03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

118. mál, framfærslulög

*Pétur Ottesen:

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að af allshn. hálfu hefir ekki verið mikið rætt um þetta frv.

En ég er ekki alveg viss um, að það hefði ekki verið nokkur ástæða til þess fyrir n. eða frsm. hennar að gera nokkra grein fyrir þeim breyt., sem felast í þessu frv. frá núgildandi l. Því að sjálfsagt hefir n. athugað, að með þessu frv. er stefnt að allstórstígum breyt. í því efni.

Langsamlega stærsta breyt., sem í frv. felst, er það, að það stappar ákaflega nærri því, eftir að frv. þetta er orðið að l., að það sé þá búið að gera landið allt að einu framfærsluhéraði.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að það hefir ýmsa kosti í för með sér, að landið sé gert allt að einu framfærsluhéraði. Með þeim hætti mundi verða rutt úr vegi ýmiskonar fyrirhöfn, sem leiðir af viðskiptum hreppa í milli í sambandi við framfærslumálin. En hinsvegar er það ekki að efa, að ókostirnir við það að gera landið allt að einu framfærsluhéraði, eru svo miklir, að kostirnir hverfa alveg í skuggann, því að við þá breyt. mætti ganga að því vísu, að sú varfærni, sem víða hefir átt sér stað í þessum sökum, mundi verða stórum minni eftir að slíkt væri komið á. að landið væri orðið eitt framfærsluhérað. Ég er hræddur um, að þegar þetta frv. er orðið að l. hér, með þeirri ríkisábyrgð, sem í því felst gagnvart framfærsluþunganum, þá sé eiginlega ekki orðið mikið eftir af því, sem verður að telja til kosta og öryggis í því skipulagi á þessum hlutum, sem verið hefir og er enn að nokkru leyti í framfærslulöggjöfinni. Mér skilst, að með þessari lagabreyt., sem í frv. felst, taki ríkið á sínar herðar ábyrgð á greiðslum framfærslustyrkja á milli sveitarfélaga fyrir þá menn, sem hafa flutzt á milli hreppa, að það taki ábyrgð á þeim þunga, sem kynni að leiða af dvöl þeirra í dvalarsveitinni, þegar hún er ekki framfærslusveit viðkomandi styrkþega. Í öðru lagi tekur ríkið á sig ábyrgð á skuldum, sem stofnað er til út af þessum þurfalingum. Í þriðja lagi tekur ríkið á sig ábyrgð á greiðslum á milli hreppsfélaga, sem stafa af dvöl manna, sem ráðstafað hefir verið í önnur sveitarfélög. Og í fjórða lagi á ríkið að leggja fram til viðbótar jöfnunarsjóði svo, að ákvæðum um útjöfnun jöfnunarsjóðsins á milli sveitarfélaganna verði fullnægt. En hins vegar er vitað, að það fjármagn, sem jöfnunarsjóður hefir yfir að ráða, hrekkur hvergi nærri til þessarar jöfnunar, og mundi , ríkissjóður verða að bæta allríflegri fjárhæð við þær 700 þús. kr., sem jöfnunarsjóði eru nú ætlaðar eftir l.

Þá er einnig með þessu frv. gerð allveruleg breyt., að mér skilst, sem gæti orðið nokkuð varhugaverð, að í staðinn fyrir, að framfærslusveit á eftir núgildandi l. að sjá þurfalingum fyrir framfæri að öllu leyti, þá á samkvæmt þessu frv. dvalarsveit í sumum tilfellum að taka upp á sig 1/3 af framfærslukostnaðinum. Þannig er að þessu leyti þeim grundvelli alveg burtu kippt, sem núgildandi framfærslulöggjöf hvílir á, að framfærslusveit ein eigi að standa straum af kostnaði við framfærslu þurfalinga. Mér finnst, að þetta atriði gæti orðið varhugavert. Þetta tekur að vísu ekki til manna, sem ráðstafað væri milli hreppa. Hins vegar eru ýmsar leiðir til þess fyrir hreppsfélögin og bæjarfélögin, og þá sérstaklega þau, sem meiri máttar eru, að koma mönnum af sér og yfir í aðrar sveitir, án þess að það sé á yfirborðinu gert sem ráðstöfun þannig, að opinbert sé. Skilst mér þá, að það gæti verið töluvert hagsmunaatriði, t. d. fyrir kaupstaðina, og sérstaklega þá stærstu, eins og t. d. Reykjavík og fleiri kaupstaði, sem líkt stendur á um, að gera ráðstafanir til þess, án þess að það kæmi fram opinberlega, að koma þurfalingum af sér yfir í aðra hreppa, í fyrsta lagi af því, að þar væri ódýrari framfærslan á þeim, og í öðru lagi af því, að þá yrði viðkomandi dvalarhreppur að taka á sínar herðar hluta af framfærslukostnaðinum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa athugað nógu vel, hvaða möguleikar felast í þessu ákvæði til þess að breyta til frá þeim raunverulega grundvelli, sem framfærslulöggjöfin nú hvílir á.

