03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

118. mál, framfærslulög

*Frsm. (Thor Thors) :

Það hafa ekki verið mikil ræðuhöld hér í hv. d. né heldur í allshn. um þetta mál, og er sízt ástæða til að hefja þau nú á þessu stigi málsins.

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þdm. á því, að allshn. flytur sameiginlega brtt. á þskj. 675. Önnur þeirra er um viðauka við 24. gr. frv., þar sem rætt er um endurgreiðslu á framfærslustyrkjum. Við gerum það að till. okkar, að þar sé því bætt við, að sveitarstjórn sé skylt að svara kröfu um endurgreiðslu framfærslustyrks innan 6 mánaða frá því, að henni barst tilkynning um styrkveitingu, ella falli niður réttur hennar til mótmæla gegn réttmæti skuldarinnar.

Þetta ákvæði er sett til varúðar, til þess að greiða fyrir skuldaskilum milli sveitarfélaga og til að tryggja það, ef kostur er, að hrein skil geti orðið þessara mála af hendi sveitarstjórnanna, þar sem niður fellur réttur til að mótmæla kröfu um endurgreiðslu framfærslustyrks, ef henni hefir ekki verið svarað innan þess tíma, sem ég gat um.

Ennfremur er hér smábrtt., tölul. 2, um að í staðinn fyrir að l. þessi öðlist gildi 1. janúar 1940 komi: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Um aðrar brtt. við þetta mál hefir allshn. ekki tekið neinar sameiginlegar ákvarðanir, og hafa því einstakir nm. óbundnar hendur um þær.