin og gera þá að þrælum, því að þetta frv. er ekkert annað en ný þrælalög.