Það er vitanlegt og því ber ekki að neita, að breyt. þær, sem gerðar voru síðast á framfærslulöggjöfinni, hafa komið hart niður á kaupstöðunum. En mér dylst heldur ekki, að einmitt að undirbúningi þessa frv. hafa staðið fulltrúar frá kaupstöðum og kauptúnum í landinu, og er mér ekki grunlaust um, að þeir með slíkum till. sem þessum séu e. t. v. að snúa nokkuð á þá menn, sem eiga að gæta hagsmuna hinna smærri og fátækari sveitarfélaga landsins. Ég veit ekki t. d., hvort fulltrúar sveitanna hafa athugað nógu vel eða gert sér grein fyrir því, hvaða möguleikar felast í ákvæði sem þessu, sem allir eru til hagsbóta fyrir kaupstaðina, en er stefnt gegn minni hreppsfélögum.

Ég hefi nú ekki komið með neinar brtt. við þetta atriði, og þá ekki heldur við þá ábyrgð ríkissjóðs, sem hér er verið að stofna til í sambandi við ábyrgð á greiðslum hreppa í milli. Ég hefi ekki gert það af því, að mér hefir verið skýrt svo frá, að þetta frv. mundi vera nokkurs konar samningsatriði á milli stjórnarfl. Og þess vegna hefi ég ekki viljað ráðast á það með brtt., sem væru bein grundvallaratriði í þessu frv. Hins vegar dylst mér ekki, hvert hér er stefnt, og vildi ég vekja athygli á þessu, ef þetta hefði farið fram hjá mönnum — a. m. k. athygli þeirra hv. þm., sem sitja nú hér á þingbekkjum klukkan tæplega 4 að næturlagi. Hinir, sem annaðhvort sofa eða vaka hér í hliðarherbergjunum, álíta sig ekki þurfa neins að gæta og hafa e. t. v. líka kynnt sér þessi ákvæði svo vel, að þar sé ekki neinu við að bæta hjá þeim.

Þá var hér í 24. gr. frv., sem var óskýrt, en nú hefir verið bót á því ráðin með brtt., sem allshn. hefir borið fram, sem tekur af öll tvímæli um það, hvernig ber að skilja ákvæði þeirrar gr.

