02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Hv. síðasti ræðumaður var að kveina yfir því, að enginn tillögumaður sjútvn. væri nú hér í d. Þetta var ekki rétt hjá honum, því að ég er einn þeirra manna. Við höfum fjórir af fimm nm. sjútvn. lagt til þá breyt. á frv., að í staðinn fyrir ½ komi 1/3 , þ. e. a. s. að einn þriðji hluti af þeim vinnuplássum, sem verða á Raufarhöfn vegna stækkunar síldarverksmiðjunnar þar, skuli falla í hlut námsmanna við lærdómsdeild menntaskólanna eða við háskólann. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að vísu frá einum úr stjórn síldarverksmiðjanna, mun þessi aukning nema um 40 manns. Ef námsmenn fá 1/3 hlutann, þá

er þar um að ræða 12–13 menn. Það er allt og sumt, sem hér er farið fram á. Hv. þm. Ísaf. er þessu mjög mótfallinn, sýnilega fyrir þá sök, að hann vill ekki láta lögfesta þetta. Það virðist vera aðalatriðið hjá honum. En svo kom í ljós, hvar refurinn var falinn, því að þessi hv. þm. sagði, að þessir námsmenn þyrftu ekki annað en að fara í verkalýðsfélag, ganga í Alþýðusambandið, þá væri þeim opin leið til þess að fá vinnu. M. ö. o., það á að þvinga námsmenn til að ganga inn í verkamannafélögin, sem er pólitískur félagsskapur, og skólastjóri menntaskólans á Akureyri hefir fyrirboðið nemendum skólans að taka þátt í pólitískum félagsskap. Þeir yrðu því að brjóta í bága við þær reglur, sem þeim hafa verið settar, ef þeir yrðu að ganga í þessi pólitísku félög til þess að geta fengið vinnu við verksmiðjurnar. En þetta er það, sem hv. þm. Ísaf. vill þvinga þá til, og ef þeir geri það, þá geri ekkert til, þó að þeir taki vinnuna frá þeim fátæku fjölskyldumönnum, sem hann telur sig vera fyrir brjósti. Ég held, að það sé miklu heppilegri leið að hafa ákvæði í l. um að opna leið fyrir þessa menn til að stunda vinnu yfir sumartímann, því að það er vitað, að allur hávaðinn af þessum námsmönnum er bláfátækir menn, og þó að nokkrir þeirra eigi efnaða aðstandendur, þá eru þó flestir þeirra fátækir. Mér finnst aðbúnaður námsmanna ekki vera svo góður, að ekki megi sýna þeim þessa hjálparviðleitni, að veita 12–13 mönnum úr þeirra hópi vinnu við þessa verksmiðju. Þess vegna held ég fast við það, sem meiri hl. sjútvn. hefir lagt til, að námsmenn fái 1/3 af þessum vinnuplássum, og er það nokkuð í samræmi við það, sem hv. 1. þm. Skagf. fer fram á.