02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Pálmi Hannesson:

Ég er samþykkur frv. eins og það liggur fyrir og er því meðmæltur, að brtt. verði felldar. Ástæðan til þess er sú, að eins og kunnugt er, koma menntamenn hér á landi frá öðrum stéttum en annarstaðar er siður. Erlendis er það algengast, að stúdentar og menntamenn komi frá hinum efnaðri stéttum. En hér á landi hefir þetta frá byrjun verið með öðrum hætti, þótt dregið hafi úr því á síðari árum; hér hafa margir menntamenn komið frá hinu vinnandi fólki, og þeir hafa getað unnið fyrir sér og kostað námið sjálfir. Á síðari árum hefir þetta orðið erfiðara. Verkalýðsfélagsskapur hefir hvarvetna risið upp og skyldað vinnandi menn til að standa í honum, og þeir látnir sitja fyrir vinnu.

Hinir ungu námsmenn hafa því ekki átt greiðfærar götur til að kosta nám sitt. Hér hefir því þokað upp á síðkastið inn á sömu braut og erlendis, að nemendur háskólanna koma aðallega frá efnaðra fólki. Ég álít, að þetta sé til tjóns fyrir þjóðfélagið, því að það er eðlilegast, að menn geti notið menntunar óháð því, frá hvaða stétt þeir koma. Jafnframt þessu er hætt við, að takmarkanirnar á upptöku í skólana bægi fátækum nemendum frá skólunum, ef þeir geta ekki unnið fyrir lífsuppihaldi sínu.

Það er auðvitað ekki nema eðlilegt, að verkamenn og fulltrúar þeirra vilji halda vinnunni fyrir sína stéttarbræður. En það er hinsvegar ekki réttlátt að útiloka nemendur frá störfum hins opinbera. Mér er kunnugt um það, að erfiðleikarnir fara vaxandi meðal skólafólks, fátækir og duglegir nemendur, sem leitað hafa sér atvinnu, hafa mjög átt undir högg að sækja. Og ég veit til þess, að hægara og betra er að koma nemendum í vinnu hjá einkafyrirtækjum heldur en hjá því opinbera, og hefir þó verið leitað fastast á hjá opinberum fyrirtækjum.

Þegar hér liggur fyrir aukning á atvinnurekstri ríkisins, þá hefir verið farið fram á, að nokkur hluti fátækra námsmanna fái þar vinnu. Þetta er þó ekki nema lítið brot af þeim þurfandi nemendum, sem munu geta komizt þarna að. Vinna við síldarverksmiðjur er talin góð og gefur þeim, sem við þær vinna, eitthvað í aðra hönd. Þessir ungu nemendur hafa gott af erfiðisvinnu, og ég sé ekki neina ástæðu til að bægja þeim frá að fá aðgang að henni. Og mér virðist það með öllu sanngjarnt, að atvinnulausum nemendum sé tryggð atvinna við þessi fyrirtæki. Eg skal játa, að ég skil ekki röksemdir þeirra hv. þm., sem fram koma á þskj. 625, að í stað þess, að allt að helmingur verkamanna eigi að vera nemendur, komi allt að þriðjungur, því að ég fæ ekki betur séð en að með ákvæði sjálfs frv. sé leiðrétt það misrétti, sem á sér stað í úthlutun vinnunnar og færast mun í aukana eftir því, sem harðnar deilan um atvinnuna í landinu. Ég vil bæta því við, að mér finnst það ekki nema eðlilegt, að ríkið sé a. m. k. ekki erfiðara en einkafyrirtæki í skiptum sínum við nemendur, sem eiga eftir að verða embættismenn þess. Ég mælist því til, að brtt. verði felld, en frv. samþ. óbreytt.