03.03.1939
Neðri deild: 12. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

5. mál, innheimta ýmissa gjalda 1940

*Frsm. (Ólafur Thors) :

Eins og nál. ber með

sér, hefir fjhn. borið þetta frv. saman við gildandi lagaákvæði og orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ.

Það þykir þó rétt að geta þess, að einstakir nm. miða þessa till. sína við þörf ríkissjóðs fyrir þær tekjur, sem honum hafa dropið af þessum l., fremur en hitt, að þeir út af fyrir sig séu sammála einstökum ákvæðum þessara tollaukalaga.

Þá vil ég leyfa mér að vekja athygli á, að þetta frv. er ekki að öllu leyti eins og það frv., sem lagt var fyrir Alþ. í fyrra um sama aðalefni og þá varð að l. og fjallaði að vissu leyti um sömu tekjuauka og þetta frv. En frábrigðin liggja í því, að hér í 2. gr. þessa frv. eru niður felld ákvæði um vissa tekjustofna ríkinu til handa, sem voru í því frv., sem lagt var fyrir þingið í fyrra og þá varð að l. Aftur á móti hafa svipuð ákvæði um tekjustofna ríkinu til handa verið tekin upp í frv. til l. um tollskrá, sem lagt var fyrir Ed. nýlega.

Ennfremur er í frv. lagt til, að gerð verði sú breyt. á tilsvarandi lagafyrirmælum frá Alþ. í fyrra, að skemmtanaskatt skuli vera heimilt að innheimta, ekki eins og þá var ákveðið í nefndum l., heldur eins og heimilað var í fjárl. 1938, 22. gr., XI, þ. e. a. s. það á nú að innheimta skemmtanaskatt af kvikmyndasýningum með 80% álagi, en af öðrum skemmtunum er heimilt að innheimta skattinn með 20% álagi. En í eldri lagafyrirmælum var ætlazt til, að 80% álagið næði til allra skemmtana, nema til þeirra, sem sérstaklega voru undanþegnar, þeirra, sem voru og eru taldar upp í 4. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, og í frv. í fyrra, sem þá varð að l., að mig minnir.

Með þessum aths. leyfi ég mér fyrir hönd hv. fjhn. að mæla með því, að frv. þetta verði samþ.