Þá vildi ég aðeins minnast á ákvæði 31. gr. frv. En samkvæmt henni er gert ráð fyrir því, að breyta nokkuð til frá því, sem nú er að því leyti að þeir menn, sem ráðstafað er í aðra hreppa, verði þar ekki sveitfastir strax. heldur í fyrsta lagi eftir 6 ár, og verði þeir á framfæri framfærslusveitarinnar, sem þeir komu frá, fyrstu 4 árin, og að þeir verði ekki sveitlægir í dvalarsveitinni fyrr en þeir hafa verið þar a. m. k. 2 ár án þess að hafa þurft að þiggja nokkurn styrk af framfærslusveit sinni. En það er annað ákvæði í þessari gr., sem ég tel ákaflega varhugavert, og hefi ég flutt brtt. við það á þskj. 655. Í 31. grv. frv. eru nefnilega ákvæði um þá menn, sem ráðstafað er milli sveitarfélaga. Þar getur verið um að ræða ráðstafanir bæði á einhleypum mönnum, sem komnir eru á opinbert framfæri á einstökum heimilum, og einnig á heilum fjölskyldum, sem annaðhvort setja sig niður á jörðum eða í húsmennsku eða í þurrabúð, þannig að þar getur verið um að ræða ráðstöfun á heilum hóp manna inn í eitt og sama sveitarfélag. Nú er gert ráð fyrir því í seinni hluta þessarar gr., að það sveitarfélag, sem mönnum er ráðstafað til, eigi að taka á sínar herðar að sjá fyrir öllum þörfum þessa fólks, sem ráðstafað hefir verið þannig, að vísu gegn greiðslu frá því sveitarfélagi, sem framfærsluskyldan hvílir á. En hins vegar er ekkert tekið fram um það í þessum greinarhluta í frv., hvernig þær greiðslur eigi að inna af hendi, hvort það eigi að greiða með þessum mönnum mánaðarlega, tvisvar á missiri, missirislega, eða þá ekki fyrr en að árinu liðnu. Ég er sannfærður um, að þær ástæður gætu verið fyrir hendi, að ráðstafað væri svo mörgum mönnum inn í eitt sveitarfélag, að því væri um megn að leggja fram það, sem þeir, sem þannig væri til þess ráðstafað, þyrftu með, þangað til það yrði endurgreitt, ef sú endurgreiðsla drægist lengi, t. d. árlangt. Ég veit ekki, hvort þetta atriði hefir verið athugað nógu vel. En ég hygg, að með 31. gr. frv. óbreyttri gæti verið stofnað til hreinna vandræða. Og framfærsluerfiðleikar sveitarfélaga margra hverra eru nú þegar svo miklir, að ekki er gerandi að auka vitandi vits við þá.

Nú sé ég ekki, að ástæða sé til að leggja þessa kvöð á sveitarfélögin, sem þessir þurfalingar dvelja í. Hvers vegna getur ekki framfærslusveitin í svona tilfelli innt af hendi greiðslu framfærslustyrks til þessara manna beint, án milligöngu þess sveitarfélags, sem þurfalingurinn dvelur í? Ég hefi ekki getað séð neina skynsamlega ástæðu til að álykta, að framfærslusveitin geti það ekki, og þess vegna geri ég að till. minni á þskj. 655, að þessi síðari hluti 31. gr. falli burt, sem sé ákvæðið, sem leggur þessa skyldu á herðar dvalarsveitar þurfalings. Og þá stendur eftir, að framfærslusveit verði að sjá þessum mönnum farborða, nefnilega að leggja fram fé til framfærslunnar alveg eins og þeir dveldu í sinni eigin framfærslusveit. Ég verð að vænta þess, að hv. þd. geti fallizt á, að nauðsynlegt sé að fella niður úr frv. þetta ákvæði 31. gr., sem getur leitt til hreinna vandræða fyrir viðkomandi sveitarfélög.

Það er nú komin hér fram brtt. við 38. gr. frv., um það atriði, sem ég minntist á áðan, að hrökkvi ekki tekjur jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga til þess að endurgreiða fátækrajöfnunarféð, þá greiði ríkissjóður það, sem á vantar þar til full endurgreiðsla er fengin samkvæmt fyrirmælum þessarar gr. Þarna er áreiðanlega lagt á herðar ríkissjóði að inna af höndum greiðslur verulega til viðbótar við það, sem jöfnunarsjóði eru ætlaðar og nota á í þessu skyni, og í viðbót við allar ábyrgðir, sem lagðar eru á herðar ríkissj. í þessu frv. Þarna er svo langt gengið, að lítið má telja, að sé eftir ófarið yfir í það, að landið sé orðið allt að einu framfærsluhéraði. Og ég verð að telja það mikinn ókost á þessu frv., að í því skuli vera stefnt svo langt í þessa átt eins og gert er hér. Að ég tel það svo mikinn ókost, stafar af óttanum við það, að þá sé búið að slá öllu lausu og ekki hægt að sjá út yfir afleiðingarnar af því, þegar ríkið á að borga brúsann í hverju tilfelli, og hver getur ýtt þunganum af sér yfir á ríkið.

