22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Jónas Jónsson:

Það er eitt atriði viðvíkjandi þessari verksmiðjubyggingu á Raufarhöfn, sem mig hefir lengi langað til að hreyfa á Alþingi, og ég hefi hugsað mér að gera skrifl. brtt. í þá átt við þessa umr.

Ástæðan er fyrst og fremst sú, að þeir, sem vel eru kunnugir á Raufarhöfn, óska ekki, að það fólk sem safnast þangað vegna hinnar nýju verksmiðju, verði að föstum íbúum þorpsins. Eg vil færa að þessu nokkur rök. Ég get kannske bezt skýrt málið með því að segja, að Siglufjörður hafi í sumu versta aðstöðu til að vera síldarstöð, vegna atvinnuleysis meginhluta árs eftir að þar hefir myndazt stór bær, en bezt gefizt að hafa síldarverksmiðjur á eyðistöðum eins og Djúpuvík eða Hjalteyri, af því að þar er ekki um nokkurt þorp að ræða og vandkvæði, sem því fylgja. Kristján Bergsson, forseti Fiskifélagsins, hefir lengi haldið þessu fram, að það væri hættulegt, hve fólkið þyrpist saman þar, sem að vísu er mikil vinna á sumrin, en ekki á veturna, og ekki hægt að koma við ræktun, sem ber sig, a. m. k. hvergi nærri í nógu stórum, eins og er á Siglufirði eða Raufarhöfn. Mér er sagt, að ef samþ. hefðu verið lög um byggðarleyfi, mundi Presthólahreppur áreiðanlega hafa hindrað það, að þorp skapaðist við þessa stækkun verksmiðjunnar. Það er af því, að bændurnir hafa ekkert haft nema erfiðleika af verksmiðjunni. Hún er aðeins byrði á þeim. Þangað hefir leitað fólk, sem ekki hefir getað séð fyrir sér þá tíma ársins, sem atvinnu skortir. Það er ekki beinlínis sagt til að ásaka fólkið á Raufarhöfn, því að þar eru ekki nein ræktunarskilyrði og því óhjákvæmilegt, að ekkert sé að gera yfir veturinn.

Nú þegar sýnt er, að myndun þorps á staðnum væri hvorki velgerningur við sveitina né sjálft fólkið, sem þarna yrði hneppt í atvinnuleysið, og úr því að hreppsnefnd hefir ekki vald til að takmarka innflutninginn, væri kannske hægt, og fyllilega réttmætt að takmarka hann á annan hátt.

Í sambandi við menn í síldariðjunni hefir nú verið rætt um að tryggja þarna atvinnu námsmönnum, sem eru nokkuð lengi við nám, og hefir verið snúizt að því að ræða framkvæmd þess við stjórn síldarverksmiðjanna. Áður hafa nokkrir námsmenn haft þar vinnu, og hefir það ekki reynzt illa. Hin skrifl. brtt. mín er á þá leið, að bæta inn nýrri 4. gr. í frv. um, að þegar nýja Raufarhafnarverksmiðjan tekur til starfa, skuli yfirstjórn hennar láta efnalitla, duglega nemendur í lærdómsdeildum menntaskólanna og háskólanum njóta allt að ¾ þeirrar almennu vinnu í verksmiðjunni, sem af stækkun hennar leiðir. — Vitanlega er ekki ástæða til að tryggja efnuðum piltum atvinnu. Það á ekki að taka brauðið frá þeim, sem þurfa þess mest, eins og nú er barizt um hverja hugsanlega atvinnu. Ég held það sé rétt að setja þetta ákvæði. Með því er ekkert þrengt að þeim, sem haft hafa vinnu við verksmiðjuna, þar sem ákvæðið nær aðeins til aukningarinnar. Vona ég, að till. verði vel tekið.