Þá á ég hér aðra brtt. á þskj. 655, og hún gengur í þá átt, að ráðh. geti heimilað sveitarstjórnum að leggja hömlur á rétt manna til þess að setjast að í sveitarfélagi. Till. hafa áður verið bornar fram um þetta efni, — það er langt síðan þessu var hreyft á Alþ. og var gert löngu áður en farið var að tala um í sambandi við sveitfestina, að þörf væri á breyt. á framfærslul.fyrir löngu hafa komið fram till. á Alþ., sem gengið hafa í þessa átt og voru undir nafninu „Frv. til l. um byggðarleyfi“. Reynslan hefir sýnt það, einkum á hinum síðustu árum, að ákaflega miklir erfiðleikar stafa af því og hrein og bein vandræði, þegar mjög mikill hópur manna safnast saman á þeim stöðum, þar sem ekki er nægilegt verkefni handa þessu fólki, svo að fólk þess vegna hefir orðið að gefast upp á aðra menn og komast á framfæri annara. Af þessu stafar ákaflega mikil hætta og er því orðið eitt af áhyggjuefnum þjóðfélagsins, og alltaf hefir meira og meira og með vaxandi hraða stefnt í þessa átt, og það er alveg þarflaust að vera að lýsa því hér, hver vandræði þetta leiðir og hefir leitt af sér, þótt af þessum sökum hafi þegar á þessu þingi verið tekið upp í löggjöfina ákvæði, sem stefna að því beinlínis að stuðla að því, að fólkið verði flutt til frá þeim stað, þar sem ekki er verkefni fyrir það, og yfir á aðra staði, þar sem nóg er að gera og skortur er á fólki, og virðist vera einkennilegt, þar sem slíka ráðstöfun verður að taka upp í lögin, að gera frekari gangskör að því en verið hefir, að þá skuli ekki jafnframt vera gerðar ráðstafanir til þess að reyna að spyrna á móti því, að þannig offyllist ýmsir staðir, og reyna að fyrirbyggja, að það þurfi að grípa til örþrifaráða og ýta fólkinu þannig til. Það er heldur of seint en of snemmt að taka slík ákvæði upp í lögin, sem í tillögu minni felast, og má ekki lengur láta úr hömlu dragast að veita sveitafélögum stuðning í því að standa á móti allt of miklu aðstreymi til slíkra staða. Það hafa nú sum sveitarfélög og bæjarfélög reynt að ná samkomulagi við atvinnurekendur um það að spyrna á móti aðstreymi fólksins í sambandi við að láta heimafólk ganga fyrir þeirri vinnu, sem er að hafa. Þetta hefir gagnað hálflitið og þess vegna er ekki hægt að varpa neinum áhyggjum upp á þetta, því það nær ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað að ná, að spyrna við ofmiklum innflutningi fólks. Held ég, að það væri hyggilegt að veita ráðh. eða sveitarfélagi slíka heimild sem þessa, og ætti svo um þetta að búa eins og bezt verður á kosið og ekki beita því nema þar, sem nauðsyn rekur til. Þetta ætti líka að vera meinlaust, ef svo er um búið, að tryggt væri, að það sé ekki misnotað, og ætti að vera eingöngu beitt til þess að stöðva aðflutning fólks þangað, sem ekki er verkefni fyrir það. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. — Það eru mikið fleiri atriði í þessu frv., sem væri fullkomin ástæða til að minnast á, en eins og ástæður eru nú hér á Alþingi núna í aftureldingunni, þar sem ekki eru nema tiltölulega fáir menn hér í sætum og menn dvelja einhverstaðar annarstaðar, þá er ákaflega tilgangslítið að vera að benda á atriði í þessu frv., sem væru fullkomlega þess virði, að þau væru athuguð, en það getur vel verið, að það, sem er athugavert í þessu frv., hafi ekki farið fram hjá mönnum. En ég vil benda þeim á það, fulltrúum sveitafélaganna, sem hér eru staddir, og fulltrúum þeirra sveitafélaga, sem minni máttar eru, að ef þessir fulltrúar hafa á sínum tíma snúið á kaupstaðina, þá er hér af kaupstaðanna hálfu verið a. m. k. að gera tilraun til þess að snúa á þessa fulltrúa, og ef þetta frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það er, mega menn vera vissir um, að þetta kemur í ljós.